…þá er kominn tími til að gefa allt í botn og þyrla því upp aftur, ekki satt? Eða kannski þyrla upp ryki á nýjum stöðum? Margs er að vænta á komandi keppnistímabili í Formúlu 1. Fyrir utan hádramatíska tilfinningaflækju og margs konar óútreiknanleg fyrirbæri. Hér eru nokkur óflækt atriði.

image

Haas-liðið er loks komið með bíl sem ætti að vera samkeppnisfær.

Fyrst ber að nefna nýju bílana. Haas var fyrst keppnisliða til að afhjúpa sinn bíl, VF-22, og í dag var það RB18; bíll Red Bull. Afsakið öll! Nú heitir liðið Oracle Red Bull Racing því Oracle er nú orðinn stærsti bakhjarl liðsins og var það tilkynnt í dag um leið og bíllinn var blessaður í bak og fyrir.

Á morgun dregur Aston Martin lakið af sínu ökutæki, AMR22 og svo koll af kolli. Þetta er skemmtilegt og allt eftir nýjum kúnstarinnar reglum 2022.

image

Bíllinn var sýndur í beinni útsendingu í dag klukkan 15. Karlarnir virtust sæmilega sáttir.

Nýr heimsmeistari, Max Verstappen, þarf að verja titilinn og það gerir hann ekki með því að þamba Red Bull daginn út og inn heldur mun hann víst puða og púla heima hjá sér liggjandi á gólfinu eins og hann hefur til dæmis sýnt á Twitter. Eins og sjá má eru hátt í 30.000 fylgjendur hans hrifnir af gólfleikfimi meistarans.

image

Í mínum íþróttadöpru augum lítur út fyrir að hann hafi meitt sig á mjög óheppilegum stað og einhver **viti standi yfir honum og taki myndir í stað þess að hjálpa blessuðum drengnum. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.


Miami í maí - maí í Miami

Ekki er hægt að koma með niðurnjörvað keppnisdagatal í ár frekar en í fyrra eða 2020. Faraldur og almenn leiðindi honum tengd hafa dálítið eyðilagt skipulag og þess háttar sem maður minnist úr fortíðinni.

Eftir sem áður liggur það ljóst fyrir að tvær keppnir fara fram í Bandaríkjunum í ár. Eftir því sem fram kemur á vef Red Bull (sem enn heitir Red Bull) þá er þetta í fyrsta sinn í hátt í fjóra áratugi sem tvær keppnir í Bandaríkjunum eru skráðar á keppnisdagatal Formúlu 1 sama árið.

Þar segir enn fremur að ólíkt því sem var 1984 þegar keppt var í Detroit og svo í Dallas, þá séu keppnirnar tvær ekki samtengdar eða í röð heldur önnur í upphafi tímabilsins og hin í lok þess.

Gamalt og vonandi gott

Á keppnisdagatalinu eru nokkrar brautir  sem bæði keppendur og áhorfendur hafa saknað. Melbourne, Monreal, Singapúr og Suzuka eru á dagskrá en á þeim stöðum hefur ekki verið keppt síðan 2019. Gangi allt upp og haldist planið óbreytt þá verður þetta keppnistímabil það stappaðasta í sögunni, segja formúlufróðir.

23 keppnir takk fyrir, og lýkur tímabilinu þremur vikum fyrr en á síðasta ári.

Tengdar greinar: 


Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is