Hún er komin! Fjórða sería þáttanna Drive to Survive er nú aðgengileg á Netflix. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru þetta þættir um Formúlu 1 og það sem gerist „á bak við tjöldin“.

Hádramatískt „stöff“ svo ekki sé fastar að orði kveðið! 

Þættirnir eru 10 í hverri seríu og hafa þeir eflaust átt þátt í að vekja áhuga ólíklegasta fólks á Formúlu 1. Í það minnsta hafa þeir notið gríðarlegra vinsælda og hefur verið talað um „formúluæði“ hér á landi og víðar.

image

Hvernig sem raunveruleika eða óraunveruleika er háttað þá kynnast áhorfendur býsna áhugaverðum persónum og öðrum minna áhugaverðum. Sumum hrútleiðinlegum og öðrum sem eru svo skemmtilegar að mann langar að bjóða þeim í næsta afmæli!

Yfirbragð raunveruleikasjónvarps

Það má segja að Drive to Survive hafi frá upphafi, en mismikið þó, haft á sér blæ eða yfirbragð raunveruleikaþátta sem einhvern tíma voru aðalmálið.

Drama, spenna, svik, prettir, græðgi, öfund, gleði, baktal, vinátta, fjandskapur… já, þetta er allt þarna. En eru þetta raunveruleikaþættir eða eitt stórt og feitt handrit? Það er nú það.

Dæmi hver fyrir sig en sjálf hef ég gleypt fyrri þáttaraðir í mig og mun sporðrenna þessari líka, en þó ekki í einum munnbita. Mæli með Drive to Survive – hvort sem fólk er með bíladellu eður ei. Góða skemmtun!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is