Nóg er af yfirgefnu húsnæði í Detroit en stærsta yfirgefna verksmiðjan þar er Packard verksmiðjan. Síðasti bíllinn var framleiddur þarna árið 1956 en síðustu áratugi hafa ótrúlegustu hlutir átt sér stað í yfirgefinni verksmiðjunni. Allt frá týndum tígrisdýrum til sorpgjörninga og já, fjölmargt þar á milli. Nú á að jafna mannvirkið við jörðu. Mannvirki sem á sínum tíma hýsti tæknilegustu bifreiðaverksmiðju veraldar.

image

Packard verksmiðjan sem tekin var í notkun árið 1911 var 325.000 fermetrar að flatarmáli og landið sem hinir ýmsu hlutar verksmiðjunnar stóðu á er 16 hektarar. Ekki hefur þetta þótt nein prýði í seinni tíð en rústirnar eru í austurhluta Detroit á svæði sem heitir East Grand Boulevard.

image

Árið 1940 unnu 36.000 manns í verksmiðjunni en alls voru 1.600.000 bílar af gerðinni Packard framleiddir frá 1911 til 1956.

image

Verksmiðjuhús númer 10 í byggingu (1909-1910). Ljósmynd/Wikipedia

image

Eftir að Packard hætti bílaframleiðslu árið 1956 og síðasta skottlokinu á Packard bíl var skellt aftur hefur ekkert bílatengt verið í húsnæðinu. Ekki formlega.

Packard: Hinn ameríski Rolls-Royce

Packard framleiddi háklassa ökutæki. Tegundin þótti virkilega flott og seldist betur en Cadillac á þriðja áratug síðustu aldar. „Spurðu þann sem á Packard“ var slagorð framleiðandans á sínum tíma og vísaði til þess að allir eigendur væru í sjöunda himni með bílana. Það má segja að þetta hafi verið hinn ameríski Rolls-Royce. Svo fínn þótti hann.

image

Packard 160 árgerð 1942. Mynd/Wikimedia

Packard Six og síðar Packard Twelve voru vinsælustu gerðirnar á fyrrihluta síðustu aldar. Nöfnin vísuðu til strokka vélanna; sex og tólf strokka.

Í seinni heimsstyrjöldinni snérist framleiðslan í Packard verksmiðjunni alfarið um vélar fyrir herinn; vélar fyrir kafbáta og flugvélar. Fjöldi kvenna vann í verksmiðjunni meðan karlarnir börðust úti á vígvelli stríðsins.

image

Eftir stríð dró nokkuð úr vinsældum Packard en þá nutu smærri og ódýrari bílar mikilla vinsælda. „Baðkar“ á borð við Packard var aldeilis ekki málið í þá daga. Þá sameinuðust Packard Motor Car Co. og Studebaker Corp. í South Bend í Indiana.

image

Þrátt fyrir að framleiðsla héldi áfram undir nafninu Packard-Studebaker Corp. til ársins 1958 var síðasti Packard-inn framleiddur í Detroit þann 25. júní 1956.

Einu balli lýkur og annað hefst

Einhver fyrirtæki notuðu hluta verksmiðjunnar sem geymslurými fram yfir 1990 en frá því skömmu fyrir aldamót hefur verksmiðjan gamla bara drabbast niður. Ballið búið. Eða hvað?

image

Póstkort frá blómaskeiði Packard verksmiðjunnar í Detroit.

Nei, aldeilis ekki því ýmis vafasöm teiti voru haldin í húsnæðinu upp úr 1990 og komu þangað e-pillupoppandi ungmenni og fengu útrás fyrir alls kyns ólund og djöfulgang, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

image

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er ljóst að ýmsir hafa reynt fyrir sér í jaðarlistsköpun í húsakynnum gömlu Packard verksmiðjunnar. Graff og fleira er á veggjum og svo má ekki gleyma gjörningalistamönnunum sem margir hafa lagt leið sína á svæðið.

image

Má þar til dæmis nefna hóp fólks sem ýtti ruslabíl fram af fjórðu hæð einnar byggingarinnar.

image

Þetta var árið 2009 og mun gjörningurinn hafa verið undirbúinn í fjóra mánuði þar til bílnum var ýtt út um „gluggann“.

image

Ruslalist án tiltektar er eitthvað sem vonandi nær aldrei vinsældum opinberlega.

Eitthvað hefur verið kvikmyndað í þessari dapurlegu yfirgefnu verksmiðju og má þar til dæmis nefna atriði úr eftirtöldum myndum: 

image

Transformers: Dark of the Moon

image

Vampírumyndin Only Lovers Left Alive

image

Hrollvekjan It Follows  

Að ógleymdu fyrrum Top Gear tríóinu sem tók upp þátt í þriðju seríu The Grand Tour í Detroit. Þátturinn var sýndur í janúar 2019.

image

The Grand Tour í Detroit

image

Viku eftir sýningu þáttarins (The Grand Tour) hrundi hluti verksmiðjunnar. Pottþétt tilviljun en gott að karlarnir krömdust ekki.

Ljósmyndari týndi tígrisdýri í verksmiðjunni

Breskur ljósmyndari, David Yarrow bókaði verksmiðjuna fyrir tveggja daga ljósmyndaverkefni. Ekkert undarlegt við það, enda mjög myndrænn staður hvort heldur til kvikmynda- eða ljósmyndatöku.

image

Anthony Barchock og Andy Didorosi (sem hér sést) reyndu að hræða tígrisdýrið niður á næstu hæð. Einhvers konar illgresistætari var notaður til að „hræða“ blessaða skepnuna.

Reyndar „láðist“ ljósmyndaranum alveg að geta þess að til myndatökunnar kæmi hann með tígrisdýr, tvo úlfa og gaupu. Neinei, hann sagði ekki orð um dýragarðinn sem fylgdi honum. Gengið var út frá því að einhver „módel“ væru með í för, en að módelin væru villidýr var sannarlega eitthvað sem engum hugkvæmdist!

image

Þegar tígrisdýrið slapp hljóp það upp á fjórðu hæð og skemmti sér eflaust ágætlega á þessum risastóra leikvelli

Maðurinn sem sést á myndinni hér fyrir ofan (fyrir ofan úlfamyndina) lýsti því sem gerðist fyrir blaðamanni Detroit Free Press:

„Ég veit nú ekki margt um tígrisdýr, en okkur var sagt að við skyldum bregða okkur í hlutverk skrímsla með illgresistætara og reyna að vera ógnvekjandi og framkalla voðalegan hávaða. Það reytti tígrisdýrið bara til reiði. Þannig að við hörfuðum.“

Sá sem veitti ljósmyndaranum leyfi varð alveg trítilóður vegna alls þessa og var ljósmyndaverkefnið blásið af umsvifalaust. Einn úr tökuliðinu sagði síðar að þetta hefði nú ekki verið neitt til að tala um. „Þetta fór ekkert úr böndunum. Tígrisdýrið varð bara þreytt og vildi ekki færa sig,“ sagði hann.

Annað segja myndbönd af hamaganginum og einhver var nú ástæðan fyrir því að lögreglan sveimaði yfir svæðið á þyrlu í leit að tígrisdýri. Það hefði nú varla þurft ef eitt latt tígrisdýr hefði legið eins og klessa inni í Packard verksmiðjunni. Gaman að þessu! Já, og dýrið náðist og tókst að koma því inn í búr og allt í sóma. Eða þannig.

image

Yfirvöldum var ekki skemmt og ekki löggunni heldur.  

Háleitar hugmyndir Spánverja í Perú

Árið 2013 keypti maður að nafni Fernando Palazuelo, fjárfestir frá Perú, verksmiðjuna á uppboði. Greiddi hann 405.000 dollara fyrir og hafði orð á því að hann ætlaði að halda merki Packard á lofti. Raunar er Palazuelo fæddur í Madrid en búsettur í Perú.

Palazuelo var á þeim tíma (2013), og er enn, þekktur fyrir að kaupa sögufrægar byggingar bæði á Spáni og í Perú og voru hugmyndir hans háleitar um framtíð Packard verksmiðjunnar.

Hann ætlaði að flytja þangað sjálfur á 59 ára afmælisdaginn, þann 9. apríl 2014. Því næst ætlaði hann að glæða svæðið lífi með hinum og þessum hætti.Verkefnið gekk undir nafninu The Packard Plant Project og má lesa um það á vefsíðu verkefnisins. Stórar voru hugmyndirnar en minna fór fyrir framkvæmdum.

image

Hugmynd Palazuelo sem aldrei varð. Mynd/The Packard Plant Project

Ekki er nú ætlunin að gera lítið úr hugmyndunum því eitt var nefnilega gert: Palazuelo bauð upp á skoðunarferð um aðra hæð skrifstofubyggingarinnar þann 12. ágúst 2017. En ekkert meira en það. Árið 2020 hætti Palazuelo við öll áformin og nú eru örlög Packard verksmiðjunnar í Detroit loks ákveðin.

Hefur 42 daga til að hefjast handa

Dómsorðin voru kveðin upp í þarsíðustu viku við umdæmisdómstól Wayne County: Packard verksmiðjan skal jöfnuð við jörðu og skal Fernando Palazuelo hefjast handa innan 42ja daga frá dómsúrskurði. Þ.e. um mánuð héðan í frá. Verkinu skal lokið innan þriggja mánaða.

image

Lögmaður borgarinnar, Chuck Raimi, sagði að þetta væri skref í rétta átt enda hefði Palazuelo ekki gert nokkuð síðan hann keypti verksmiðjuna um árið á nauðungaruppboði. Þ.e. ekkert annað en að safna skuldum vegna vanrækslu, vangoldinna skatta og svo mætti lengi lengi lengi telja.

image

En hvað ef eigandinn gerir ekki neitt í málunum? „Þá er það yfirvalda í Detroit að ákveða hvort verksmiðjan verði jöfnuð við jörðu og eigandanum og fyrirtæki hans stefnt. Það kemur bara í ljós. Aðalatriðið er að losa samfélagið í eitt skipti fyrir öll við þetta skaðræði sem verksmiðjan er orðin,“ sagði Raimi við The Detroit News fyrir rúmlega viku síðan.

Já, það verða þá ekki fleiri tígrisdýr á hlaupum, fljúgandi ruslabílar og graffandi jaðarlistamenn í þeirri verksmiðju. 111 ára sögu Packard-veldisins lýkur væntanlega á þessu ári. Nema annað komi í ljós.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is