The Eagle has landed!

19. júlí sl voru liðin 53 ár frá fyrstu komu manna til tunglsins. “The Eagle has landed” var tilkynningin sem geimfararnir sendu til Jarðar til að tilkynna komu sína á áfangastað. Þessi sömu orð notaði American Motors Corporation í auglýsingaherferð um 1980, með viðbótinni “… on all four” þegar þeir hófu framleiðslu AMC Eagle.

Þessi nú nánast gleymdi bíll rifjaðist upp fyrir mér þegar einn slíkur var boðinn til sölu hérlendis og kornungur frændi minn benti mér á hann. Þá fór ég að grufla í minningunum og sögunni.

image

Engar heimildir hef ég við höndina um sögu AMC Eagle á Íslandi. Man bara að hann vakti athygli á sínum tíma og margir höfðu á honum dálæti, enda seldist hann nógu vel til þess að maður sá þetta úti um allt og man vel eftir þeim. Þetta er á þeim tíma í bílasögunni þegar mörkin milli fólksbíla og jeppa byrja að skolast til; þróun, sem staðið hefur æ síðan og hefur leitt til þess að í dag eru þau með öllu óskiljanleg (sjá greinina “hvenær er jeppi jeppi” hér á vefnum).

En þessi bíll er eiginlega gleymdur, algerlega óverðskuldað. Sögulega séð. Með honum bauð AMC eitthvað nýtt og öðruvísi.

Vissulega fann AMC ekki upp fjórhjóladrifna fólksbílinn. Slíkir höfðu oft sést áður í bílasögunni, en aldrei náð verulegri hylli. En eitthvað var í gangi á nákvæmlega þessum tíma. Subaru hóf að bjóða Bandaríkjamönnum litla fjórhjóladrifna Subarua 1972, sem síðan slógu rækilega í gegn hérlendis þegar þeir bárust hingað nokkrum árum síðar.

image

Sjálfsagt hefur AMC horft til þeirra, þó seint verði sagt að þeir hafi lagt Ameríku að fótum sér.

Og á sama tíma og AMC var að föndra við Eagleinn sinn voru Audimenn hinum megin við Atlantshafið að hugsa alveg það sama. Úr varð Audi Quattro.

image

Svo þekkjum við upphækkuðu stationbílana með fjórhjóladrifi (Volvo XC70, Audi Allroad, og fullt, fullt af öðrum), sem síðan jepplingurinn (RAV4) rann saman við og öx síðan alvörujeppum nánast yfir höfuð. En nú er ég kominn fram úr mér.

image

Undir lok áttunda áratugarins var AMC í vanda, svo sem ekki í fyrsta sinn. Bílamarkaðurinn var að breytast, aðrir amerískir bílasmiðir komu fram með nýja og minni bíla, kaupendur vildu breytingar. American Motors hafði hins vegar ekki fjárhagslegt bolmagn til að þróa nýja bíla frá grunni.

Hið eina sem þeir áttu á sínum lager voru Gremlin og Pacer, Hornet og Matador. Allt svolítið gamaldags bílar, svona tæknilega séð.

En þeir áttu líka Jeep. Það sem þeir gerðu var, í ákaflega mikið einfölduðu máli að blanda saman Wagoner og Hornet. Úr varð jeppi sem leit út eins og fólksbíll.

image

Og hvað er svona merkilegt við það? Jú, Þetta er fyrir Meira en fjörutíu árum síðan. Skoðum sama konsept í dag.

Hver veit; hefði AMC haldið lífi hefðu þeir kannski ráðið þessum skika bílamarkaðarins. Hver veit. Þeir fundu hann kannski ekki upp en þeir gerðu sér mat úr honum og margt á markaði nútímans má rekja beint aftur til AMC Eagle, sem þó er nær gleymdur. Já, fáir njóta eldanna…..

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is