Bílabækur á íslensku

Þar sem Íslendingar eru bæði bíla- og bókaþjóð er ekki úr vegi að fjalla aðeins um þær bílabækur sem gefnar hafa verið út á íslensku. Eftir miðja síðustu öld voru gefnar út nokkrar bílabækur hér á landi og má m.a. nefna Hver á bílinn árið 1946, 1956 og 1959, en þessar ágætu handbækur innihéldu yfirlit yfir eigendur skráðra ökutækja, auk margvíslegra upplýsinga um viðhald bíla og umhirðu þeirra. Árið 1947 kom Jeppabókin út, en hún var íslensk þýðing á eigendahandbók Willys CJ-2, en þeir voru fluttir inn þúsundum saman á árunum eftir stríð.

Á þeim árum voru Íslendingar ekki eins sleipir í ensku og síðar varð og því var full ástæða til að gefa handbókina út á ylhýra málinu og það í vönduðu bandi.

Bíllinn eftir Jóhann Rönning kom út árið 1952, en hún var viðgerðahandbók fyrir bíleigendur, ekki ólík samnefndri bók eftir Guðna Karlsson sem kom út nokkrum áratugum síðar og margir muna eflaust eftir.

Fyrsta íslenska bílasöguritið kom út árið 1956, en það var Bifreiðir á Íslandi 1904–1930 eftir Guðlaug Jónsson lögregluþjón, sem síðar var endurútgefin af Bílgreinasambandinu árið 1983.

Á svipuðum tíma kom út lítið kver eftir Kristin Snæland leigubílstjóra, Bílar á Íslandi 1904–1922. Síðan gerðist fátt markvert fyrr en á nýrri öld þegar neðangreindar bækur komu út.

image

Þetta er mest selda íslenska bílabókin, en hún var prentuð í yfir 5000 eintökum og er löngu uppseld.

Bókin Saga bílsins á Íslandi 1904-2004 eftir Sigurð Hreiðar Hreiðarsson kom út í nóvember 2004 í tilefni af 100 ára sögu bílsins á Íslandi. Hugmyndin var sú í fyrstu að Bílgreinasambandið stæði að útgáfu bókar um efnið og í framhaldi af því var stofnað fyrirtæki um útgáfuna með tilstyrk allra bílaumboða, olíufélaganna, tryggingafélaganna og fleiri fyrirtækja

image

20. júní 2004 var öld liðin frá því fyrsti bíllinn kom til Íslands. Bókin rekur upphaf bíla og bílaaldar á Íslandi og baráttuna sem þá stóð milli bíla eða járnbrauta. Fylgst er með þróun bílaumboða á Íslandi og umbrotum í bílainnflutningsmálum. Sagt er frá einstæðri björgun 100 vörubíla úr strandi við suðurströndina og frá bílunum sem herir bandamanna skildu eftir hér á landi eftir heimsstyrjöldina síðari. Gefin er hugmynd um útbreiðslu bílsins um landið og þrautseigju frumherjanna í því efni. Fjallað er um þá þróun í flutningatækni sem gert hefur bílinn allsráðandi flutningatæki á Íslandi nú til dags. Allt kryddað með áhugaverðum og lifandi frásögnum. Nær 400 myndir eru í bókinni, þar af um 300 sem ekki hafa áður birst opinberlega

image

Bókin Króm og hvítir hringir er 440 blaðsíðna stórvirki eftir Örn Sigurðsson sem kom út árið 2014 og rekur á einstakan hátt sögu helstu bílategunda liðinnar aldar. Þróun þeirra birtist lesandanum á ljóslifandi hátt á yfir 700 myndum sem sýna glæsilega bíla, einstæðar línur þeirra, fjölbreytt mælaborð og margvíslegar vélar. Hér finna allir bílaáhugamenn eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir aðhyllast glæsikerrur kreppuáranna, litskrúðuga krómvagna eftirstríðsáranna eða kraftabíla sjöunda áratugarins.

image

Í þessari bók er fjallað um 18 bílategundir sem allar eiga það sammerkt að hafa verið á götum og vegum Íslands í gegnum tíðina.

Það kemur ekki á óvart að 15 þeirra eru amerískar, en hinar þrjár evrópskar, enda voru þeir bandarísku í miklum meirihluta hérlendis á gullaldarárum bílsins. Bókin ætti að vera til í hillum allra bílaáhugamanna, en hún var prentuð í stóru upplagi og er ennþá fáanleg á heimasíðu Forlagsins.

image

Eins og flestir bílamenn vita umbreyttust bílar á þessum byltingarárum og hafa menn aldrei orðið vitni að öðrum eins útlitsbreytingum á einum og hálfum áratug.

Bókin rifjar þetta minnisstæða tímabil upp með yfir 400 myndum af flottustu bílunum og auglýsingunum sem notaðar voru til að kynna þá. Greint er frá því helsta sem gerðist á þessum árum og stiklað á stóru í sögu framleiðendanna. Sjá á vef forlagsins.

image

Bókin Auðnustjarnan eftir Örn Sigurðursson kom út hjá Forlaginu árið 2017, en hún rekur sögu Mercedes-Benz allt frá árinu 1886 með yfir 400 myndum af glæsivögnum jafnt sem smábílum, sem allir eiga það sameiginlegt að vera framleiddir af yfirburða kunnáttu og vandvirkni.

image

Í bókinni er sérstakur kafli helgaður langri og farsælli sögu Mercedes-Benz á Íslandi, sérstaklega brautryðjandans Ræsis, sem varðveitti margar myndir í safni sínu frá árdögum auðnustjörnunnar á Íslandi, m.a. af fyrstu bílasýningunni árið 1954, sem markaði innreið nútíma bílasölu á Íslandi.

Uppsetning bókarinnar er til fyrirmyndar, en í öllum köflum hennar eru sérstakir söguplattar sem gera hana einstaklega læsilega og upplýsandi. Er vonandi að fleiri bækur um aðrar bílategundir í þessu formi eigi eftir að koma út á næstu árum. Sjá á vef forlagsins.

image

Fjallað er um bíla í öllum hestaflaflokkum, allt frá hófstilltum fjölskyldusportbílum upp í öflugustu kraftabíla sögunnar og birtar tæknilegar upplýsingar um vélarstærðir þeirra, afl og afköst.

Sérstakur kafli er helgaður kraftabílum á Íslandi. Þetta er einstaklega vel hönnuð og eiguleg bók sem mælt er með að allir sannir bílamenn eigi í bókahillu sinni. Sjá á vef forlagsins.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is