Happdrættisbíllinn í kassanum

Einn frægasti happdrættisbíll sögunnar er án efa Plymouth Belvedere sem jarðsettur var splunkunýr fyrir framan ráðhús Tulsa-borgar í Oklahoma árið 1957. Happdrættið fólst í því að sá einstaklingur sem kæmist næst því að giska á hver íbúafjölda borgarinnar yrði 50 árum síðar fengi bílinn til eignar.

image

Nýr Plymouth Belvedere sígur niður í jörðina í Tulsa-borg í Oklahoma árið 1957, þar sem hann átti eftir að dvelja næstu hálfa öldina við misjafnar aðstæður. Draga átti í síðbúnu happdrætti árið 2007 og sá sem giskað hafði rétt á íbúafjöldann það ár fengi hnossið til eignar.

Greftrunin 1957

Í tilefni af 50 ára afmæli Oklahoma-ríkis árið 1957 tóku borgaryfirvöld í Tulsa-borg ákvörðun um að jarðsetja nýjan Plymouth Belvedere ásamt ýmsum öðrum samtímavarningi til að fólk framtíðarinnar, nánar tiltekið árið 2007, gæti séð hvernig lífið hefði verið forðum daga. Um miðja síðustu öld leit fólk á ártalið 2000 sem fjarlæga framtíð þar sem allt yrði breytt og margir eflaust fluttir á aðrar plánetur.

Tulsa-menn gripu frasann á lofti og bjuggu til sitt eigið slagorð „skyndilega er 2007 runnið upp“ og hvöttu almenning til að taka þátt í spurningaleiknum sem snérist um að giska á íbúafjöldann það ár.

Og þar með varð til það happdrætti sögunnar sem lengst hefur tekið að fá botninn í, enda gerðu flestir þátttakendur sér grein fyrir að vera fyrir löngu dauðir áður en úrslitin lægju fyrir. Að vísu hafði verið dregið um annan Plymouth í öðru happdrætti skömmu fyrir jarðsetninguna, svona til að draga úr mestu spennunni.

Þegar bílnum hafði verið slakað í kassann að viðstöddu fjölmenni var sett á hann yfirbreiðsla úr plasti, lokinu smellt á og eins meters þykkum jarðvegi mokað yfir.

Uppstigningin 2007

Eftir því sem árin liðu jókst spenningurinn yfir bílnum í gröfinni og þegar aldamótin voru afstaðin fóru margir að spá í hvernig bílnum heilsaðist undir ráðhúslóðinni. Flestir voru á því að hann væri eins og nýr, en einhverjir höfðu áhyggjur af rakamyndun í kassanum, enda sjaldan talið gott að geyma járnhluti neðanjarðar.

image

Svona leit Plymminn út þegar hann var hífður upp úr kassanum í júní 2007, hálfri öld eftir að hann var látinn síga niður. Kassinn átti vissulega að þola kjarnorkusprengju en hélt hins vegar hvorki vatni né vindi og var því fullur að skolpi þegar hann var opnaður.

Þann 14. júní árið 2007 rann stóri dagurinn upp í Tulsa, þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Oklahoma-ríkis. Þegar lokinu var lyft af kassanum blasti við mönnum yfirbreiddur bíll á bólakafi í vatni. Þó að kassinn hafi verið kjarnorkuheldur þá reyndist hann ekki loftþéttur og því átti vatn greiða leið inn.

image

Það var ófögur sjón sem blasti við mönnum þegar plastyfirbreiðslunni var svipt af bílnum í sýningarhöll Tulsa-borgar. Gárungar um allan heim skelltu sér á lær og sögðu Kanana ekki ráða við að varðveita hluti neðanjarðar í hálfa öld, eitthvað sem Egyptar höfðu farið létt með í yfir 5000 ár.

image

Bílamaðurinn frægi Boyd Coddington átti að setjast um borð í Plymmann og snúa lyklinum, en hurðirnar reyndust ryðgaðar fastar, líkt og lykillinn í svissinum. Coddington fékk áfall þegar hann sá bílinn og var sjálfur jarðsettur átta mánuðum síðar, 63 ára að aldri.

Ekki leit dæmið vel út, en þar sem bíllinn var plastklæddur höfðu menn enga hugmynd um ástand hans. Eftir að vatninu hafði verið dælt úr kassanum var bílnum lyft upp og ekið með hann á vörubílspalli til ráðstefnuhallar borgarinnar þar sem sýna átti hann almenningi. Bílamaðurinn Boyd Coddington hafði verið boðaður á staðinn til að afhjúpa bílinn, opna hann, setjast undir stýri og jafnvel starta honum.

Þegar gamla seglinu var svipt af blasti við haugryðgaður og handónýtur bíll sem enginn vildi koma nálægt eða setjast inn í.

Boyd, sem átti að ræsa bílinn við fagnaðarlæti viðstaddra, var ekki skemmt, því meira að segja lykillinn var ryðgaður fastur í svissinum. Af þeim 812 sem tekið höfðu þátt í happdrættinu árið 1957 hafði maður að nafni Raymond Humbertson komist næst því að giska á íbúafjöldann árið 2007, en hann nefndi töluna 384.743, sem var ansi nálægt þeim 382.457 einstaklingum sem þá bjuggu í Tulsa. Raymond þurfti hins vegar engar áhyggjur að hafa af ryðhaugnum á sviðinu því hann hafði kvatt jarðvistina árið 1979.

Hvað varð svo um ryðdolluna?

Haustið 2007 var Plymminn sendur til fyrirtækisins Ultra One í New Jersey sem sérhæfir sig í að losa ryð úr bílum með kemískum efnum. Sú meðhöndlun tók nokkur ár, enda þykkt lag af harðri drullu og ryði á öllum bílnum. Tulsa-borg var boðið að taka aftur við gripnum en aftók það með öllu, enda ráðamenn þar búnir að fá sig fullsadda af athugasemdum og glósum varðandi slælega varðveislu bílsins.

image

Eftir áralanga meðhöndlun hjá Ultra One-fyrirtækinu í New Jersey lagaðist útlit Plymmans eilítið og núna hefur honum verið komið fyrir á safni í Illinois. Hvort hann verður minnisvarði um fáránlegt happdrætti eða lélega verkkunnáttu skal ósagt látið, en sagan er engu að síður eftirminnileg.

Gárungar sögðu að Egyptar hefðu farið létt með að varðveita hluti neðanjarðar í 5000 ár, eitthvað sem kúrekunum í Oklahoma hefði ekki einu sinni tekist á hálfri öld. Smithsonian-safnið í Washington fúlsaði einnig við bílnum, enda teldist hann seint til þjóðargersema.

Eftir tíu ára pattstöðu tókst Ultra One loksins að losna við Plymmann þegar lítið bílasafn í bænum Roscoe í Illinois-ríki, Historic Auto Attraction Museum, bauðst til að skjóta yfir hann skjólshúsi og varðveita til framtíðar ásamt ryðguðu olíu- og bjórdósunum úr skottinu. Íslenskir fornbílamenn sem leið eiga til Chicago ættu ekki láta ógert að heimsækja þennan sögufræga bíl, sem staðsettur er rétt rúmlega 100 km vestur af stórborginni.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is