Þetta byrjaði allt nokkrum mánuðum áður en ég fékk ofnæmi. Fyrst fékk ég mér Abyssiníukött og svo fékk ég „mér“ ofnæmi. Og hvað í veröldinni hafa kettir með bíla að gera? Það er nefnilega stóra snilldin!

Engar áhyggjur gott fólk, þetta er ekki að fara út í einhverja vitleysu hér. Þvert á móti. Þetta er allt á hárréttri leið. Bílablogg er enn um bíla.

Ef þessi furðulegi köttur sem ég átti var sem sagt af tegundinni Abyssinian og þannig kettir eru með stór eyru, fáránlega klárir margir hverjir og svei mér ef þeir eru ekki með húmor.

image

Tveir fyndnir. Mynd/Unsplash

Minn köttur var með þetta allt auk þess sem hann hafði gríðarlegan áhuga á bílum.

Bílar, ryksugur og hárþurrkur  

Hann fékk nafnið Apú (í höfuðið á Indverjanum í Simpsons – man ekki af hverju) og gerði margt sem ég vissi ekki að kettir gerðu: Hafði yndi af að fara í bað og sturtu, var mjög hrifinn af ryksugunni og sat jafnvel á henni meðan maður ryksugaði (þetta var fyrir tíma ryksuguróbótanna, því miður. Apú hefði nú kunnað vel við að eiga ryksuguróbót sem vin). Jú og honum fannst fínt að láta hárþurrku sjá um að þurrka sig eftir bað.

image

Apu úr Simpsonsþáttunum

En nú komum við að máli málanna! Hann var bílasjúkur. Hann hafði svo gaman af að fara í bíltúra að hann tróð sér inn í hvaða bíl sem hann gat komist inn í. Þar sat hann og beið eins og fínn maður. Tjah, eða fínn köttur. Í farþegasætinu fram í.

image

Svona leit Apú út þegar hann var orðinn stór. Mynd/Unsplash

Ef einhver var að tína dót út úr bílnum sínum þá var næsta víst að Apú var á augabragði kominn inn í bíl og tilbúinn að fara á rúntinn. Hann tróð sér meira að segja inn um glugga ef einhver var svo sniðugur að skilja eftir opinn bílglugga.

Bíltúraæðið byrjar

Ég komst að því að Apú væri bílaköttur þegar hann var agnarsmár kettlingur (hann var eiginlega ekkert nema eyrun – risastór eyru og undir þeim leyndist lítill kettlingur). Með hnút í maganum fór ég af illri nauðsyn með Apú út í bíl því eitthvert þurfti ég að fara og gat ekki skilið greyið eftir heima. Auðvitað óttaðist ég að hann myndi „fríka út“ í bílnum en ekkert átti ég búrið.

image

Hann byrjaði á því að brölta upp á öxlina á mér. „Jæja, ætlar hann nú að spóla á mér áður en hann spænir í sig toppklæðninguna í bílnum?“ hugsaði ég áhyggjufull. En áhyggjurnar reyndust algjörlega óþarfar.

Apú vildi einfaldlega komast nógu hátt upp til að sjá sem best út. Hann vildi hafa góða yfirsýn yfir þetta magnaða sjónarspil sem umferðin er.

Honda Civic 1988 árgerð

Þetta hefur verið kúnstugt par sem ferðaðist um á Hondu Civic ´88: Stelpa í lopapeysu með kött á annarri öxlinni. Enda var horft á okkur.

image

Svona var hann garmurinn sá. 1987/1988 árgerðin.

Manni var ekki vel við að gera svona, að aka um með lausan kött á öxlinni. Það var ekki sniðugt fyrir átján árum og ekki heldur í dag. Þannig að þetta gerði maður bara örsjaldan. En Apú skildi það náttúrulega ekki; enda sagður eiga níu líf eins og aðrir kettir. Þess vegna sat hann fyrir utan bílinn í von um að einhver sæi aumur á honum og byði honum í bíltúr.

Og af sömu ástæðu laumaði hann sér inn í bíla ókunnugra þegar hann gat og beið eftir bíltúrnum sem hann vonaði að í vændum væri. Oft við litla hrifningu bíleigenda sem dauðbrá þegar í ljós kom að tígulegur köttur sat grafkyrr í farþegasætinu.

Nú skyldi maður ætla að undirrituð ætti milljón myndir af þessum merkilega ketti en svo er nú ekki og hvað þá myndbönd. Nei, ekki eitt einasta! Fyrir utan þá staðreynd að ég fékk kattarofnæmi einn daginn og skildi þá við eiginmanninn og Apú í leiðinni. En það er nú önnur saga…

Eru kettir almennt hrifnir af bílferðum?

Eftir smá grúsk á veraldarvefnum er alveg ljóst að svarið er NEI. Alla jafna er þeim meinilla við bíla og bílferðir. Þeir eiga það til að væla út í eitt, tryllast eða eitthvað enn verra og hættulegra.

image

Ætli þetta sé ekki algengari sjón?

Hins vegar eru undantekningar á því, eins og dæmið að ofan sannar. En þar sem engar á ég myndirnar fylgja hér myndbönd af sérstökum bílaköttum. Mjög sérstökum meira að segja. En það var ekki um auðugan garð að gresja svo þetta verður að duga.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is