Geta leigubílar orðið frægir? Já, alveg ofboðslega! Hver þekkir ekki London-taxann, The Black Cab, eða þann gula í New York? Hér eru þeir og nokkrir til viðbótar.

Fyrst sá guli og sá svarti hafa þegar verið nefndir er ekki annað hægt en að byrja á þeim sem eru einhvers staðar þar á milli og eru bæði svartir og gulir!

Mumbai: Vinsælli en pizzur

image

Padmini. Indversk-ítalski Fiatinn. Myndir/Unsplash

Þeir voru ekki með loftkælingu en þó þægilegir og settu svip sinn á Mumbai; Premier Padmini leigubílarnir. Innlend framleiðsla á Fiat 1100 var kölluð Fiat 1100 Delight, þegar fyrstu bílarnir komu á götuna árið 1965. Nafninu var breytt í Premier President árið 1965 og enn var því breytt árið 1974. Til heiðurs indversku drottningunni Padmini voru leigubílar borgarinnar kallaðir Premier Padmini.

image

Aðalspaðarnir í Mumbai í marga áratugi!

Næstu þrjá áratugina bókstaflega áttu þessir gulu og svörtu leigubílar göturnar í Mumbai. Blaðamaður Times of India komst skemmtilega að orði í grein um bílana árið 2019 þegar hann skrifaði að þessi indversk-ítalski bíll hafi verið „vinsælli en pizzurnar í Bombay“ en því miður hafi bílarnir þurft frá að hverfa efttir margra áratuga þjónustu í Mumbai.

Barcelona: Heimssýningin breytti öllu

image

Það skiptir ekki máli hvaða leigubílastöð þeir tilheyra: Allir leigubílar í Barcelona eru gulir og svartir.

Fjöldi leigubíla í Barcelona er rétt yfir 10.000 og lítið um að ferðalangar séu féflettir; svo framarlega sem þeir gæta þess að fá aðeins far með þeim gulu og svörtu!

image

Nokkrir gulir og svartir leigubílar í Barcelona.

Madagaskar: Fer ekki ófullur af stað

image

Sveitaleigubílar Madagaskar eru ekki mjög öflugir og heldur ekki þægilegir. Þeir eru kallaðir taxi brousse (bush taxi) og vel nýttir (lesist: troðið eins og hægt er í þá) bæði af innfæddum og ferðalöngum sem vilja flakka um þetta eyríki í Indlandshafi.

image

„Þeir eru hægfara og óþægilegir, en stundum eini kosturinn sem maður hefur annan en þann að leigja sér jeppa. Í þessum bílum er lítið sem ekkert fótapláss og börn sofa á manni þar sem maður situr. En maður sparar heila hrúgu af peningum.“

Þarf að vera fullur

Hér er sem betur fer ekki átt við bílstjórann heldur leigubílinn. Hann fer af stað þegar hann er orðinn fullur af fólki og farangri.

image

Vitna ég hér aftur í skrif ferðalangsins um þennan ferðamáta á eyjunni Madagaskar: „Taxi brousse fara af stað þegar þeir eru fullir. Sem getur verið innan tíu mínútna eða eða eftir hálfan dag. Meðalbiðtíminn á okkar ferðalagi var tvær klukkustundir.“

image

Ætli það sé ekki að verða passlega fullt hér?

Kúnstugt en án efa eftirminnilegt!

Hong Kong: Snjallir farþegar rauðra bíla

image

Í Hong Kong er leigubílum skipt niður á þrjú svæði. Bílarnir eru í þeim lit sem tilheyrir hans „starfssvæði“ en algengastir eru rauðu leigubílarnir.

Vertu snjall farþegi

Samgöngustofa Hong Kong hvetur farþega til að vera svolítið klókir: „Be a smart taxi passenger“ segir á vefnum sem hlekkur er á hér að ofan.

image

Farþegar eru vinsamlegast beðnir að skrá hjá sér númer bílsins eða taka mynd af leyfisspjaldi bílstjórans ef eitthvað er ekki í eins og það á að vera eða ef fólk vill koma hrósi á framfæri.

London: Svartur var ódýrastur

image

The Black Cab, eða London taxi er nú með frægari leigubílum heims. Hann hefur lengst af verið af gerðinni Austin og hófst framleiðsla  Austin FX3 gerðar árið 1948 og stóð til 1958. Þá kom FX4  og var hann framleiddur ttil 1997. Smíðaðir voru rúmlega 75.000 bílar af þeirri gerð.

Af hverju svartir bílar?

Austin FX3 sem kom árið 1948 var einfaldlega framleiddur í svörtum lit. Þeir sem vildu fá bíl í öðrum lit þurftu að borga meira. Á þessum fyrstu árum eftir stríðið höfðu fæstir aura til að spreða í óþarfa og flestir héldu sig bara við svarta leigubílinn. Enn í dag þykir þetta ágætt fyrirkomulag og auðvelt að greina leigubíla frá öðrum bílum í umferðinni.

„Flýttu þér maður! Gefðu í!“

Annars á ég frekar kjánalega minningu úr svona Austin FX4. Það var árið 2000 og mér og ferðafélaga mínum tókst að víxla einhverjum flugvöllum í London. Við mættum á réttum tíma til innritunar en á rangan flugvöll. Þá var eina ráðið að stökkva inn í næsta Black Cab og fá bílstjórann til að samþykkja að aka eins hratt og hann gæti.

image

Hann gerði það. Bílstjórinn ók eins hart og hann gat í þessu farartæki og ekki þótti undirritaðri nú mikið til þess alls koma. Allir (í minningunni) tóku fram úr okkur og ég gat bara ekki stillt mig og sagði: „Flýttu þér maður! Gefðu í!“

Hann leit á mig í baksýnisspeglinum, sallarólegur, og sagði eins og gamall vitur maður (hann var kornungur): „Heyrðu vina mín? Þú ert í London taxi. Þú gerir þér grein fyrir því?“ Jú, það gerði ég. „Hann kemst ekki hraðar og reyndar er magnað að hann komist þó þetta hratt.“

Ég skammaðist mín niður í tær. En við náðum flugvélinni og eitrað augnaráð annarra farþega brenndi mann aðeins.

New York: Fleiri leigubílar en einkabílar

image

Þá er komið að þeim gulu í New York. Það er reyndar ekki alveg rétt að þeir séu allir gulir því síðan 2013 hafa grænir bæst í flotann en það er önnnur saga. Hér skal fjallað um þá gulu.

Í upphafi voru leigubílarnir í  New York rafknúnir tvíhjólavagnar og þannig var leigubílamálum háttað í borginni frá árinu 1897 til 1907. 1907 hófst innflutningur á frönskum bensínbílum og til að auðvelt væri að sjá þá voru þeir málaðir í þessum gula lit.

Nýlegar fregnir herma að sá guli eigi undir högg að sækja um þessar mundir og samkvæmt vefmiðlinum Curbed hefur snarfækkað í flotanum frá upphafi heimsfaraldurs. Fyrir faraldur voru að jafnaði 10.500 gulir leigubílar í notkun á degi hverjum. Þegar útgöngubann var í New York fækkaði bílum í notkun niður í 982 á dag!

Þegar greinin sem vitnað er í birtist (maí 2021) var fjöldinn kominn upp í 3.500. En ekki eru mörg ár síðan sagt var að í New York væru fleiri leigubílar en einkabílar. Það gæti hafa breyst.

Fyrir nokkru var skrifað um að leigubílafyrirtæki á borð við Uber og Lyft hafi bolað þeim gamla gula burt en nú stefni í að sá guli komi aftur. Í sóknarhug. Lesa má nánar um það hér.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is