Í heila öld hefur fólk getað keypt sér tilbúinn mat „beint í bílinn“. Er það ekki sturluð staðreynd að langamma manns, eða jafnvel langalangamma, gæti hafa stoppað í lúgusjoppu á Ford T Model og gætt sér á löðrandi borgara? Pælið bara í því!

Mmmmmm…. Bílalúga. Bílaapótek. Bílabakarí. Bílabanki. Bílaþvottastöð. Bílabíó. Bílakjörbúð. Allt sem maður „þarf“ að gera eða getur gert ÁN þess að fara út úr bílnum. Þetta er sko ekki nýtt af nálinni; síður en svo.

image

Hér afgreiðir kaupmaður viðskiptavini kjörbúðar og „drive-thru“ er sannarlega réttnefni á því sem þarna fer fram. Árið er 1949 og jú, þetta er í Bandaríkjunum.

Það var í byrjun árs sem undirrituð rambaði fyrir tilviljun á umfjöllun um að hundrað ár væru liðin síðan byrjað var með „drive-thru“ eða „drive-in“ matsölustaði. „Beint í bílinn“ köllum við það almennt þegar matur er afgreiddur um lúgu og beinustu leið í bílinn.

Heil öld af snarli beint í bílinn! Og í tæpt ár hef ég í huganum kjamsað á þessari mögnuðu staðreynd því ég ætlaði heldur betur að skrifa um þessi stórkostlegu tímamót í sögu bílsins, ökumannsins og veitingageirans.

Í dag er síðasti séns til að halda því fram með réttu að 100 ára afmæli bílalúgunnar hafi verið fagnað í ár.

Nautn, leti eða félagsfælni?

Það er munur á drive-thru og drive-in en látum það ekki trufla um of. Hvort tveggja snýst um þá „nautn“ að sitja í bíl og borða.

Hvað svo sem kann að búa að baki þá hefur bílalúgan, alla vega í sumum tilvikum, tekið við af hundinum í hlutverkinu „besti vinur mannsins“ og starfsfólkið handan lúgunnar tekið við af hestinum sem „þarfasti þjónninn“.

Fyrst hér hefur verið minnst á dýraríkið er við hæfi að halda lengra inn í það ríki, því næst eru það svínin!

Auðvitað í Ameríku

Nei, auðvitað er ég ekki að tala um Ameríkana sem „svín“ (sá að þetta leit kjánalega út) heldur það sem talið er vera fyrsti „beint í bílinn“ matsölustaðurinn.

image

Það var staðurinn Pig Stand við Dallas-Fort Worth Highway sem opnaði árið 1921. Ökumenn lögðu bílum sínum upp við staðinn, keyptu mat af þjóni og borðuðu hann, það er að segja matinn – ekki þjóninn, í bílnum.

Þá kom til sögunnar það sem hefur verið nefnt „America's Motor Lunch".

image

Pig Stand-veitingakeðjan varð vinsæl og var í rekstri til ársins 2006.

Í grein sem birtist í blaðinu Texas Monthly árið 2015 segir að 1924, tæpum þremur árum eftir að fyrsti Pig Stand staðurinn í Dallas opnaði, hafi selst þar 50.000 grísasamlokur í hverri viku. Það er ótrúlegt í ljósi þess að á þeim tíma var íbúafjöldinn í Dallas aðeins um 250.000!

image

Þjónn á þönum og kúnnar á hjólum (eða öfugt)

Þegar viðskiptavinur ók inn á bílastæði við Pig Stand kom þjónustufólk (sem á ensku kallaðist carhops) undir eins að bílnum, tók pantanir og innan skamms var máltíðin klár. Þá var komið með matinn út á þar til gerðum bakka sem smellt var á bílrúðuna eða karminn (hvað sem þetta heitir nú) eins og sést á myndinni:

image

Tíðkaðist líka, einkum í hinni sólríku Kaliforníu, að þjónustufólk væri á hjólaskautum; því hraðar, því betra.

Árið 1931, stóð viðskiptavinum Pig Stand Nr 21 í Los Angeles, til boða að panta gegnum lúgu matarpakka (í brúnum bréfpokum) en þá voru aðrir staðir farnir að bjóða upp á annað eins og rétt eins og gorkúlur spruttu þeir upp í Bandaríkjum Norður-Ameríku: Red Giant, A&W, In-N-Out og Red's Hamburg (skiltið var ekki nógu stórt til að „hamburger“ rúmaðist allt á því og úr varð „Hamburg“, segir sagan) svo nokkrir staðir séu nefndir.

Því er ekki að furða að glasahaldari í amerískum bílum sé eldgamalt fyrirbæri í grunninn! Fólk hreinlega dýrkaði að geta gúffað í sig í bílnum. Og gerir enn.

Evrópa hrekkur í gírinn

Það tók nú „ekki nema“ 65 ár að koma þessari „etið-í-bílnum“ menningu (sem eflaust var ómenning að margra mati) til Evrópu. Það er að segja til þess hluta Evrópu sem Ísland virðist stundum ekki tilheyra.

image

„Hvernig í skrambanum virkar þetta gargan“ gæti maðurinn verið að tauta þar sem hann stendur upp við arapparatið á McDrive í Dublin 1985.

Árið 1985 opnaði McDonald´s bílalúgu við verslunarmiðstöðina Nutgrove í Rathfarnham í Dublin á Írlandi. Kallaðist fyrirbærið „McDrive“ af einstakri hógværð skyndibitakeðjunnar risavöxnu við „landnámið“ í Evrópu.

Auðvitað var Ísland langt á undan

„Piff! 1985? Ég held nú síður!“ munu einhverjir segja við þessum Evrópufréttum. Því auðvitað var lúgusjoppan löngu komin hingað til lands. Kemur kannski ekki á óvart að ein sú fyrsta eða jafnvel „sú“ fyrsta hafi verið í námunda við Kanann; nefnilega í Keflavík.

image

Bifreiðastöð Keflavíkur við Vatnsnesveg 16 árið 1961.

1961 tók Bifreiðastöð Keflavíkur ný húsakynni í notkun að Vatnsnesvegi 16 í Keflavík. Greinir svo frá í Faxa þann 1. júní 1961 þar sem húsnæðinu var lýst hátt og lágt fyrir lesendum:

Sauðkrækingar síst eftirbátar

Það er varla hægt að miða við þessa Keflvíkinga, svo snemma gerðust hlutirnir þar. En víða um land mátti fá kræsingarnar afgreiddar beinustu leið í bílinn og beinust var leiðin vissulega inn um lúguna góðu.

image

Á Akureyri þurfti enginn að örvænta enda Reykvíkingum fremri í svo mörgu, eins og bent var á nokkuð ákveðið í Dagblaðinu 1978 í bréfi frá lesanda:

image

Og dæmin eru mun fleiri en erfitt er að koma öllu að. Maður getur ekki gleypa þetta allt í einum munnbita, í einni lítilli en matarmikilli grein.

Meinlokur og KFC að lokum

Á morgun getum við sagt að það hafi verið fyrir rennisléttum 40 árum sem frétt birtist í Frjálsri verslun þess efnis að Kentucky Fried Chicken, í dag frekar kallað KFC því maður er svo lengi að bæði segja og skrifa hitt, hefði áhuga á að gera nokkuð flippað: „Þeir hafa sótt um lóð fyrir veitingastað í Reykjavík, þar sem afgreiða á fólk í bílum, „drive-in", sem svo er nefnt á ensku.“

image

Og það gerði KFC. Bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Og auðvitað á fleiri stöðum, en það þarf vart að nefna.

image

28. júní 1984 breyttist Hafnarfjörður. Þá opnaði þessi og alltaf skal þar vera tryllt að gera! Það þekkjum við Hafnfirðingarnir nú.

Ekki er hægt að ljúka greininni án þess að birta þessa stórskemmtilegu og meinfyndnu auglýsingu frá Bæjarnesti: 

image

Þessi hreinlega varð að fylgja með.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is