Árið 1965 birtist grein í Morgunblaðinu eftir sænskan listamann sem ók um íslenskar torfærur. Þ.e. það sem Íslendingar kölluðu vegi. Glöggt er gests augað og er frábært að lesa lýsingar Svíans á umferðinni, vegakerfinu og síðast en ekki síst eyjarskeggjunum: Íslendingum.

image

Svíinn Gunnar Brusewitz árið 1963. Mynd/Wikimedia.org

Greinin sem um ræðir birtist, sem fyrr segir, í Morgunblaðinu, í þýðingu Eiríks Hreins Finnbogasonar fv. útgáfustjóra Almenna bókafélagsins. Hann tók upp á því að þýða greinina þar sem honum fannst hún svo skemmtileg. Það var eins gott að hann gerði það því sænska frumtextann tókst undirritaðri alls ekki að finna. Því er hér stuðst við þýðinguna.

Bölvaður hávaði í Íslendingum

Frásögn ferðalangsins sænska hefst á umhverfislýsingum en áður en langt um líður er sögumaður kominn um borð í langferðabíl og blöskrar honum sá ægilegi hávaði sem ætlar að æra hann.

„Við héldum í einfeldni okkar, að Íslendingar væru þunglyndir, elskuðu þögn hinna víðáttumiklu eyðilanda, og létu aðeins við hátíðleg tækifæri falla eina og eina kjarnyrta vísdómssetningu höggvandi rúnamáli. Sú varð sannarlega ekki reyndin,“ skrifaði listamaðurinn sem ferðast hafði víða.

„Íslendingar elska óp og hávaða, að því komumst við fljótt. Hvergi nema í Japan höfðum við merkt aðra eins áráttu fyrir glamúrmúsik og á Íslandi — hún herjar eins og óstöðvandi umferðapest og gerir sín vart við mjög svo mismunandi tækifæri.“

Vagnstjórinn einráður yfir glymskrattanum

Lýsir hann því næst þjáningum þeirra sem ferðuðust með téðum langferðabílum:

„Sá, sem ferðast eitthvað að ráði í langferðavögnum til að kynnast þessu stórkostlega landi, fær að pínast í ríkum mæli undir þessum miskunnarlausa glymjanda. Marga klukkatíma samfleytt fá vesalings hljóðhimnurnar hans ekki andartakshvíld.“

Það kom honum (og þeim sem ferðaðist með honum en hvergi er nafngreindur) einna mest á óvart að Íslendingar virtust hlusta á hvað sem var í útvarpinu (ekki eins og fólk hafi haft um margt að velja. Reyndar hafði fólk ekki um neitt að velja og var í mörgum tilvikum einfaldlega hlustað á allt sem var í útvarpinu).

image

Myndin tengist greininni ekki beint. Skjáskot úr heimildamynd eftir Ósvald Knudsen 1964.

„Íslenzki vagnstjórinn, sem ríkir með einræðisvaldi yfir glymskratta sínum, svelgir allt með sama hvimleiða hófleysinu: glamúrmúsík, messur, verðbréfaskráningu, síldarfréttir, andleg lög og óperuaríur.“

Að því „sögðu“ eða skrifuðu ráðlagði hann Íslendingum að lækka, eða helst slökkva á útvarpinu, hafi þeir áhuga á að fá ferðamenn til landsins.

image

„Hvernig langferðavagnarnir troða sér yfir hinar mjóu brýr, er eitt af undrum Íslands, á borð við eldfjöll og hveri.“ Teikningar: Gunnar Brusewitz

Að aka bíl á Íslandi

Það ætti ekki að koma á óvart að eini kosturinn í stöðunni, að minnsta kosti í tilviki Gunnars Brusewitz, var að leigja sér bíl. Hann reyndist heldur betur ánægður með að „vera sinn eigin ekill“ á ferðalaginu um ævintýraeyjuna.

image

„Uppi í óbyggðum verður Íslendingurinn á jeppa vegagerðarmaður fyrir sjálfan sig.“

„Og vissulega er það merkilegt ævintýri, þeim, sem vanur er að troða sér áfram að sumarlagi á vegum bílmargra landa, að aka bifreið á Íslandi. Hinir 190 þús. Íslendingar búa flestir í kaupstöðunum og úti við strendurnar. Inni í landinu er eigi fátítt, að maður aki marga tugi kílómetra án þess að rekast á nokkra hræðu á veginum. Til lengdar getur þetta orðið næstum óhugnanlegt,“ skrifaði hann.

Af tækjakosti Íslendinga

„Enginn skyldi þó ætla að Íslendingar séu ekki birgir af vélknúnum tækjum. Þvert á móti, enda þótt vélvæðingin gengi hægt í fyrstu. Alllangt fram á þessa öld var hesturinn næstum eina samgöngutækið, og vegi í nútímaskilningi þess orðs, fóru þeir ekki að leggja fyrr en milli 1920 og '30.“

„Það var ekki fyrr en um 1930, að fyrsti bílinn komst eftir mörg söguleg ævintýri milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem er þó næststærsti kaupstaður landsins.“

Ferðin sem hann vísar hér til, á milli Reykjavíkur og Akureyrar, gæti sem best verið ferðin sem undirrituð fjallaði um fyrir um ári síðan. Þó var ekki farið frá Reykjavík, heldur Borgarnesi og þá grein má lesa hér.  

„Jeppi og Landrover“

Þar sem frumtextinn fannst  ekki getur undirrituð ekki vitað hvort um þýðingarvillu sé að ræða eður ei, en þýðandi virðist túka það svo að jeppi sé eitt og Land Rover annað, en þar segir:

image

Myndin er greininni óskyld en vegleysa og Land Rover eru þó einkenni greinar og myndar. Skjáskot úr heimildamynd um Öræfasveit eftir Ósvald Knudsen 1964.

Það var „ástand“ í vegamálum hér á landi, að mati Svíans og Íslendingar mörgum áratugum á eftir í vegagerð. Í það minnsta þegar Svíþjóð var til samanburðar.

„Hitt eru aðallega mjóir þjóðvegir úr grófri hraunmöl— vegir, sem eru sannarlega óþægilegir fyrir lakkið á bílnum. Þegar maður ekur þessa vegi, er einna líkast því sem vélbyssuskothríð dynji á aurbrettunum og hætta á steinkasti er stöðug og jöfn.“

image

„Íslenzku malarvegirnir fara ekki vel með lakkið á bílnum. Það er áhyggjuminna að eiga ekki bílinn sjálfur.“

Þegar umfjöllunin berst að straumhörðum jökulám og brúargerð Íslendinga virðist sögumanni fyrirmunað að skilja eitt og annað.

Tvær flugur slegnar í einu höggi

Eins og Brusewitz hefur komið ágætlega til skila, var ástand vega ekki upp á marga fiska, að hans mati, og gat hann því ómögulega mælt með að sænskir ferðamenn ferðuðust á eigin bílum um landið. En sænska blaðið sem greinin birtist upphaflega í, Motor, var sem fyrr segir gefið út af  Motormännens riksförbund, félagi bifreiðaeigenda og var mjög algengt að Svíar tækju eigin bíla með í ferðalagið. En það væri algjörlega út í hött, að mati greinarhöfundar sem þá hafði séð of mikið af íslenskum „vegum“

image

„Vegarmerkin eru ennþá einkum ætluð ríðandi mönnum með góða sjón.“

Sex gerðir vega á Íslandi

„Mjög margir vegir á íslandi voru upphaflega reiðgötur, sem hafa verið breikkaðar vegna bíla-umferðar. Á landabréfi eru merktar hvorki meira né minna en sex gerðir vega: aðal leið, vegur, ökufær gata, reiðgata, varðaður vegur, og óviss gata. Sannur Íslendingur er þó ekki smeykur við að fara óvissar götur, svo fremi hann sé á Landrover,“ skrifaði Brusewitz sem fór ásamt Sverri nokkrum á Land Rover um þau svæði sem Volkswagen átti ekki erindi.

image

Myndin tengist greininni ekki með beinum hætti en Land Rover er þetta vissulega! Skjáskot úr heimildamynd um Öræfasveit eftir Ósvald Knudsen 1964.

„Ásamt mínum nýja vini, Sverri, hef ég reynt allar þessar gerðir vega á leið minni frá Mývatni yfir eldfjallasvæðin suður til hinnar undurfögru Herðubreiðar, sem er rétt fyrir norðan Vatnajökul.

Við ókum viðstöðulaust yfir stríð fallvötn, brunuðum um víðáttumikil svæði þakin svartri hraunmöl, svo að rykið þyrlaðist upp í kilómetralangan hala á eftir okkur,- eða kröngruðumst með 5 km. hraða og drif á öllum hjólum yfir storknuð hraunhöf, þar sem áratuga umferð hafði ekki megnað að skilja eftir minnstu vegsummerki,“ og fallega lýsir hann íslensku náttúrunni, svo mikið er víst!

Höfum í huga að þegar Brusewitz var á Íslandi stóð Surtseyjargosið yfir og enn voru tvö ár í að því lyki. Það er ekki undarlegt að hann hafi upplifað landið sem „ungt“ enda í mótun beint fyrir framan hann, ef svo má segja.

image

„Okkur finnst einna helzt við séum að ferðast um landslag, þar sem ekki sé ennþá búið að koma fyrir öllum húsgögnunum, — að þá og þegar geti komið upp jarðeldur, sem breyti sjónhringnum og geri grænar lendur að svörtum, hornóttum hraunum. ​

Og þegar við horfum á litlu eldfjallaeyna hjá Surtsey spúa upp ósköpum sínum af gufumekki og ösku mót svörtum þrumuhimni, verður okkur ljóst, að enginn hefur lýst eldgosi betur en höfundur Völuspár:

Sól tér sortna.

Sökkr fold í mar.

Hverfa af himni

heiðar stjörnur.

Geisar eimi

ok aldrnari.

Leikr hár hiti

Við himin sjálfan.“

Athugið að hér á vef Árnastofnunar má lesa erindin öll en í blaðagreininni er orðalag eilítið frábrugðið því sem almennt er stuðst við í þessu erindi sem vísað er í. Ef til vill hefur það með þýðinguna að gera. Rétt að geta þess og vísa á hlekkinn hér að ofan.

Hreyfði við útlifuðum flakkara

„Þrátt fyrir alla hina stórbrotnu náttúrufegurð, sem Ísland hefur upp á að bjóða gestum sínum, hafa þó eldfjöllin og goshverirnir mesta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn. Það eru fyrirbrigði sem kitla taugarnar jafnvel á útlifuðum alheimsflakkara,“ en þannig lýsir hann sjálfum sér. Manninum sem í tvígang hafði verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna og átti, 17 árum síðar, eftir að verða heiðursdoktor við Stokkhólmsháskóla.

[Fyrst birt veturinn 2021]

Hafðir þú gaman af þessari? Þá eru þetta greinar sem þér gæti þótt skemmtilegar:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is