Mercedes-liðið í Formúlu 1 greindi frá því í fréttatilkynningu í morgun að kærurnar, sem lagðar voru fram eftir keppnina í Abu Dhabi, hefðu verið dregnar til baka. Nú ætlar liðið að einbeita sér að því að „byggja upp jákvæða ímynd Formúlu 1“.

Trúðu hvorki eigin augum né eyrum

Það er víst óhætt að segja að margir hafi orðið hissa á sviptingunum í lok keppninnar í Abu Dhabi, sem lauk með sigri Max Verstappens (Red Bull) en ekki Lewis Hamiltons (Mercedes) eins og útlit var fyrir í undir lok  keppninnar. Fyrir vikið varð Max heimsmeistari í Formúlu 1 en ekki Lewis í það skiptið.

image

Miklir ærslabelgir kættust mjög á sunnudag. Hér er Red Bull liðið ofurhresst að fagna titlinum. Sennilega var eitthvað þambað af orkudrykknum því gleðin hélst víst  fram eftir öllu. Mynd: Getty/Red Bull

„Þegar við fórum frá Abu Dhabi áttum við bágt með að trúa því sem við höfðum orðið vitni að,“ segir Mercedes í tilkynningunni.

„Það að tapa keppni, er auðvitað hluti af leiknum. En að tapa traustinu á kappaksturinum og öllu í kringum hann er eitthvað annað og meira.“  

Segir þar að liðið hafi farið vandlega yfir málin með Lewis, og ráðið ráðum sínum um hvernig rétt væri að bregðast við þessu öllu saman. Útskýringar á því af hverju kærur voru lagðar fram má lesa um hér en í stuttu máli snérist þetta, að þeirra sögn, um sanngirni og heiðarleika. Eitthvað sem liðið taldi keppnisstjórn alfarið skorta.

Allir verða vinir

Eftir miklar og „uppbyggilegar umræður við FIA og Formúlu 1, ætlum við að vinna í sameiningu að því að gera reglur og umgjörð keppninnar skýrari, til þess að keppendur velkist ekki í vafa um hvaða reglum þeir eigi að fara eftir,“ segir Mercedes.

FIA lagði til að sett yrði saman nefnd sem fara myndi nákvæmlega yfir það sem gerðist í Abu Dhabi; allt yrði gert til að efla gagnsæi í Formúlu 1.

„Við fögnum því að þeir [FIA] hafi boðið keppnisliðunum og ökumönnunum að taka þátt í þessu,“ segir í tilkynningunni og nú er heldur betur komið annað hljóð í strokkinn hjá Mercedesmönnum.

image

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, brosti nú eitthvað minna eftir keppnina á sunnudaginn.

„Mercedes-AMG Petronas liðið ætlar að leggja sitt af mörkum til byggja upp jákvæða ímynd Formúlu 1. Það gerum við fyrir öll liðin, og alla áhorfendur sem unna íþróttinni, rétt eins og við. Við felum FIA að bera ábyrgð á verkefninu sem framundan er og að því sögðu drögum við kærur okkar til baka.“

Merkilegur viðsnúningur

Ef þið haldið að þessum merkilega og skjóta viðsnúningi hjá Mercedes ljúki hér þá er það ekki alveg svo. Því kökuskrautið sjálft ofan á kökuna er eftir:

Já, hvað borðuðu þeir hjá Mercedes eiginlega í morgunmat?

Þvílíkur viðsnúningur sem þarna hefur orðið hjá liðinu og nú er að sjá hvort allir verði bara vinir og geti farið heim að halda jól. Samt ekki saman.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is