„Spurðu Max að hverju sem er,“ segir í Twitterfærslu Red Bull liðsins í Formúlu 1. Og inn hrúgast spurningarnar. Nú er tækifæri til að spyrja heimsmeistarann um hvað sem er; allt frá því hvort hann borði súrar gúrkur til þess hvort hann stilli bremsurnar oft í keppni.

image

Skjáskot/Twitter/Redbullracing

Þetta er sniðugt hjá þeim í Red Bull. Eins og sést í skjáskoti biðja þeir fólk að senda spurninguna í formi myndbands og það er mikið kænskubragð því fæstir sem ætla að vera með einhvern dólg eða derring þora að senda myndband.  

image

Þessi stelpa hér fyrir ofan spyr til dæmis að því hvaða aðferðir hann noti til að takast á við og sigrast á andstreymi. Góð spurning og áhugaverð enda hefur hugarfar afreksíþróttamanna verið rannsóknarefni vísindamanna á undanförnum árum. Eitthvað er spes þarna á milli eyrnanna á þeim sem er frábrugðið millieyrnainnihaldi annarra íþróttamanna.

Ómálefnalegu spurningarnar koma jú flestar í gegnum andlitslaust lyklaborðið. Það er greinilega auðveldara að vera durtur sem ekki sést heldur en að vera sýnilegur durtur.

image

Auðvitað glymur hæst í tómum tunnum og örstuttu eftir að Red Bull birtti færsluna byrjaði drullan að flæða frá þeim sem hafa ekkert uppbyggilegt fram að færa. En gefum þeim ekki of mikinn gaum. Hvort sem manni finnst Verstappen fínn náungi eða ekki, Red Bull gott lið eða hvað. Það skiptir ekki máli.

Margar sniðugar spurningar

Það er nú ekki á hverjum degi sem fólki býðst að spyrja ökumenn í Formúlu 1 spurninga og hvað þá heimsmeistarann sjálfan. Hér eru nokkur dæmi um sniðugar spurningar sem hafa borist en á morgun mun Max Verstappen svara einhverjum þeirra.

image

Max Verstappen brosir breitt þessa dagana og það fer honum nú bara nokkuð vel, eins og fólki almennt! Mynd:Clive Rose/Getty Images/Red Bull

„Ef þú mættir velja þér einn ökumann úr sögu Formúlu 1 sem liðsfélaga, hvern myndirðu þá velja?“ spyr til dæmis einn ungur maður.

„Ef þú mættir bara keppa á einni braut í framtíðinni, hverja myndir þú þá velja og af hverju?“ spyr enn annar.

Það er um að gera að nota tækifærið og spyrja stráksa. Áhugasamir hafa daginn í dag til að láta sér detta eitthvað stórsniðugt í hug!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is