Ökumaður Williams-liðsins í Formúlu 1, Nicholas Latifi, er miður sín yfir að hafa „valdið“ uppnámi í kappakstrinum í Abu Dhabi í gær. Latifi er ökumaðurinn sem ók á brautarvegginn á 52 hring en í framhaldi af því umturnaðist keppnin þegar aðeins 6 hringir voru eftir.

image

Nicolas Latifi

Eins og æði mörgum er kunnugt um, meira að segja þeim sem ekki hafa nokkur einasta áhuga á Formúlu 1, þá var mikill hasar á síðustu mínútum kappakstursins í Abu Dhabi í gær. Lesa má grein hérna þar sem farið er betur yfir atburðarásina sem að lokum skilaði Hollendingnum Max Verstappen heimsmeistaratitli.

Maður skyldi nú ætla að það væri nokkuð ljóst að ökumaðurinn dúndraði ekki á vegg á fleygiferð með það að markmiði að rugla í einhverjum. Nei, allra síst.

Gefið manninum ropvatn!

Ætli það hafi ekki haft ertandi áhrif á marða og klessta samvisku Latifis að heyra liðsstjóra Red Bull, Christian Horner, hafa það í flimtingum við Sky Sports að eftir keppnina „ætlaði hann að sjá til þess að kanadíski ökumaðurinn [Latifi] fengi ævibirgðir af Red Bull,“ sullinu sæta.

image

Christian Horner

Þá fyrst áttaði Latifi sig á hversu mikil áhrif óhappið hafði á gang keppninnar. „Þetta var alls ekki viljandi gert og það eina sem ég get gert er að biðjast afsökunar á að hafa skapað þessar aðstæður. Ég gerði mistök,“ sagði ökumaðurinn kanadíski.

En hann lét ekki þar við sitja heldur fór hann að útskýra hversu illa hefði gengið að ná gripi – einhvern veginn fór það nú ekki framhjá neinum – og því næst talaði hann um hversu skítug dekkin hefðu verið og skítur í loftinu og já, bara eitt allsherjar skítamál og „ég gerði mistök“, endurtók Nicholas Latifi.

Ljósmyndir: Philip Platzer /B. Lennon/ Red Bull Content Pool

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is