Sendibílar á síðustu öld

Við Íslendingar höfum alltaf þurft að hafa fyrir því að fá vörur til okkar litla lands. Svo var eyjan illa fær bílum fyrr á öldinni og erfitt að komast á milli byggðarlaga. Samt fundu menn leiðir til að fara hinar illfærustu leiðir á bílum.

Það verður að segjast að hér á landi vorum við furðufljót að hoppa á bílinn sem flutningatæki þó að hesturinn hafi áfram verið þarfasti þjóninn í  mörg ár eftir að bílar sáust hér á landi.

Ég byrjaði eitthvað að fikta við að skoða sendibíla á netinu um daginn og langaði til að sýna lesendum Bílabloggs gamla slíka sem verið höfðu í þjónustu hinna ýmsu fyrirtækja á landinu.  Ekki fann ég nú margt en myndirnar með þessari grein eru héðan og þaðan af vefnum. Aðallega opinberum vefsvæðum safna.

image

Hér er Fordinn auglýstur í Morgunblaðinu í janúar 1929. Umboðið var þá í Kaupmannahöfn.

Bitaboxin

Það eru samt nokkrir bílar sem ég man eftir frá því að ég starfaði í borginni sem sendill á litlu „bitaboxi” sem voru afar vinsælir sendibílar um 1980 og uppúr.

Ef þið eigið myndir af sendibílum eða vinnubílum sem þið hafið unnið á eða þekkið endilega deilið þeim með okkur.

Bitaboxin voru meðal annars til í gerðum frá Daihatsu, Suzuki og Subaru. Þetta voru litlir fjandar með örþunnu stáli milli ökumanns og umferðarinnar. Ekki öfundsverðir í aftanákeyrslum. Voru oftast of litlir ef eitthvað þurfti að flytja og ónýtir á ári ef menn fluttu þunga hluti dagsdaglega.

image

Subaru E10. Litlir og fluttu lítið en fjórhjóladrifnir. Takið eftir hvernig hann beygir að framan. Það small í fjórhjóladrifinu ef maður lagði vel á bílinn. Ókeyrandi nema í 4x4 í hálku.

image

Suzuki bitabox.

Ég starfaði sem pokadýr í Vörumarkaðnum sem unglingur. Ég man eftir einum hrikalegum sendibíl sem þeir keyptu árið 1974 minnir mig. Það var Ford pickup, 8 strokka beinskiptur. Mann langaði alltaf með í haugaferðir (þegar rusli var ekið á öskuhaugana í Gufunesi) á þeim bíl.

Þá voru þeir með UAZ Rússa sem losaði tennur ef maður sat á miðjustokknum lengur en góðu hófi gegndi.

image

UAZ, Rússi eins og hann var kallaður.

image

UAZ var vandaður að innan, annað er nú ekki hægt að segja.

image

Sjúkrabílar í Sovétríkjunum og í mörgum fyrrverandi löndum þeirra eru UAZ sjúkrabílar notaðir enn í dag.

Annars voru „Rúgbrauðin” vinsælust á áttunda áratugnum. Flestir í einhverjum rekstri áttu allavega einn svoleiðis bíl. Seinna kom svo Transporterinn frá VW og sá bíll var einn af sterkari sendibílum sem ég hef unnið á.

image

Rúgbrauðin voru vinsæl.

image

Hér er rúgbrauð að keyra út í sjoppuna á Sogaveginum.

Hálfur Fiat 127

Vinsælir á svipuðum tíma voru Fiat Fiorino sem var fyrri hlutinn af Fiat 127 og með boxi aftan á. Þannig voru líka til Moskvitch sendibílar – afar þungir og luralegir sendibílar. Þá voru líka til Moskvitchar sem voru einfaldlega skutbílar og í stað rúðu var sett stálplata – og voi´la; það var kominn sendibíll.

image

Fiat Fiorino.

image

Simca 1100, ágætir bílar.

image

Renault F4 sendill.

Kókararnir voru nú engin smá tryllitæki. Það voru Fordar með palli, beinskiptir og með bensínvélum. Ætli kókið hafi þurft að vera dýrara vegna bensíneyðslu útkeyrslubílanna? Stundum „duttu" flöskur af þessum bílum í beygjum eða á ljósum.

Fyrirtækið Sól í Þverholti var með stuttan Mercedes-Benz – þeir báru til dæmis gerðarheitin 508 D.

Það var stuttur bíll sem klæddur var að innan og málaður. Það var svona eins og að horfa inn í vel þrifinn sturtuklefa. Hann var alltaf fullur af smjörlíkiskössum og sólblómaolíu.

image

Einföld skilaboðin í gamla daga.

image

Mercedes-Benz 508 D. Ökumaðurinn virkar eins og tindáti við stýrið því það er svo hátt til lofts í bílnum. Einnig voru til háþekjur í stærri gerðum þessara bíla.

image

Moskvitch skutbíll.

Man einhver eftir kremlituðu Benzunum frá Ölgerðinni? Gosverksmiðjurnar notuðu mest opna bíla í flutningum á áttunda áratugnum – pallbíla. Ekki fann ég mynd af slíkum á vefnum.

image

Þessi smárúta heitir O klassi frá Mercedes. Vinsælir sendibílar og smárútur á sjöunda áratugnum.

Svarta María

Á áttunda áratugnum voru amerískir sendibílar áberandi. Að sjálfsögðu var Ford Econoline í fararbroddi en lögreglan notaði slíka bíla í sinni þjónustu og kölluðu „Svörtu Maríu”. Þá voru GMC bílar einnig vinsælir ásamt Dodge sendibílum.

image

Econoline bílar lögreglunnar voru áfram kallaðir „Svarta María" þó þeir væru orðnir hvítir.

image

Ford Econoline.

image

Ford Econoline árgerð 1974. Þetta þóttu flottir kaggar.

image

GMC sendibíll. Kraftmikill með V8.

Ekki má gleyma hinum sívinsæla og rótgróna Ford Transit en sá bíll var mikið notaður af fyrirtækjum hér á landi allt frá því að hann kom á markað um 1965.

image

Ford Transit.

image

Þá voru litlir japanskir bílar vinsælir en Mazda var þá með skutbíl sem hét 323 og var hann með stálplötu í stað glugga. Fjölmargar gerðir japanskra sendibíla voru líka á götunum. Nissan Vanette, Nissan Urban King, Toyota Hi-Ace, Toyota Lite-Ace og fleiri og fleiri.

image

Mazda 323 sendill.

Ekki má þó gleyma frönsku sendibílunum eins og Simca 1100, Peugeot 504 pickup, Renault F4 og Renault 1100 sendibílnum sem minnir svolítið á fíl ef horft er framan á hann.

image

Peugeot 504 pickup.

image

Dodge A100 árgerð 1964.

Kassabílarnir

Um 1980 voru reglur um hámarksstærð bíla miðaðar við lengd. Þannig gátu bílstjórar með venjuleg ökuréttindi ekið stærri bílum en leyft er í dag. Þá var kassinn hafður innan 5 metra en bara hærri svo þeir tækju svipað magn.

Ég ók eitt sumar bíl sem hét Hino með stórum kassa. Sá var einn leiðinlegasti bíll sem ég hef nokkru sinni ekið. Þetta hefur líklega verið 1986 árgerð.

Bílaborg, Mazda umboðið seldi þessa durga.

image

Hino var alltaf kallaður „Hino handónýti" á vinnustaðnum.

Gírskiptingin var eins og að hræra í grautarpotti og ef maður var fundvís gat maður smellt honum í einhvern af fjórum gírum sem hægt var að nota og náttúrulega bakk. Ég reif spegil af þessum bíl er ég var að bakka í þröngri götu, fór í tré sem sleit hliðarspegilinn af. Þannig var nánast ekki hægt að aka bílnum en ég komst í heimahöfn. Spegillinn var síðann soðinn fastur á stýrishúsið en titraði svo mikið að maður sá nánast aldrei neitt í honum.

Að lokum langar mig að minnast á Bedford bílana sem Mjólkursamsalan notaði. Munið þið eftir hvíta merkinu á hliðinni á þeim. Eins og baðkar á hvolfi? Furðulegt vörumerki.

Hugrenningar þessar eru langt í frá að vera tæmandi. Langaði bara að deila með ykkur nokkrum minningum og sýna myndir sem tíndar eru héðan og þaðan af vefnum og fengnar að láni frá lesendum okkar.

[Birtist fyrst í febrúar 2022]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is