Gömul og úrelt bílorð

Bíllinn á sér vel yfir hundrað ára sögu hér á landi og í upphafi bílaaldar var ekki mikið til af orðum um þá hluti sem voru í bílnum, en eftir því sem árin liðu var farið að koma fram með íslensk orð yfir ýmislegt í bílunum, sum góð en önnur voru síðri og náðu eiginlega aldrei að festast í málinu.

Innan bílgreinarinnar var komið á laggirnar „bílorðanefnd“. Innan nefndarinnar störfuðu nokkrir mætir menn sem hittust reglulega og það var kappsmál þeirra að koma með góð orð í stað þeirra „tökuorða“ sem voru orðin allsráðandi í málinu.

Meðal þeirra voru þeir Guðni Karlsson, sem var um langa hríð í forsvari fyrir Bifreiðaeftirlit ríksins og skrifaði meðal annars þá merku bók Bíllinn, sem fjallaði um bílinn og alla helstu íhluti hans, Finnbogi Eyjólfsson, sem gjarnan var kenndur við Heklu, sem var vinnustaður hans mestan hluta ævinnar og langt fram yfir þann tíma sem menn setjast í helgan stein.

Köttát og dínamór

Þegar ég fékk bílprófið fyrir 60 árum og fór um leið að umgangast bíla, þá lærði maður öll þau helstu orð sem snertu viðhald og notkun bíla.

En maður lærði fljótt að gera við allt sem maður gat sjálfur og þá þurfti að læra „réttu“ orðin yfir alla hluti.

Meðal eftirminnilegra orða má nefna „köttát“ eða Cut-Out, sem stýrði rafhleðslunni í bílnum og stýrði því hvernig rafmagnið frá „dínamónum“ var leitt til rafkerfisins og geymt í rafgeyminum.

image

„Köttát“ eða spennustillir í gömlum bíl. Í dag er þessu stýrt með litlum „transistor“ á spjaldi í rafalnum.

„Köttátið“ var lítið box og þegar það var opnað komu í ljós spólurofar sem opnuðu eða lokuðu fyrir rafstrauminn og stýrðu þannig hleðslunni frá „dínamónum“.

image

Dínamór eða breskur Lucas C42 Dynamo – í dag er „alternator“ eða rafall búinn að leysa þessa græju af hólmi og allt sem snýr að spennustillingunni er nú innbyggt i það tæki.

Kveikja og „platínur“

Kveikjan er tengd snúningsöxli og er notuð er í brunahreyflum með neistakveikju sem hafa vélrænt tímastillta kveikju. Meginhlutverk kveikjunnar er að leiða háspennustraum frá kveikjuspólunni að kertunum í réttri kveikjuröð og á réttum tíma.

image

Hér sjáum við skýringarmynd af kveikju. Í miðju hennar er öxull sem er beintengdur við vélina sjálfa,oftast með tannhjóli á enda öxulsins sem tengist móttannhjóli á ventlaöxlinum. Efst á þessum öxli situr „kveikjuhamarinn“ sem snýst innan í kveikjulokinu, og þegar snerturnar á platínunum ná saman þá senda þær háspenntan straum um hamarinn að viðkomandi kveikjuþræði sem situr í kveikjulokinu og þaðan fer neistinn til kertisins sem kveikir á bensínblöndunni í vélinni. Platínurnar vinna þannig að þær eru með „hæl“ sem leikur eftir köntuðum fleti á kveikjuöxlinum. Fletirnir eru jafnmargir strokkunum í vélinni; fjórir í fjögurra strokka vél, sex í sex strokka og svo framvegis. Þegar hællinn fer á milli flatanna, þá eru platínurnar „opnar“ – snerturnar ná ekki saman og því er enginn straumur sendur. En um leið og hællinn lendir á flötu hlið kambsins, þá ná snerturnar saman og senda strauminn.Til að stjórna því hvenær platínurnar sendu straum var stilliskrúfa og það þurfti að stilla millibilið á milli snertanna mjög nákvæmlega svo að kveikingin yrði „rétt“. Þetta var gert með því að setja blaðmál í tiltekinni þykkt, t.d 015 úr tommu eða samsvarandi í mm á milli snertanna og herða skrúfuna þegar blaðið var hvorki of þétt eða laust. Það var síðan öflug fjöður sem sá til þess að platínurnar lægju þétt að snúningsöxlinum. Til viðbótar var síðan þéttir í kveikjunni sem sá til þess að halda háspenntum straumnum nægilega háum til þess að mynda öflugan neista.

image

Hér er síðan nærmynd af platínum. Þær voru ekki alltaf til friðs: Millibilið vildi vanstillast, þá byrjuðu snerturnar að brenna og hættu að gefa nægilega gott samband og þá komu gangtruflanir, eða þá að vélin hætti hreinlega að ganga.

Það mætti halda lengi áfram að skrifa um gömul og glötuð orð út bílaheiminum, en látum þetta nægja að sinni. Meira næst.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is