Audi hefur verið að undirbúa starfsfólk sitt, ökumenn og rallbíla þeirra fyrir Dakar rallið 2022 með því að framkvæma röð prófana í eyðimörkinni í Marokkó. RSQ e-tron, sem er tvinnbíll (bensín-rafmagn) tók spretti, hemlaði harkalega, „driftaði“ og eyddi miklum tíma í loftinu.

Frægir ökumenn í reynsluakstrinum

Dakar goðsagnirnar Stéphane Peterhansel, Carlos Sainz og ökumaðurinn Mattias Ekström skiptust á að keyra RSQ e-tron frumgerðina í Marokkó. Sandstormar og snarkandi hiti gerðu sitt til að reyna á drifrásina; það er jú eyðimörk þarna. Ekki gekk allt snurðulaust fyrir sig, sem er óhjákvæmilegt, en það er vissulega betra að koma auga á vankanta bílsins meðan á prófunum stendur heldur en í miðri keppni.

image

Audi RSQ e-tron: nýi „tvinn“-rallbíllinn frá Audi

„Sum vandamál komu upp við háan hita, sem ollu ítrekað truflunum á prófunum og þurfti að leysa þau fyrir næstu prófun,“ útskýrði Sven Quandt, liðsstjóri Q Motorsport. Prófanir stóðu yfir í tvær vikur suður af Miðjarðarhafi.

Rafmagnið er notað á fjórum hjólum með pari af rafmótorum sem fengnir eru að láni frá Audi formúlu E bílum en þriðji mótorinn hjálpar til við að hlaða rafhlöðuna. Það er tiltölulega flókið kerfi; sumir hlutarnir eru íhlutir sem þegar voru til staðar en rafhlaðan var þróuð sérstaklega fyrir RSQ e-tron.

Annað atriði sem var fínstillt meðan á prófunum stóð er vinnuvistfræði bílsins. Kappakstursbílar eru hannaðir með tilliti til frammistöðu, ekki þæginda, en atriði eins og skrýtin sæti, léleg yfirsýn og þröngt innanrými geta valdið því að ökumaður og aðstoðarökumaður tapi dýrmætum sekúndum í akstrinum. Audi gerði þar af leiðandi litlar en mjög svo mikilvægar breytingar á stjórnklefanum til að skapa meira pláss fyrir áhöfnina og auðvelda samskiptin þar inni.

image

„Sú innsýn sem við fengum í Marokkó er ómetanleg, en hún sýnir okkur líka að við eigum enn mikið eftir fyrir Dakar rallið og tíminn er naumur,“ sagði Andreas Roos, yfirmaður mótorsportverkefna hjá Audi Sport. Hann hefur rétt fyrir sér: keppnin hefst í janúar 2022.

image

Audi Sport mun halda áfram að prófa RSQ e-tron við margvíslegar aðstæður og ólíkum  stöðum á næstu mánuðum. Í millitíðinni hafa starfsmenn Audi Sport í Þýskalandi byrjað að smíða annan af tveimur bílum sem munu keppa í rallinu. Hann er með undirvagn númer 104. Áhugasamir munu sjá bílana tvo í „aksjón“ í Dakar rallinu 2022 sem hefst 2. janúar í Ha’il í Sádi -Arabíu og lýkur í Jeddah 12 dögum síðar.

Í sandöldunum mun RSQ e-tron etja kappi við verðuga „andstæðinga“ en má þar til dæmis nefna BRX Hunter.

image

Sá lærdómur og reynsla sem hlýst af Dakar kappakstrinum í Marokkó og víðar kemur til með að skila sér í bílaframleiðslu Audi næstu árin. Ber þar helst að nefna hitastjórnun háspennurafhlöðu við krefjandi aðstæður.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is