Fyrir fáeinum árum hitti ég hér á landi atvinnubílstjóra frá Rúmeníu. Samtalið var fremur stirðbusalegt í upphafi og velti ég fyrir mér hvað við gætum rætt um, eitthvað tengt heimalandi hans, til að bæði brjóta og bræða ísinn. Fyrir utan þá hrollköldu staðreynd að hann talaði ekkert þeirra tungumála sem ég tala og auðvitað öfugt.

Ekki vildi ég ræða um Drakúla greifa og hugarflug mitt rambaði á sorglegum fátæktarmörkum þegar loks kviknaði á flöktandi peru í heilabúinu: Dacia!

Ekki bara bíltegund

Rúmeninn varð svo glaður þegar hann áttaði sig á hvað ég var að tala um, að honum vöknaði um augu. Kannski var hann líka dálítið dapur vegna þeirrar staðreyndar að ég og við flest berum nafnið Dacia rangt fram, en hann varð líka angurvær við tenginguna. Þurfti ég að skrifa D-A-C-I-A niður á blað og þá hrópaði maðurinn: „Ah! Dattsíja! Haha! My home!“

Jájá, þetta er nú ekkert til að hafa mörg orð um en í það minnsta gátum við „talað“ saman í þessum bíltúr okkar sem tók 20 mínútur. Þetta var að sumri til, árið 2017, og nóg af ferðamönnum. Í hvert skipti sem við mættum bíl af gerðinni Dacia (sem var æði oft) bentum við bæði, sögðum Dacia og hlógum…

Frekar kjánalegt og gott að bílferðin var ekki lengri en raun bar vitni.

Vinsæll, einfaldur og nokkuð góður

Dacia er á vissan hátt merki um góðæri hér á landi; þegar þeir eru út um allt þá er fullt af ferðamönnum. Dacia hefur verið afar vinsæl tegund hjá bílaleigum landsins undanfarin ár. Lítum á tölurnar:

Af nýskráðum bifreiðum árið 2014 voru 166 af gerðinni Dacia (smellið á hlekkinn að ofan fyrir heildarfjölda bifreiða). Árið eftir, 2015 voru þeir 386, 781 árið 2016 og haldið ykkur nú fast! 1056 árið 2017 og var það metár. 2018 voru þeir 725, 747 árið 2019 og framhaldið þekkjum við.

Staðreyndin er sú að af 30 vinsælustu tegundunum af skráðum ökutækjum á Íslandi er Dacia númer 22 og eru bílar af þeirri gerð 4.320 talsins.

Dacia er kannski þeirra „lopapeysa“

Þó svo að það hafi verið misskilningur að Rúmeninn væri frá bænum Dacia og að Dacia-verksmiðjan væri fjölskyldufyrirtækið þá er það nú svo að Rúmenar eru stoltir af tegundinni sinni - sem framleidd hefur verið frá árinu 1966. Það eiga margir Rúmenar eilítið í Dacia; hvort heldur er nafninu sjálfu eða því sem framleitt er í heimalandinu. Eða kannski á Dacia stað í hjarta Rúmena.

Rétt eins og lopapeysan, lýsið og rammíslenski hesturinn tendra logann í brjósti Íslendings í útlandinu þá gerir Dacia sennilega eitthvað svipað fyrir hið rúmenska hjarta þegar það er fjarri heimahögunum.

Reynum svo að bera þetta rétt fram! DATTSÍJA! Eða ekki. Rúmenarnir geta í það minnsta hlegið að okkur og með!  

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is