Forsetar Íslands og puttalingar

Stopular strætisvagnaferðir voru út á Álftanes hér á árum áður. Ekki veit ég hvernig það er í dag en við sem vorum til dæmis á leið út á Álftanesið eða í eitthvert húsanna við Álftanesveg, þurftum oftar en ekki að ganga dágóðan spotta þaðan sem farið var úr vagninum.

Þarna paufaðist maður og bílarnir brunuðu framhjá, skuggalega nálægt! Og ekki mátti þiggja far með ókunnugum - alls ekki og ekki datt manni það í hug.

Drossía stoppar fyrir veðurbörðum frænkum

Stundum neitaði vagnstjórinn að stoppa við gatnamótin (Engidal); benti illúðlegur á svip á skiltið sem á stóð að bannað væri að tala við vagnstjóra meðan á akstri stæði. Það virtist líka gilda þegar hann var stopp á rauðu ljósi við Engidalinn (því auðvitað hélt maður að þá mætti tala við hann en það var ekki endilega svo).

Jæja, þegar þannig stóð á var ekki um annað að ræða en að fara út á stoppistöðinni sem var til móts við búðina Músík & Sport á Reykjavíkurveginum. Þá varð göngutúrinn tvisvar sinnum lengri.

Einn daginn, þegar stjórinn neitaði að stoppa fyrir okkur frænkum (við vorum um tíu ára gamlar), snarstoppaði glansandi eðalvagn skammt fyrir framan okkur á Álftanesveginum. Bílstjórinn snarbremsaði svo almennilega að hann skransaði (í minningunni var vegurinn enn ómalbikaður þarna í kringum 1991 en maður getur víst ekki munað allt. Bara sumt). Því næst bakkaði hann alveg að okkur frænkunum og staðnæmdist. Farþeginn í aftursæti eðalvagnsins „skrúfaði“ niður rúðuna hjá sér og sagði brosandi:

„Svona, hoppið nú upp í stelpur mínar. Ég skutla ykkur!“

Þarna var á ferðinni frú Vigdís Finnbogadóttir forseti, á stífbónuðum og nánast geislandi (það var auðvitað Vigdís sem fegurðin geislaði af og það hefur smitast yfir í bílinn) Cadillac Fleetwood, árgerð 1982.

Frænka kemur hlaupandi til mín, ég sé að hún er pirruð á mér, og segir: „Komdu! Vigdís er að bíða eftir þér. Hún ætlar að skutla okkur heim!“

Á þessum tímapunkti var þetta orðið æði vandræðalegt; forsetinn prúðbúinn bíður í bílnum, bílar þjóta framhjá og rykið þyrlast yfir forsetabílinn og inn um galopinn gluggann, glerfínn bílstjórinn með spurnarsvip bíður eftir fyrirmælum forseta og tíu ára stúlka virðist eiga samtal við hraungjótu.

Farið afþökkuðum „við“ og mátti ég hlusta á skammir frænkunnar alla leiðina heim.

Já, flottur var hann, forsetabíllinn. Enda þáðu þeir Reagan og Gorbatsjov farið þótt sumir aðrir hafi ekki þorað.

image

Forsetabíllinn sem ég „fékk ekki“ far með. Þessi glæsilegi Cadillac Fleetwood er nú á samgönguminjasafninu að Ystafelli í umsjá míns góða vinar, Sverris Ingólfssonar. Myndir: Sverrir Ingólfsson/Ystafell.

Skutlað upp í Mosó á forsetabílnum

Frú Vigdís vissi sem var, að börn og unglingar þurftu oft að ganga þennan langa „spotta“ frá Engidalnum og út á nesið góða. Bað hún bílstjórann ósjaldan stoppa fyrir puttalingum og kunna eflaust margir góðar sögur af slíkum bíltúrum. Vonandi hoppuðu fæstir ofan í hraungjótu þegar þeim bauðst far með Cadillac Fleetwood.

Þetta var árið 1988 og þótti æði sérstök hugmynd hjá ungum manni að vilja fara í starfskynningu (eins og tíðkaðist á síðustu önn nemenda í grunnskóla) til sjálfs forseta Íslands.

Tókst starfskynningin afar vel, að sögn Leifs, og fór vel á með þeim Vigdísi.

Í bíó á Packard ´42

Það er ekkert nýtt að langt sé á milli Engidals og Álftaness. Þannig er það enn og þannig var það líka í forsetatíð Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins. Fyrsti forsetabíllinn var af gerðinni Packard, árgerð 1942 og með átta strokka línuvél (meira um hann síðar, kæru lesendur!).

„Hvert eruð þið að fara, ungu dömur?“ mun Sveinn Björsson hafa kallað og stúlkurnar sögðu honum það.

„Ég er líka á leið í bæinn, viljið þið ekki fá far?“ spurði forsetinn og greinir Vigdís svo frá:  

Forsetinn spjallaði við okkur á leiðinni til Reykjavíkur og var afar almennilegur.

Bíllinn renndi upp að bíóinu og þá sagði Sveinn að hann væri að fara á fund, sem yrði líklega búinn um svipað leyti og bíómyndin okkar.“

image

Packard ´42. Mynd: Wikimedia Commons.

Bílstjórinn sendur inn í bíóið

Forsetinn var nú ekkert að flækja hlutina, og kunni hann greinilega vel við farþegana (enda engir hraungjótuhopparar eins og sumir).

„Við komum bara og tökum ykkur með heim,“ sagði Sveinn við stelpurnar og bað bílstjórann um að fara inn í bíóið til að spyrja hvenær kvikmyndasýningunni lyki. Segir Vigdís Jack svo frá:

„Þegar sýningunni lauk og við komum út, stóð forsetabíllinn fyrir framan dyrnar og beið okkar. Bíógestir stóðu og fylgdust með hvaða fyrirfólk það væri sem forsetinn væri að sækja. Eflaust hafa þeir verið undrandi að sjá tvo ósköp venjulega stelpukrakka, sem enginn kannaðist við, koma úr bíóinu og setjast í bíl forseta eins og ekkert væri eðlilegra. Ég held að við höfum varla tyllt tánum á jörð í marga daga á eftir, svo ánægðar vorum við með þessa bíóferð og farið sem við fengum í forsetabílnum.“

Ekki bara í „gamla daga“

Auðvelt er að hrapa að ályktunum og hugsa með sér að svona lagað gerist ekki í dag, enda „allt svo miklu betra og alþýðlegra í gamla daga“ eins og oft heyrist sagt.

Stráksi hringdi í móður sína og sagði henni að vera alveg róleg: „Mamma þú þarft ekki að sækja mig, ég kem á for­seta­bíln­um heim eft­ir smá stund!“

Skömmu síðar sá móðir hans forsetabílinn fyrir utan húsið og, jú, út úr bílnum komu sundkapparnir tveir alsælir.

[Greinin birtist fyrst í mars 2021]

Fleira úr fortíðinni sem blaðamaður hefur játað: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is