Hvenær koma þrívíddarprentaðar bílvélar?

Ekki veit ég svarið við því og ég held að þær séu ekki að koma í bráð.

Fyrst þarf að rífa sig upp úr allskonar gömlum hugsunarhætti og opna hugann fyrir nýjum hugmyndum og hugsa hlutina upp á nýtt áður en hægt er að endurhanna bílvél og smíða hana.

Á síðasta ári þrívíddarprentaði Porsche stimpla eins og við höfum fjallað um. Þar var tekin gömul hönnun og hún endurbætt en það hefði ekki verið hægt að búa þá stimpla til með hefðbundum aðferðum.

image

Bílvél samanstendur af hundruðum hluta.

Einn aðalkosturinn sem ég sé við þrívíddarprentun er sá að það er hægt að búa til alls konar holrými þar sem það hefði verið erfitt eða ómögulegt áður.

Dæmigerður fjórgengismótor er með heddi, ventlaloki, ventlum, undirlyftum, kambásum, tímareim eða keðju (og tilheyrandi hjólum, strekkjara o.fl.), soggrein, útblástursgrein, olíupönnu og svo má lengi telja. Þetta getur allt lekið, brotnað, slitnað o.s.frv. og væri ekki bara best að losna við allt þetta dót? Ég væri alveg til í að losna við það en ég fæ nú ekki allt sem ég vil.

Með þrívíddarprentun og rafmótorum og segulspólum væri hægt að losna við allt þetta sem talið var hér upp áður eða hafa það sambyggt vélarblokkinni.

T.d. væri hægt að prenta vélarblokk sem er með sambyggðu heddi og greinum en það yrði þá efri helmingur vélarinnar. Með því að nota tölvustýrða ventla (segulspólur eins og innsprautunarspíssar eru) ásamt því að heddið og greinarnar eru orðnar partur af vélarblokkinni er engin þörf fyrir ventlalok, ventlalokspakkningu, hefðbundna ventla, ventlagorma, splitti, kambása, tímahjól, tímakeðju, o.fl. Greinapakkningum, heddpakkningum, boltum, pakkdósum, þéttingum o.s.frv. fækkar verulega.

Inni í vélinni yrði sveifarás, stimpilstangir, stimplar, olíudæla, legur, nokkrir boltar og tilheyrandi en sumt af þessu er hægt að þrívíddarprenta í endurbættri útgáfu.

image

Væri ekki frábært að þurfa aldrei að skipta um tímareim?

Er eitthvert vit í þessu eða vinnst eitthvað með þessu? Já, því þetta yrði mikið einfaldari mótor en fyrirrennarar hans, færri samsetningar, hann þyrfti minna reglulegt viðhald, bilaði sjaldnar, auðveldara að gera við hann og bilanagreina, yrði léttari, fyrirferðarminni, sterkari, eyðslugrennri og aflmeiri.

Af því ventlarnir eru tölvustýrðir er hægt að stjórna loftflæðinu inn í brunahófið á mjög nákvæman hátt og eins er hægt að stýra útblæstrinum á svipaðan máta ef þörf þykir. Það er hægt að líta á þetta sem breytilegan opnunartíma ventlanna sem er kallað á ensku Variable Valve Timing eða VVT.

Það sem Chrysler kallar Multi Displacement System MDS er auðvelt í framkvæmd þegar tölvan stjórnar ventlunum en það snýst um að gera ákveðna strokka óvirka þegar bíllinn er á jöfnum hraða, það sparar eldsneyti. Reyndar er MDS kerfið óþarflega flókið því það notar segulrofa til að loka fyrir olíuflæði að vökvaundirlyftum sem veldur því að ventlarnir opnast ekki á þeim strokkum sem á að gera óvirka (það er á sama tíma slökkt á neista og bensíni fyrir þá strokka). Segulrofarnir eru undir soggrein (milliheddi) á V-vél svo það er ekki auðvelt að komast að þeim ef eitthvað bilar.

Svona vél gæti litið svipað út og venjuleg vél en það væri líka hægt að hanna hana í mjög framúrstefnulegu útliti.

En aðrir hlutir í bíl sem gæti kannski borgað sig að þrívíddarprenta eru vatnskassar, millikælar og miðstöðvarelement. Það sem kemur út úr prentaranum er eitt heilt stykki í staðinn fyrir samsett stykki. En þá eru færri möguleikar á bilun miðað við upphaflegu hönnunina þ.e. færri veikleikar.

Einu takmörkin fyrir því hvað er hægt að prenta í þrívídd virðast vera stærð prentarans og ekki nógu mikið ímyndunarafl.

Það er nú þegar verið að prenta hús með þessari tækni eins og sést í eftirfarandi myndbandi frá því í fyrra.

Það hafa verið prentaðir gormar, demparar, öxlar, tannhjól o.fl. sem virka en sumt af því er ekki nothæft í bíla en líklega verður það í náinni framtíð. Þannig að það ætti líklega að vera hægt að prenta bíl með réttum þrívíddarprenturum nánast frá A til Ö.

Þessi tiltölulega nýja tækni getur kallað á nýjan hugsunarhátt en getur líka gefið möguleika á að framkvæma hugmyndir sem hafa rykfallið í skúffu eða möppu í áratugi því þá var ekki hægt að láta hugmyndina verða að veruleika.

Það er hægt að kaupa þrívíddarprentara víða hér á Íslandi en verðið getur verið frá tugþúsundum og upp í milljónir. Það fer m.a. eftir stærð og getu prentarans og sjálfsagt fleiru. Það er líka rekin þrívíddarprentþjónusta á Íslandi. Þú sendir þitt þrívíddarmódel til þjónustunnar og hún prentar í því magni og lit sem þú vilt (þau búa líka til þrívíddarmódel fyrir þig ef þú átt ekkert).

Er ekki málið að hrista rykið af ímyndunaraflinu og fara að prenta í þrívídd?

En ein spurning að lokum. Er hægt að prenta þrívíddarprentara í þrívíddarprentara?

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is