Nágranninn á sennilega Skoda: Gamlar bílaauglýsingar

Hvað fær fólk til að kaupa einhvern tiltekinn bíl? Hvort auglýsingar vegi þar þungt eður ei er ekki gott að segja og verður ekkert fullyrt um það hér!

Traktor á vondum vegi - tryllitæki á góðum

Hjarðhegðun er tiltölulega neikvætt orð og gerir mögulega lítið úr mannfólkinu. Þó er örugglega hægt að finna eitthvað innan auglýsingasálfræði sem gæti rennt stoðum undir að kauphegðun fólks væri „hjarðkennd“ ef svo má segja.

image

Þá er sniðugt að skoða ummæli þeirra sem höfðu eignast Trabant nokkrum árum fyrr og birt voru í auglýsingu haustið 1965:

Útvarpsþulurinn vinsæli, Jón Múli Árnason, var einn þeirra sem átti Trabant og þetta hafði hann um bílinn sinn að segja:

„Trabantinn minn er búinn að fara 25 þús. km án meiri háttar viðgerða. Hann hagar sér yfirleitt eins og traktor á vondum vegi og tryllitæki á góðum.“

„Fæ mér annan fyrir jól“

Í auglýsingunni, sem var heil síða, kom fram að næsta Trabantsending kæmi til landsins í mars 1966 og væru bílarnir mikið breyttir. Svo miklar voru breytingarnar að ekki var hægt að nefna þær allar í heilsíðuauglýsingu! „Breytingar eru samtals eitthvað á annað hundrað svo ómögulegt er að lýsa þessu nákvæmlega hér.“

Lárus var líka ánægður með Trabantinn sinn og sagði: „Líkar hann því betur, sem ég kynnist honum betur.“

image

Skoda góður á slæmum vegum

Árið 1968 auglýsti Tékkneska bifreiðaumboðið að Skodabifreiðar væru með eindæmum hentugar hér á landi. „Skodabifreiðar eru sérlega styrktar til aksturs á slæmum vegum,“ segir meðal annars í auglýsingunni.

image

Þannig mátti eiga fyrir sumarfríinu

Tuttugu árum síðar, snemma sumarið 1988, auglýsti Jöfur fjórar gerðir af Skoda. Slagorðið var: KAUPTU SKODA - ÞÁ ÁTTU FYRIR SUMARFRÍINU.

image

„Spyrjið nágrannann“

Bregðum okkur lengra aftur í tímann. Árið er 1972. Liðin eru tvö ár frá því hin magnaða rokkhljómsveit Led Zeppelin hélt tónleika í Laugardalshöll. Enn er ár í eldgosið í Heimaey.

„Um hina alkunnu þjónustu hjá SKODA þarf ekki að fjölyrða, - spyrjið nágrannann, því að hann á sennilega SKODA,“ segir blákalt í auglýsingu umboðsins frá 1972.

Ekki nóg með það heldur er nú kominn til landsins nýr sportbíll frá SKODA og er hann „fáanlegur í 3 tízkulitum“, segir í svarthvítri auglýsingunni.

image

Þó svo að auglýsingar Tékkneska bifreiðaumboðsins gæfu til kynna að Skoda væri sú bifreið er sjá mætti framan við nánast hvern einasta mannabústað hér á landi árið 1972 var raunin nú önnur. Samkvæmt Hagtíðindum 1972 var algengasti fólksbíllinn á Íslandi í árslok 1971 nefnilega Volkswagen.

image

Trabant ei meir - um sinn

Ákaflega lítið fór fyrir Trabantauglýsingum næstu árin og sagði Ingvar Helgason, í samtali við blaðamann Alþýðublaðsins 1973, að Trabant yrði ekki fluttur inn í þeirri mynd sem verið hafði síðustu níu árin.

image

Þannig var nú það. Trabant kom aftur en náði ekki sömu vinsældum og áður. Auðvitað voru Skoda- og Trabantauglýsingarnar mun fleiri á árunum 1965-1988 og hver veit nema framhald verði á þessari umfjöllun á næstunni. Kemur í ljós!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is