Flottasti bíll allra tíma

Sá sem þetta skrifar hefur oft verið spurður að því hvaða bíll sé sá flottasti af þeim bílum sem komið hafa við sögu á 47 ára bílablaðamannsferli. Svarið er mjög einfalt: Duesenberg Model J árgerð 1930.

Þannig hagaði til fyrir nokkrum áratugum að okkur Leó M. Jónssyni var boðið í reynsluakstur á nýjum bíl og aksturinn fór að hluta fram á Normandí-strönd Frakklands.

Eitt kvöldið var okkur boðið til kvöldverðar og félagar í fornbílaklúbbi staðarins ásamt stóru bílasafni í nágrenninu sáu um að ferja okkur blaðamennina frá hótelinu á veitingastað í bænum. „Okkar bíll“ reyndist vera Duesenberg Model J og okkur leið eins og þjóðhöfðingjum á leiðinni í kvöldverðinn. En Leó var svo áhugasamur um bílinn að við mæltum okkur mót við eigandann morguninn eftir og þá fengum við að aka bílnum smá spöl.

image

Duesenberg Model J árgerð 1930.

Og þá kom sér vel að fyrsti bíllinn sem ég lærði að keyra, löngu áður en ég fékk bílpróf, var Ford vörubíll, árgerð 1946-7, en sá var með ósamhæfðum gírkassa þannig að það þurfti að „tvíkúpla“, en þrátt fyrir glæsileikann var Duesenberg Model J ekki með samhæfðan gírkassa.

Þarna á staðnum var líka blæjuútgáfa af Duesenberg, mjög sjaldgæft eintak, sem við Leó heitinn fengum ekki að keyra, bara skoða!

image

Blæjuútgáfa Model SJ árgerð 1935.

En allt frá þessu er Duesenberg Model J einn sá flottasti bíll sem ég hef ekið!

Kom fyrst fram árið 1928

Duesenberg Model J er lúxusbíll gerður af Duesenberg. Bílnum var ætlað að keppa við glæsilegustu og öflugustu bíla í heimi. Hann var kynntur árið 1928, árið fyrir hrun hlutabréfamarkaðarins sem leiddi til kreppunnar miklu. Model J, sem var svo fáanlegur með forþjöppu eftir 1932, var seldur til ársins 1937.

E. L. Cord, eigandi Auburn Automobile, og annarra flutningafyrirtækja, keypti Duesenberg Motor Corporation 26. október 1926 til að nýta verkfræðikunnáttu, hæfileika og vörumerki bræðranna. Hann ætlaði að framleiða bíl til að keppa við stærð, kraft og lúxus helstu evrópsku vörumerkjanna, eins og Hispano-Suiza og Rolls-Royce.

Duesenberg Motors Company var bandarískur framleiðandi kappakstursbíla og hágæða lúxusbíla (stundum kallað „Duesy“). Fyrirtækið var stofnað af bræðrunum August og Frederick Duesenberg árið 1913 í Saint Paul í Minnesota þar sem þeir smíðuðu vélar og kappakstursbíla. Bræðurnir fluttu starfsemi sína til Elizabeth í New Jersey, árið 1916 til að framleiða vélar fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Árið 1919, þegar samningum þeirra við stjórnvöld var rift, fluttu þeir til Indianapolis, Indiana, heimili Indianapolis Motor Speedway, og stofnuðu Duesenberg Automobile. og Motors Company, Inc. (Delaware).

Eftir yfirtöku Cord fékk nýja fyrirtækið nafnið „Duesenberg, Inc.“ Fred hélt áfram í nýja sameinaða fyrirtækinu með titilinn varaforseti. Hann hafði yfirumsjón með verkfræðihluta framleiðslunnar og tilraunastarfi. August bróðir Fred, sem hafði gegnt mikilvægu hlutverki í þróun Model A og afbrigði þess, sjaldgæfa X, hafði ekkert með upphafshönnun J að gera og hafði engin formleg tengsl við Duesenberg, Inc. fyrr en síðar. Samkvæmt sérfræðingnum Marshall Merkes vildi Cord „ekki vita af Augie í nágrenninu“. Allir Duesenberg kappakstursbílar sem framleiddir voru eftir 1926 voru þó smíðaðir af Augie í fyrirtæki sem var starfrækt sérstaklega í byggingu fyrir utan aðalverksmiðju Duesenberg. Hann var einnig ábyrgur fyrir fjölda verkfræðilegra afreka eins og forþjöppunnar, en forþjöppur voru þróaðar fyrir bæði Auburn og Cord bíla.

Frumsýndur í New York 1928

Nýlega endurvakið Duesenberg fyrirtækip ætlaði að framleiða Model J, sem var frumsýndur þann 1. desember á bílasýningunni í New York 1928. Í Evrópu var bílnum hleypt af stokkunum á „Salon de l'automobile de Paris" árið 1929. Fyrsta og - á þeim tíma sem New York kynningin var - eina eintakið úr seríunni, J-101, var LeBaron, smíðaður í silfruðum og svörtum lit. Þegar kreppan mikla skall á í október 1929 hafði Duesenberg fyrirtækið aðeins smíðað um 200 bíla. 100 pantanir til viðbótar voru uppfylltar árið 1930. Þannig náði Model J ekki sínu upphaflega markmiði; að selja 500 bíla á ári.

Forþjappan kemur til sögunnar

Markaðsslagorð Duesenberg var: „Eini bíllinn sem gat farið framhjá Duesenberg var annar Duesenberg - og það var með samþykki fyrsta eigandans“.

Til að að þessi fullyrðing stæðist var kraftmikil gerð, 320 hestöfl með forþjöppu,  „SJ“ gerð, þróuð á 362 cm hjólhafi af Fred Duesenberg og kynnt í maí 1932. Bíllinn komst á 167 km/klst í öðrum gír og var með hámarkshraða 217-225 km/klst. í þriðja gír. Bíllinn komst úr núlli í 60 mílur (97 km/klst) á um átta sekúndum og 0–100 mílur (0–161 km/klst.) á 17 sekúndum, þótt SJ væri aðeins með ósamhæfðan gírkassa (þurfti að tvíkúpla á milli gírskiptinga), á sama tíma og jafnvel bestu bílar á þessum tíma voru ekki líklegir til að ná 100 km/klst. Bíllar Duesenbergs vógu að jafnaði um tvö og hálft tonn; allt að þrjú tonn var ekki óvenjulegt, miðað við fjölbreytt úrval af sérsniðnum yfirbyggingum í boði.

Með forþjöppuna við hlið mótorsins

Forþjappan á SJ var staðsett við hliðina á vélinni; lóðrétta drifskaftið kallaði á endurhannað fyrirkomulag útblástursgreina; upphaflega var þetta í formi átta útblásturgreina sem sameinaðar voru í eitt rör sem leiddi útblásturinn aftur frá vélinni, utan vélarrýmisins og í gegnum eitt gat á hægri framskerminn. Þessi áttfalda útblástursgrein reyndist vera viðkvæm fyrir sprungum og var fljótt leyst með öðru fyrirkomulagi sem leiddi fjórar greinar í gegnum hægri hlið á vélarlokinu og hægra frambrettið. Að minnsta kosti einn forþjöppu bíll er enn til með upprunalega átta gata útblæstri, en flesta er hægt að þekkja af fjórum útblástursrörum sem eru í gljáandi sveigðum málmrörum, hönnun sem Cord skráði sem vörumerki og notaði í forþjöppuútgáfur á sínum bílum og Auburn. Þessi gerð ytri útblástursröra var boðin bæði sem valkostur á nýjum gerðum J-bíla með venjulegu sogafli og sem og endurbót á fyrri gerðum J-bíla

Fred Duesenberg lést úr lungnabólgu 26. júlí 1932 vegna meiðsla sem hann hlaut í bílslysi þar sem hann ók á Murphy SJ blæjubíl. Bróðir hans, Augie, tók við störfum Freds sem yfirmaður tæknimála og Harold T. Ames varð forseti Duesenberg, Inc. Aðeins 36 eintök af SJ-bílnum voru smíðuð.

Framleiðslu hætt árið 1937

Duesenberg hætti framleiðslu árið 1937 eftir að fjármálaveldi Cord hrundi. Samt sem áður var lokið við smíði á tveimur Duesenberg til viðbótar á árunum 1937 til 1940. Sá fyrri kom frá bílasmiðnum Rollson, og sá fór til þýska listamannsins Rudolf Bauer í apríl 1940; það er bæði lengsti Duesenberg og sá síðasti sem afhentur var formlega. Sá allra síðasti sem var smíðaður var settur saman úr afgangshlutum á árunum 1938 til 1940.

(byggt á Wikipedia ofl.)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is