Samgöngusafnið á Ystafelli

Eitt af elstu og merkilegustu bílasöfnum landsins er á Ystafelli í Köldukinn, skammt frá Húsavík, en þar kom Ingólfur Kristjánsson (1921–2003) upp myndarlegu safni um síðustu aldamót, þá kominn fast að áttræðu. Hafði Ingólfur búið á Ystafelli frá stríðslokum og starfrækt þar vélaverkstæði.

Mikið var um viðgerðir á landbúnaðartækjum í sveitinni og sankaði Ingólfur að sér öllu sem til féll af gömlum bílum og járnadóti, enda ekki auðvelt að verða sér úti um varahluti í þá daga. Haft var eftir Ingólfi að hendi maður einhverju í dag þarf maður oftar en ekki á því að halda á morgun.

Smám saman fjölgaði í flotanum á grasbalanum fyrir aftan útihúsin á Ystafelli og ekki hjá því komist að bjarga heillegustu fornbílunum í hús og hefja rekstur bílasafns, sem nú er í öruggum höndum Sverris, sonar Ingólfs.

Síðan safnið var opnað hefur það stækkað umtalsvert og bílunum fjölgað að sama skapi, en þar hafa margir merkilegir fornbílar verið teknir í fóstur af öllu landinu.

Þúsundir ferðamanna heimsækja safnið árlega og núna á tímum Covid hafa Íslendingar hópast þangað. Greinarritari átti leið um Norðurland í ágúst og tók hús á Sverri sem sýndi honum safnið og allt það markverðasta, sem reyndar er heilmargt eins og glöggt má sjá á myndunum hér að neðan.

image

Í fólksbíladeild safnsins má sjá marga góða gripi, m.a. þennan Ford árgerð 1934. Við hlið hans má sjá nokkra evrópska bíla, m.a. Volkswagen Karmann Ghia og blöðru-Skóda.

image

Gamli læknisbíllinn af Kristneshæli sómir sér vel á safninu; Mercedes-Benz 180 árgerð 1955 með upprunalegu lakki, enda var hann alltaf geymdur inni á veturna.

image

Þessi fallegi Zephyr Zodiac árgerð 1955 var lengi í eigu Sigurður Björnssonar, bankaútibússtjóra á Húsavík, en hann hefur varðveist einstaklega vel og er ennþá með upprunalega lakkinu.

image

Blöðru-Skódar voru nokkur algengir á vegum landsins uppúr 1950, en þeir voru keyptir í vöruskiptum frá Tékkóslóvakíu. Þeir þóttu hins vegar heldur silalegir, enda vélavana og entust illa. Þetta er einn af örfáum sem ennþá eru til.

image

Það er ekkert alvöru bílasafn nema hafa nokkra Willys-jeppa til sýnis og Ystafell er engin undantekning frá því. Þetta ágæta eintak frá 1947 hefi lengi verið í eigu Hjalta Jóhannessonar landfræðings á Akureyri sem gerði hann upp af miklum myndarskap.

image

Sverrir á Ystafelli hefur lengi átt þennan myndarlega ´69 Ford Mustang og má segja að þetta sé hans einka fornbíll, þó upphaflega hafi hann þjónað honum sem kraftabíll.

image

Á Ystafelli er nokkuð um vörubíla og aðra atvinnubíla frá liðinni öld. Hér er AA-Ford frá 1930 með íslensku húsi, en í þá daga voru bílarnir keyptir húslausir til landsins og byggt yfir þá hér, einkum til að spara þjóðinni gjaldeyri.

image

Eitt af seinni tíma verkefnum Sverris var viðamikil uppgerð á Kristnesbílnum, Ford árgerð 1947, sem Grímur Valdimarsson á Akureyri byggði yfir á sínum tíma.

Bíllinn var notaður í ferðir á milli Kristness og Akureyrar í alla aðdrætti fyrir hælið og starfsfólkið fékk að sitja í. Yfirbyggingin var mjög vönduð smíði; útfærslan og frágangur með miklum ágætum og hvergi til sparað.

Bíllinn var tekinn í notkun í maí 1948 og notaður samfellt til september 1964.

image

Hér má til vinstri sjá merkilegan bíl, Dixie Flyer árgerð 1919, en hann er sá eini sinnar tegundar á Íslandi. Við hlið hans er Tucker-snjóbíll frá 1955.

image

Þessi merkilegi T-Ford vörubíll árgerð 1923 var upphaflega í eigu Páls Stefánssonar, en hann var lengi umboðsmaður fyrir Ford á Íslandi.

image

Elstu bílaminjarnar á Ystafelli eru án efa þessi forláta gaslukt, sem forðum var framan á N.A.G.-vörubíl Magnúsar kaupmanns á Grund í Eyjafirði, sem keypti bílinn til landsins árið 1907.

Var hann annar bíllinn sem kom til Íslands, á eftir Thomsens-bílnum sem fluttur var inn árið 1904. Fyrir ofan luktina má sjá mynd af bílnum sem kom nýlega í leitirnar.

image

Það eru ekki allir safngripirnir á Ystafelli í toppstandi. Hér er merkilegur smábíll frá árinu 1937, Fiat Topolino, sem sjálfsagt verður aldrei gerður upp, enda nauðsynlegt að sýna hvernig náttúruöflin geta farið með bílana okkar ef við pössum ekki vel upp á þá.

Þessu tengt: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is