Tvílitt tímadjásn

Gamlir og glæsilegir bílar vekja hvarvetna eftirtekt þegar þeir aka um götur og torg borgarinnar, einkum vegna þess hversu frábrugðnir þeir eru einsleitum bílum nútímans. Þessu hefur greinarhöfundur tekið eftir þegar hann leggur á sig bíltúr um miðbæinn á Buick Special árgerð 1956, en hvarvetna sem hann fer mæta honum myndavélar forvitinna ferðamanna. En þetta er ekki á sig leggjandi nema veður sé gott og götur þurrar, því svona gamlir bílar mega ekki vera úti hvenær sem er.

image

Annað sem einkennir bíla sem komnir eru yfir sextugt er sú staðreynd að þeir eiga sér langa sögu og oft á tíðum ansi merkilega. Allir gamlir bílar voru nefnilega einu sinni nýir og keyptir með því hugarfari að vera venjulegt samgöngutæki.

Hvort þeir ná því á endanum að verða fornbílar er hins vegar annað mál, en líkurnar á því eru reyndar hverfandi. Allt fer það eftir þeirri meðhöndlun sem bílarnir fá yfir ævina, hvort þeir eru svo heppnir að hætta að teljast gamlar druslur eða ná að breytast í verðmæta og eigulega fornbíla, eigendum sínum til ómældrar gleði og ánægju.

image

Umfjöllunarefni þessarar greinar var smíðað í bílaborginni Flint í Michigan-ríki í Bandaríkjunum í desember árið 1955, en í þeirri borg voru Buick-bílar smíðaðir samfellt frá árinu 1908 og allt fram undir síðustu aldamót, en þá tók General Motors ákvörðun um að einfalda alla framleiðslu sína, fækka tegundum og smíða bíla á færri stöðum.

Þá var gamla Buick-verksmiðjan jöfnuð við jörðu og Flint breyttist smám saman í glæpaborg með mengað drykkjarvatn. En á sjötta áratug síðustu aldar stóð þessi iðnaðarborg í miklum blóma, þegar mörg hundruð þúsund Buick-bílar runnu þar af færiböndunum á hverju ári. Eftir samsetningu í Flint var umræddur Buick-bíll fluttur með járnbrautarlest til miðvesturríkjanna, þar sem hann var settur af í smábænum Mitchell í Suður-Dakóta, ásamt tveimur eða þremur bílum sömu gerðar.

image

Þar voru nautgripir af Hereford-kyni aldir upp á maískorni og síðan fluttir til næstu stórborgar þar sem þeir enduðu sem steikur á diskum millistéttarinnar, sem á þessum árum blómstraði um gervöll Bandaríkin. Frú Lehman notaði Buick-bílinn til að ferðast um nærsveitir og í kaupstað, en skömmu eftir 1960 tók hún ákvörðun um að kaupa sér nýjan Buick og tók Clyde sonur hennar við þeim gamla. Hann átti þá orðið þrjár dætur, Dianne, Joanne og Jeannette, og ók Alice þeim daglega til skóla á bílnum. Síðan tóku eldri systurnar við bílnum, en þegar grunnskólanámi lauk þurftu þær að sækja nám til Mitchell, í um 20 km akstursfjarlægð frá sveitabænum.

image

Yngsta systirin, Jeannette, var sú síðasta úr Lehman-fjölskyldunni sem notaði bílinn daglega, en það var á árunum í kringum 1980 þegar hún var um tvítugt.

Fór hún oft með vinkonum sínum á bílnum í útikvikmyndahús, eða svokallað Drive-In-bíó, sem þá var starfrækt í Mitchell. Í eitt skipti var verið að sýna hrollvekjandi kvikmynd um keðjusagarmorðingjann frá Texas með Íslendingnum lítt kunna, Gunnari Hansen, í aðalhlutverki. Fylltust þær þvílíkri skelfingu yfir myndinni að þær hentu hátölurunum út úr bílnum, skrúfuðu upp rúðurnar og lögðust á gólfið. Þegar Jeannette gekk í hjónaband árið 1985 var tekin ákvörðun um að nú væri gamli Bjúkkinn búinn að gera sitt gagn hjá Lehman-fjölskyldunni, eftir að hafa þjónað þremur kynslóðum með miklum sóma í heil 30 ár. Var hann auglýstur til sölu og að lokum seldur manni frá Fargo í Norður-Dakóta.

image

Fer nú fáum sögum af bílnum þangað til dag einn snemma árs 2006 að Íslendingur búsettur í Þorlákshöfn rekst á auglýsingu á netinu um Buick árgerð 1956 til sölu vestur í Bandaríkjunum. Leist honum vel á gripinn og í ljósi hagstæðs gengis krónunnar gagnvart dollar lét hann slag standa. Kom bíllinn til landsins þá um vorið og var ákveðið að laga hann til og sprauta í dökkbláum og hvítum lit.

image

Sáu íslensku feðgarnir sér leik á borði og sendu bréf vestur um haf með myndum af bílnum, þar sem fram kom að sennilega væri gamli Buick Lehman-fjölskyldunnar kominn alla leið til Íslands.

Viku síðar kom tölvupóstur frá Suður-Dakóta þar sem grunurinn fékkst staðfestur. Þetta var sannarlega sami bíllinn og var öll fjölskyldan himinlifandi yfir að heimilisbíll þeirra og þarfasti þjónn til 30 ára skyldi enn vera til og það sem meira var, orðinn eins og nýr. Komst nú á gott samband milli þessara tveggja fjölskyldna sitt hvorum megin Atlantsála og í ágúst 2015 fór sú íslenska í heimsókn til Suður-Dakóta þar sem tekið var á móti henni eins og þjóðhöfðingjum. Nú hefur ein systranna þriggja systurnar, Jeannette, komið í heimsókn til Íslands og endurnýjað kynni sín af gamla fjölskyldubílnum, sem hún hafði ekki snert stýrið á í yfir 30 ár.

image

Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar voru Buick-bílar þriðju mest framleiddu bílar heims á eftir Chevrolet og Ford. Vinsældum þeirra má helst þakka vel heppnaðri hönnun, góðri smíði og sterkbyggðum vélum. Yfirhönnuður General Motors á þessum árum var Harley Earl, en hann lagði mikla áherslu á litríkar yfirbyggingar, kraftmiklar vélar og ríflega notkun á krómi.

image

Bíllinn er sjálfskiptur, útbúinn stiglausri Dynaflow-skiptingu, sem tryggir mjúkan og öruggan akstur. Þrátt fyrir það er gamli Buick-bíllinn töluvert frábrugðinn nútímabílum í akstri og meðhöndlun. Fjöðrunin er mjúk og farkosturinn minnir fremur á eimreið en bíl. Upptakið er hægt en öruggt og siglingin markviss, en vissara er að hafa báðar hendur á stýri, því það þarf að bregðast hratt og örugglega við öllum misfellum á hinu slitna og lasburða gatnakerfi borgarinnar.

Eftir að bíllinn komst til Reykjavíkur hefur hann fengið útlitslega yfirhalningu á ýmsan máta. Keypt voru undir hann ný dekk og vandaðar krómaðar teinafelgur. Vélin var máluð og rafkerfi endurbætt, auk þess sem innréttingin var löguð og sætin klædd. Þótt margt ágætt verði sagt um þennan bíl verður honum seint hrósað fyrir sparneytni, en mæld eyðsla innanbæjar er um 25 bensínlítrar á hverja hundrað kílómetra. Af þessum sökum er bíllinn keyrður mjög hóflega, og þá einkum um helgar í góðu veðri og einungis á sumrin, þó einn og einn rúntur hafi verið tekinn á vori og hausti. Telja núverandi eigendur sig vera með fallegan og eigulegan bíl í höndunum sem þeir hafa áhuga á að varðveita um ókomin ár og ekki spillir hin góða saga, en það má með sanni segja að í bílnum búi góður andi.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is