Ný Corolla í þremur gerðum, nýr Camry og Lexus UX

Ein djúp vetrarlægð sett mark sitt á veðrið þegar ég gekk inn í aðalstöðvar Toyoyta í Kauptúni í vikunni, erindið var að sækja heim Pál Þorsteinsson upplýsingafulltrúa fyrirtækisins og leita fregna að stöðunni á bílamarkaðnum frá hans sjónarhóli.

„Það má taka undir það að vissu leyti“ sagði Páll. Árið byrjaði vel en þegar fregnir fóru að berast af vandræðum flugfélaganna og hugsanlega fækkun ferðamanna, þá var eins og fólk tengdi þessar fréttir við samdrátt og minni hagvöxt og fór að halda að sér höndunum. Það var rætt um að það væru 10 ár frá hruninu, og eins er víst að sumir handa að sér höndum vegna kjaraviðræðna og óvissu um út komu þeirra, jafnvel verkföll“.

Nýir bílar á þessu ári

„Hér hjá okkur í Toyota var ekki mikið um nýjungar á síðasta ári, en á því eru miklar breytingar á þessu ári. Við frumsýndum alveg nýjan RAV4 í ársbyrjun, vorum raunar fyrstir í Evrópu til að frumsýna bílinn. Þá er von á þessum bíl í „hybrid“-útgáfu og með aldrifi í apríl, og það er greinilegt að margir eru spenntir fyrir þessari gerð á bílnum og hafa þegar lagt drög að kaupum á bílnum og bíða þess að fá hann afhentan með vorinu.

image

Páll stendur hér við nýjan RAV4 sem var frumsýndur fyrir nokkru og hefur fengið mjög góðar viðtökur hjá kaupendum og margir þeirra eru að bíða eftir því að „hybrid“-útgáfa komi eftir nokkrar vikur.

Ný Corolla

„En það eru spennandi tímar framundan“, sagði Páll, „því á næstu vikum eigum við von á alveg nýrri Corollu. Þetta er bíll sem er alveg nýr frá grunni og kemur í þremur gerðum, „hatchback“ eða hlaðbak, „Touring Sport“ í stationgerð og síðan „Sedan“ sem er hefðbundinn fólksbíll með skotti. Hvað varðar vélbúnaðinn þá eru líka nýjungar í Corollunni.

image

Ný Corolla í þremur útgáfum verður frumsýnd hjá Toyota á næstu vikum, hér er mynd af hatchback-útgáfunni með 2,0 lítra vél og tvítóna lit.

Corolla Hatchback/Touring Sport eru í boði með bensínvél 1,2 lítra túrbó, „hybrid“útgáfa Corolla Hatchback/Touring Sport Hybrid eru með 1,8 lítra hybrid og 2,0 lítra hybrid vélum. Fólksbílsútgáfan, Corolla Sedan er í boði með bensínvél 1,6 lítra og sem Hybrid 1,8 lítra. Við erum í raun að kynna þrjár nýjar Corollur í einu“ bætti hann við. „Auris er dottin út hjá okkur og við göngum út frá því að Corolla 1800 verði staðalbíllinn, en einnig verður spennandi að sjá hvaða viðtökur Corolla 1200 túrbó fær á markaðnum.

Nýr Camry og Lexus UX

„En það eru fleiri spennandi hlutir að gerast“, sagði Páll. „Þar er þess helst að geta að á vormánuðum eigum við líka von á alveg nýjum Toyoyta Camry. Það er nokkuð síðan Camry hefur verið fáanlegur og það bíða margir spenntir eftir þessum bíl. Toyota Avensis er horfinn á braut og Camry er ætlað að fylla það skarð og raunar gott betur. Til dæmis bíða margir leigubílstjórar eftir því að skoða bílinn og prófa. Camry er mest seldi bíll í þessum flokki í Bandaríkjunum í dag.

image

Nýr Toyoya Camry kemur á markað hér á landi með vorinu, hér í hybrid-útgáfu

Nýr Lexus UX er síðan væntanlegur, feykilega vel búinn bíll, sem verður spennandi að kynna.

Breytingar í samsetningu bílaflotans

„Annars merkjum við breytingu á samsetningu bílaflotans. Þar ber einna hæst að bílaleigurnar eru ekki lengur að taka ódýrari og minna búna bíla, heldur taka þeir bíla af sömu gerðum og hinn almenni kaupandi, vel búna, Þetta er bæði vegna þess að þeir sem leigja bílana gera meiri kröfur um aðbúnað en ekki síður vegna þess að þessir bílar fara síðan í sölu á hinum almenna markaði. Þá eru „crossover“-bíla að ná æ meiri fótfestu á markaðnum, bílar sem fara bil beggja, fólksbíls og jeppa“.

Minni breytingar í jeppahlutanum

„Í heild eru minni breytingar hjá okkur í jeppahlutanum“, sagði Páll þegar ég spurði hann út í hvað væri að gerast þar. „“Land Cruiser kom fyrir ári með breytingar sem val var tekið á móti, HiLux-pallbíllinn er einnig tiltölulega nýlegur og er mjög vel búinn í dag. Þar er ánægjuleg breyting að mun færri kjósa að setja hús á pallinn, en loka honum á annan hátt, því þetta gerir Hillux mun sportlegri.

Miklar sveiflur

„Við höfum verið að sjá rosalegar sveiflur á markaðnum á undanförnum árum. Það kom toppur árið 2005 ogs íðan aftur 2017. Við vorum því viðbúnir að árið 2018 yrði ekki eins gott og árið á undan, sem gekk eftir.

Bílaflotinn er að eldast, meðalaldurinn erum 12 ár en ætti að vera 8-9 ár ef ástandið væri eðlilegt. Þegar við horfum á þessar sveiflur á blaði þá hef ég oft sagt að þetta eru „íslensku alparnir“ þegar við horfum á hvernig línuritið sveiflast á milli ára“.

Fyrst og fremst framfarir í tækni

Þegar ég spurði síðan Pál í lokin hvernig hann sæi nánustu framtíð í bílaiðnaðinum, þá var svarið „fyrst og fremst framfarir í tækni og öryggisbúnaði“. „Við höfum séð hvernig bílarnir eru sífellt að verða öruggari, menn eru að gera tilraunir með sjálfkeyrandi bíla“. Allt þetta skilar sér í öruggari bílum og gerir okkur að betri bílstjórum. Sem dæmi nefndi Páll skriðstilli með aksturaðlögun, sem tekur völdin og fylgir hraða bílsins fyrir framan okkur þegar það á við. „Mér fannst þetta óþægilegt í byrjun, en venst mjög vel og skapar öryggistilfinningu“ segi hann. „Hins vegar finnst mér að það sé aðeins bið á því að við sjáum sjálfkeyrandi bíla í akstri hér hjá okkur, til þess að það megi verða þarf að endurbæta vegakerfið og merkingar“.

image

Það verður í nægu að snúast hjá Páli Þorsteinssyni upplýsingafulltrúa Toyota á næstunni, frumsýning á þremur gerðum af alveg nýrri Corollu, nýr Camry á leiðinni og nýr Lexus UX.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is