Reynsluakstur: Ford Kuga PHEV, árgerð 2020
Umboð: Brimborg

Flott hönnun, sparneytni, akstursupplifun, verð
Margmiðlunarskjár frekar hægur

Kraftmikill og hagkvæmur Ford Kuga PHEV

Árið var 2008 og Ford kynnti nýjan lítinn jeppling sem sló í gegn. Það var fyrsta kynslóð Ford Kuga. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Á upphafsárum smájepplinganna kepptust bílaframleiðendur við að framleiða “litla” fjórhjóladrifna bíla sem kalla mætti sportjeppa – eða jepplinga.  

Bílar eins og Subaru Forester, Toyota RAV4, Honda CRV og Nissan Qashqai eru bílar í þessum flokki.

image

Nýr Ford Kuga nú boðinn í Plug-in hybrid útgáfu.

Byggður á litla bróður

Ford Kuga er byggður á grunni Ford Focus og fljótt á litið gæti hann verið slíkur en bara aðeins stærri. Það sem kom hins vegar á óvart þegar betur er að gáð er hve bíllinn er í rauninni stór. Til dæmis eru öll mál hans stærri en Toyota RAV4 nema hæðin enda hinn nýi Ford Kuga rennilegur sportjeppi með eindæmum.

Nýtt útlit

Ford Kuga kemur nú í alveg nýjum fötum ásamt tveimur mótorum sem drífa bílinn áfram. Annar er 2.5 lítra bensínmótor og með honum 14.4 kWh rafmagnsmótor sem báðir saman gefa um 225 hestöfl. Togið er um 200 Nm. Það þýðir að bíllinn er vel sprækur og æðir áfram sé til þess ætlast.

Ford heldur því fram að hægt sé að komast allt að 56 kílómetrum á rafhleðslunni einni saman skv. WLTP mælinga staðlinum.

image

Ford Kuga árgerð 2020 er stærri en forverinn nema örlítið lægri.

image

Ljómandi vel heppnuð hönnun á afturenda.

Góð drægni

Sé til þess tekið að meðalakstur íslendings innan borgarmarkanna er um 40 km. á dag ætti eigandi Ford Kuga PHEV ekki að þurfa á eldsneytinu að halda dags daglega. Meðaleyðslan er þó sögð um 1.2 lítrar á hverja 100 km. Þegar við reynsluókum bílnum sagði aksturstölvan okkur að við værum að eyða um 4.5 til 5 lítrum á hundraðið í venjulegum bæjarakstri.

Þá völdum við að láta bílinn sjálfan um að blanda orkugjöfunum – bensíni og rafmagni.  Hins vegar er ekkert mál að velja aðeins rafmagn eða bensín sem orkugjafa.

image

Framendinn sver sig í ættina.

Sérlega hentugur

Tengitvinnbíll (PHEV) hentar því sérlega vel þeim þurfa blandaða notkun t.d. bæjarakstur og langkeyrslu. Þú ekur bílnum á rafmagni í bænum og sparar þannig eldsneyti en hefur það til lengri ferða og hefur engar áhyggjur af orkuleysi á meðan. Ford Kuga PHEV er framhjóladrifinn.

image

Afturhlerinn er rafdrifinn og opnast mjög vel.

image

Þægilegt að hlaða bílinn þar sem gólfið er slétt við hlerakarminn.

Ríkulega búinn

Brimborg býður þennan nýja Ford Kuga ákaflega vel búinn staðalbúnaði. Þar má nefna lyklalaust aðgengi, tvískipt sjálfvirk miðstöð með loftkælingu, rafdrifnar rúður frammí og afturí, rafupphitanlegir og aðfellanlegir speglar, þráðlaus hleðsla á síma, Apple CarPlay og Android Auto, SYNC raddstýrt samskiptakerfi, upphitanleg framrúða, Ford Pass samskiptakerfi í gegnum APP, regnskynjari á framrúðu, rafstrekkjanleg öryggisbelti frammí, árekstrarvari, fjarlægðarskynjarar að framan og aftan ásamt stöðugleikastýringu fyrir eftirvagn.

image

Inn og útstig mjög þægilegt - þú sest inn en ekki ofan í bílinn.

image

Afturhurðir opnast vel og innstigið er gott.

Stór og sterkur jepplingur

Ford Kuga PHEV er um 1750 kíló og dráttargetan er um 1200 kg. Farangursgeymslan rúmar 405 lítra og hægt er að fella niður aftursæti 40/60 og þá er slétt gólf að framsætum.

Við tókum eftir því að gólfið í farangursrýminu er slétt við karminn á afturhleranum.

image

Falleg hönnun og allt á réttum stað.

image

Aftursætin eru á sleðum og einnig hægt að halla bökum.

Vandaður frágangur

Þú sest inn í bílinn – ekki niður í hann, sætin eru þægilega formuð en setur mættu vera lengri fyrir leggjalanga einstaklinga. Efnisval í innréttingu er vandað eins og Ford er von og vísa – sæti með velúr efni í miðju og leðri á slitflötum (Titanium X). Mælaborðið er einfalt, margmiðlunarskjárinn skýr og einfaldur. Skjárinn er kannski ekki sá hraðasti en nægilega samt.

Mælaborðið er sambland af myndrænum tölvuskjá og venjulegum analóg mælum.

image

Margmiðlunarskjárinn er einfaldur og maður er fljótur að átta sig á virkni hans.

Fjölbreytt úrval

Brimborg býður Ford Kuga PHEV í þremur gerðum. Titanium, Titanium X og Vignale. Munurinn á þessum þremur týpum er einungis búnaðartengdur. T.d. er í dýrari gerðunum, fjarlægðarstillanlegur hraðastillir, BLIS öryggiskerfi fyrir hliðarumferð, bílastæðaaðstoð, ökumannsvaki og sjálfvirk aðalljós ásamt Bang & Olufsen hljómtækjum.

Einnig leggur hann sjálfvirkt í stæði. Vignale gerðin er með Vignale leðurpakka, felgum og 12.3 tommu stafrænum mælaborði svo eitthvað sé nefnt.

image

Hér er bæði brunavél og rafmótor.

Öryggi og tækni

Við prófuðum skynvædda hraðastillinn þegar við keyrðum í gegnum Garðabæ enda slatti af umferðarljósum á leiðinni. Ford Kuga PHEV er búinn búnaði sem les umferðarskilti. Þannig getum við látið bílinn fylgja hámarkshraða hverju sinni. Við stilltum bil á milli bílsins fyrir framan okkur í aksturstölvunni en það er mjög einföld og myndræn aðgerð í mælaborðinu.

Uppfrá því hélt bíllinn sama bili á milli bíla og stöðvaði alveg þegar umferð fyrir framan stöðvaði – og tók af stað aftur þegar umferðin rann af stað.

image

Mælaborðið er skýrt og vel uppsett. Í dýrustu gerðinni er mælaborðið stafrænt á 12.3 tommu skjá.

Næstum því sjálfkeyrandi

Á Reykjanesbrautinni prófuðum við að nota hraðastillinn með akreinastýringunni en þá heldur bíllinn sig á miðju akreinar á ákveðnum hraða. Þú sleppur þó ekki við að halda um stýrið því búnaðurinn minnir á sig og slekkur svo á sér ef þú ert ekki með hendur á stýrinu.

image

Hér er miðjustokkurinn frekar lágur sem gefur meira fótapláss.

Snilldarhönnun

Þessi nýi Ford Kuga PHEV er stútfullur af tækninýjungum sem gaman er að prófa, auka öryggi og þægindi í akstri svo maður nýtur þess að sitja undir stýri. Stýrið er sérlega þægilegt – hvorki of létt né á nokkurn hátt þungt eða óþjált. Nákvæmlega eins og maður vill hafa það á þetta stórum bíl.

image

20 sm. undir lægsta punkt á Ford Kuga.

Fjöðrunin er nákvæm og þægileg – millistíf og tekur til dæmis hraðahindranir algjörlega átakalaust. Sportlegu eiginleikarnir eru ekki langt undan enda akstursupplifunin nátengd litla bróður, Ford Focus. Samt sem áður eru um 20 sm. undir lægst punkt á Ford Kuga PHEV.

Gott verð

Síðast en ekki síst er þessi nýi Ford Kuga PHEV á frábæru verði. Titanium gerðin er á 5.390 þús., Titanium X bíllinn er á 5.810 þús og Vignale á 6.490 þús. Þú getur síðan valið um bílinn í þínum uppáhaldslit en 11 litir eru í boði. Þú getur líka valið um fjölbreytt úrval aukahluta eins og rafknúinn afturhlera, panorama glerþak og 19 tommu felgur. Þú getur síðan fengið Ford Kuga fjórhjóladrifinn með dísel vél. Skoða Ford Kuga PHEV í vefsýningarsal Brimborgar.

image

Helstu tölur:

Verð frá: 5.390.000 kr.

Vél: 2.5 rms. PEHV (plug-in hybrid).

Hestöfl: 225.

Rafhlaða: 14.4 kWh.

Hámarkstog: 200/4000 Nm/sn/mín.

0-100 k á klst: 92 sek.

Hámarkshraði: 200 km/klst.

CO2: 32 gr/km.

Eigin þyngd: 1751 kg.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is