Reynsluakstur: Kia Sorento, árgerð 2021
Umboð: Kia á Íslandi

Þægilegur, rúmgóður, hagkvæmur
Miðjustokkur full stór

Fjórða kynslóð Kia Sorento

Allt frá því að Kia Sorento var kynntur til sögunnar árið 2002 hefur bíllinn notið mikilla vinsælda hér á landi. Um 3000 nýir Kia Sorento bílar hafa verið seldir hér á landi frá því að þeir komu fyrst.

Það er því óhætt að segja að þessi gerð bílsins hafi lagst vel í landann í gegnum árin. Það verður þó að taka inn í myndina að Kia var nýtt bílamerki á hér á Íslandi og var að stíga sín fyrstu skref með alvöru bíla.

Þessi árangur Kia hér á landi verður því að teljast nokkuð góður.

image

Nýr Kia Sorento heldur hefðbundnu jeppalaginu sem hrífur marga.

Vinsæll jeppi meðal landans

Nú lítur fjórða kynslóð þessa vinsæla jeppa dagsins ljós og var bíllinn frumsýndur nú í dag (21.10.20) hjá Kia umboðinu á Íslandi og var kynningunni streymt á Facebook.

image

Bíllinn kemur í fjölmörgum útfærslum.

Ótrúlega vel búinn

Við reynsluókum bílnum á dögunum og fengum afhentan einn splunkunýjan af Luxury Plus gerð. Grunngerð Kia Sorento er annars mjög vel búin og kemur með öllu því helsta sem kaupendur vilja sjá í nýjum bílum í dag. Þar má nefna blindblettavari, bakkmyndavél, rafdrifið bílstjórasæti, hiti í fram- og aftursætum, skynvænn hámarkshraðavari (les umferðarskilti), skynvæddur hraðastillir sem heldur jöfnu bili milli þín og bílsins fyrir framan.

Þráðlaus hleðsla fyrir farsíma, upphitað stýri, regnskynjari, stop and go kerfi sem er partur af skynvædda hraðastillinum þannig að bíllinn stöðvar þegar bifreiðin fyrir framan stöðvar og tekur af stað aftur þegar umferð tekur af stað til dæmis á ljósum. Fjarlægðarskynjarar að framan og aftan.

image

Grillið hefur tekið breytingum frá fyrri gerð og svipurinn er sterklegur.

Snjall búnaður

Dýrari gerðirnar eru síðan með örlítið meiri búnaði eins og leðursætum, hljómkerfi frá Bose með 12 hátölurum, blindbletta myndavél í mælaborðinu sem sýnir útsýni úr hliðarspeglum, hliðar árekstrarvörn og í Luxury Plus gerðinni er panorama glerþak og LED inniljós. GT-Line bíllinn er síðan með Nappa leðuráklæði, 20 tommu álfelgum, stigbretti, kælingu í framsætum og upplýsingavörpun á framrúðu.

Rúsínan í pylsuendanum varðandi GT-Line bílinn er að þú getur fjarstýrt bílnum. Þú stendur fyrir framann bílinn og leggur honum í stæði með því að smella á hnapp á lyklinum – og kallar á hann út úr stæði með sama hætti.  

Þetta er bráðsnjallt þar sem lítið pláss er og þú vilt vera viss um að bílnum sé vel lagt.

image

Fágaður og fallegur afturendi. Takið eftir afturljósunum - er ef til vill smá Mustang svipur þarna?

Plássmikill

Og þá að reynsluakstrinum sjálfum. Þessi nýi Kia Sorento er að öllu leyti glæsilegur bíll. Það fer ákaflega vel um mann í vel formuðum sætum, gott fótapláss er frammí þó svo að miðjustokkurinn sé ef til vill fullstór.

Hurðir opnast sérlega vel, bæði fram og afturhurðir og þú sest beint inn í bílinn en ekki niður í hann. Hægt er að hækka sætisstöðuna frammí það mikið að þú sérð mjög vel yfir mælaborðið og út yfir húddið. Efnisval og áklæði er til fyrirmyndar.

image

Kia Sorento er rúmgóður og efnisval er allt hið besta í bílnum.

Þægilegt aðgengi

Afturí er flennipláss og framsætin sitja það hátt frá gólfi að hægt er að hvíla fætur undir þeim. Að auki eru aftursætin á sleðum og hægt að færa fram og aftur. Einnig er hægt að halla aftursætunum. Þá er mögulegt að stilla hita í aftursætum.  

Kia Sorento er fullvaxinn jeppi, stór bíll með miklu plássi. Farangursgeymslan er rúmlega 600 lítrar og stækkanleg með því að fella sætin niður. Með þriðju sætaröðina í notkun (7 sæta útfærsla) erum við að tala um 187 lítra farangursrými. Afturhlerinn er rafdrifinn og gerir þannig alla umgengni um farangursýmið mun þægilegri.

image

Hurðir opnast sérlega vel og gott er að ganga um bílinn.

image

Gleði og ánægja

Hin sanna ánægja hefst þegar við setjumst undir stýri og ökum af stað. Mýkt, stöðugleiki og afl eru þau atriði sem koma upp í hugann þegar ekið er af stað. Bíllinn er afar hljóðlátur þrátt fyrir öfluga dísel vélina. Kia Sorento er þéttur og stinnur án þess að vera hastur.

Nákvæmt rafmagnsstýrið svarar um leið og maður á við það og það verður í raun afslappandi að aka bílnum þrátt fyrir að vera í þungri umferð.

image

Farangursgeymslunni mætti líkja við pláss í litlum sendibíl en bíllinn er boðinn í sjö sæta útgáfu.

image

Aftasta sætaröðin fellur niður í gólfið og gólfið fellur slétt við hlerakarminn.

Eftirsóttur dísel bíll

Kia Sorento er boðinn með 2.2. lítra, 4 strokka díselvél sem gefur um 202 hestöfl við 3800 snúninga. Togkrafturinn er um 440 Nm við 1750-2750 snúninga á mínútu. Miðað við ofangreint finnur maður vel fyrir krafti vélarinnar og við fundum aldrei að bílnum vantaði afl – allavega ekki í borgarumferðinni. Kia Sorento er með 8 þrepa sjálfskiptingu og svokallaðri Wet-Clutch kúplingu.

Um er að ræða vökvabúnað sem er inni í sjálfskiptingunni sem gerir aksturinn enn mýkri, sparar eldsneyti og minnkar viðhald.

image

Mælaborðið er nýtískulegt og stafrænt og allt við hendina.

Góð reynsla

Reynslan á Kia hefur í gegnum tíðina verið góð hér á landi. Notendahópurinn er fjölbreyttur og bílar þessarar tegundar vinsælli með hverju árinu sem líður. Það er því næsta öruggt að þessi bíll á eftir að sjást víða á vegum landsins, bæði í þéttbýli og strjálbýli.

image

Luxury Plus bíllinn kemur með leðuráklæði á sætum.

Hentar mörgum

Dráttargeta bílsins er um 2.5 tonn og gæti þessi bíll því nýst fólki í hestum og mótorsporti ágætlega. Sem aðalbíll á heimili til bæjarsnatts eða til lengri ferðalaga er Kia Sorento án efa mjög hagkvæmur og góður kostur.

Hann er lipur og þægilegur í bæjarakstri og eyðir litlu eldsneyti eða rétt um 6 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri. Það er stór hópur bílnotenda sem vilja áfram dísel bíla enda mjög hagkvæmir í rekstri, sérlega fyrir þá sem búa í strjálbýli.

image

Sólargardínur í afturgluggum.

Fjölbreytt framboð

Kia Sorento er einnig boðinn með 1.6 lítra bensínvél í GT-Line og HEV (Hybrid) útgáfu. Ekki liggur alveg fyrir hvenær Kia Sorento kemur í PHEV (Plug-in hybrid) útgáfu en samkvæmt upplýsingum frá Kia á Íslandi ætti það að vera fljólega á nýju ári.

image

LED ljósabúnaður.

Helstu tölur:

Verð frá 9.290.777 þús. kr.  Verð á reynsluakstursbíl 10.390.777 þús. kr.

Vél: 2.2 lítra, 4 strokka, dísel – 202 hestöfl.

Tog: 440/1750-2750 Nm/rpm.

Dráttargeta: 2500 kg.

CO2: 158 g/km.

Eigin þyngd: 1819-1954 kg.

L/B/H 4810/1695/1900 mm.

Eyðsla bl ak: 6 l/100km.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
7 manna Style
Fjórhjóladrif2.2L Sjálfskipting. DCT 8 Dísel440 - 202
7 manna Luxury
Fjórhjóladrif2.2L Sjálfskipting. DCT 8 Dísel440 - 202
7 manna GT-Line
Fjórhjóladrif2.2L Sjálfskipting. DCT 8 Dísel440 - 202
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Askja áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is