Reynsluakstur: Jeep Grand Cherokee, árgerð 2019
Umboð: Ísband

Plúsar: Afl, tækni, aksturseiginleikar
Mínusar: Handbremsa með fótstigi, mætti vera rafdrifin

Lúxus torfærutröll

Það var einn góðviðrisdag í ágúst að við skelltum okkur í bílferð nokkrir félagar hjá Bílablogg.is. Farskjótinn var ekki af verri endanum, splunkunýr Grand Cherokee Trailhawk með 35 tommu breytingu frá Arctic Trucks.

image

35 tommu bryttur Grand Cherokee Trailhawker vígalegur í útliti svo ekki sé meira sagt.

image

Trail Rated Jeep Cherokee er vel undirbúinn til að fara auðveldlega yfir ár og vötn

image

Til móts við drónann á nokkuð grýttum vegslóðanum.

Enginn slyddujeppi

Jeppinn sá er sko enginn slyddujeppi. Trailhawk jeppinn er afar vel búinn bíll, stútfullur af nýjungum sem rutt hafa sér til rúms á síðustu misserum, 8.4 tommu aðgerðaskjár með fullkomnu afþreyingarkerfi, íslensku leiðsögukerfi, blátannarbúnaði og bakkmyndavél svo eitthvað sé nefnt. Einnig er 7 tommu upplýsingaskjár í mælaborði þar sem ökumaður getur kallað fram ógrynni upplýsinga er varða stjórnkerfi bílsins og akstur.

Hiti í stýri, blindhornsvörn, hlífðarplötur undir vél, kössum og eldsneytistakni. Rafdrifin sæti frammí og rafdrifin afturhleri og hiti og kæling í sætum.

image

Sérlega vönduð og falleg innrétting.

Einstakt fjórhjóladrif

Jeep Grand Cherokee er búinn Quadra™-drive fjórhjóladrifi með læstu mismunandrifi að aftan ásamt lágu drifi.  Jeppinn er búinn Quadra™-Lift loftbúðafjöðrun og Selec-Terrain aksturstillingum. Selec™-Terrain stillingarnar eru forstilltar aksturstillingar fyrir grýtta yfirferð, sand- og gljúpa vegslóða, snjó og sport stillingu. Með Quadra™-Lift loftpúðastillingunni má síðan hækka bílinn um allt að 7 sm.  Með því er notagildi bílsins aukið til muna í erfiðum torfærum þar sem hæð undir lægsta punkt er þá orðin allt að 34,5 sm. Jeppinn er búinn 8 gíra sjálfskiptingu sem er bæði mjúk og nákvæm.

image

Grand Cherokee býr yfir dráttargetu frá 2802 - 3325 kg.

35 tommu breytingin er afar vel hönnuð og útfærð.  Sérfræðingar Ísband unnu hönnunarvinnuna með Arctic Trucks og má með sanni segja að hún komi vel út. Klippt er úr brettum, síls og stuðurum og ný innribretti eru sett í bílinn.  Sérsmíðaðir brettakantar prýða bílinn og eru festir utan á.  Þetta er gert í fullu samræmi við útlit bílsins og kemur mjög vel út.  Grand Cherokee Trailhawk stendur hátt og fær massað útlit eftir þessa flottu 35 tommu breytingu en jeppinn hækkar um 3 sm en fyrir eru 24,5 sm undir bílinn.  Klossar eru settir undir loftpúða og dempara og nýir armar í hæðarskynjurum, 35 tommu dekk á 17x9 tommu felgum fara síðan undir bílinn. Stigbretti og aurhlífar eru síðan settar bæði að framan og aftan.

image

AEV felgurnar eru með ramma sem hægt er að taka úr og setja dekkið yfir og breikka þannig barðann um rúmar 2 tommur.

Við spurðum Ísband menn hvernig framleiðanda bílanna litist á þessar breytingar og svarið sem við fengum.  „Þeir eiga bara ekki orð“ og eru mjög hrifnir af þeirri vinnu sem farið hefur fram hjá Ísbandi með þennan fullkomna jeppa. Fjöldi fyrirspurna hafa borist til Ísband frá Bandaríkjunum varðandi breytingu Jepp Grand Cherooke bílanna.

Þriggja lítra 250 hestfla dísel vélin er ákaflega kraftmikil og hljóðlát.  Jeep Grand Cherokee jeppinn er þægilegur í akstri og breytingin hefur sáralítil áhrif á aksturseiginleika hans.  Að sjálfsögðu finnur maður aðeins fyrir því að bíllinn er á þetta stórum dekkjum og maður heyrir hvin dekkjanna aðeins inn í bílinn þegar ekið er á malbiki.  En það er ekkert miðað við þá ánægju að aka bílnum og njóta þess búnaðar sem í honum er.

image

Þriggja lítra 250 hestafla díselvélin er ekkert lamb að leika við.

image

Overland kemur með radar sem greinir umferð, akreinar og er partur af öryggispakka sem Ísband býður sem aukapakka.

image

Hönnun 35 tommu breytingar hefur tekist extra vel á þessum bíl, fegurðin skín af honum frá öllum hliðum.

Innréttingin er vönduð og Trailhawk jeppinn er með leðri á slitflötum og tau í miðju. Jeep Grand Cherokee hefur sportlegt yfirlit og dökk plastfilma prýðir vélarhlíf bílsins og er einskonar aðalsmerki Trailhawk. Við fundum vegspotta og áttuðum okkur á að þar mætti prófa jeppann á mjög grófri akstursleið.

Við stilltum á aksturstillingu fyrir grýtta yfirferð og létum bílinn hafa fyrir því að að skríða í gegnum ófjöfnurnar á mismunandi hraða. Loftpúðafjöðrunin býður upp á þann möguleika á að stilla í enn hærri akstursstillingu, sem við prófuðum. Með þessu verður veghæð bílsins frá jörðu enn hærri, sem leyfir honum að fara yfir um enn grýttari akstursleið, til dæmis vað á straumþungri á. Þarna hættir bíllinn nánast að fjaðra, en skilar okkur vel og örugglega yfir torfæruna. Þetta myndi virka fínt til dæmis á leiðinni inn í Þórsmörk, rétt á meðan farið er yfir á, en fjöðrunin kallar á að þetta sé lækkað um leið og við erum komnir aftir á "fast land". Það var á hreinu að loftpúðafjöðrunin var að virka í þessum erfiðu aðstæðum og fór vel með okkur ökumann og farþega.

image

Grand Cherokee býður upp á fimm mismunandi akstursstillingar eftir aðstæðum og hægt er að hækka bílinn á lofpúðunum um allt að 7 sm.

Þegar við skiluðum Jeep Grand Cherokee Trailhawk bílnum tókum við Overland bílinn til skoðunar. Í honum er enn meiri lúxus en sá sem við prófuðum var með 33 tommu breytingu sem Ísbands menn gera sjálfir á sínu eigin verkstæði.  Overland bíllinn er með leðurinnréttingu, samlitum brettaköntum og stuðurum, geggjuðum Harman Kardon hljómflutningstækjum og opnanlegu panorama glerþaki. Overland bíllinn var einnig búinn öryggspakka en í honum eru skynvæddur hraðastillir, árekstrar- og akreinavari, bremsuaðstoð og leggur sjálfur í stæði.

image

33 tommu breyttur Grand Cherokee Overland.

image

Stafrænt mælaborð má stilla á marga vegu.

image

Gott útsýni er úr öllum sætum jeppans.

image

Jeep Grand Cherokee Trailhawk kemur með leðri á slitflötum en Nappa leðurinnrétting er í Overland gerðinni.

Helstu tölur:

Verð frá: 9.990.000 (35 tommu breyttur Trailhawk reynlusakstursbíll 12.980.000 kr. 33 tommu Overland reynsluakstursbíll 12.430.000 kr. - ágúst 2019)

Vél: 3.000 rms

Hestöfl: 250 við 3.600 sn.

Newtonmetrar: 570 við 2.000 sn.

0-100 k á klst: 8,5 sek.

Hámarkshraði: 199 km

CO2: 198 g/km

Eigin þyngd: 2.061 – 2.315 kg

L/B/H 4830/1940/1790 mm

Eyðsla bl ak: 7 l/100 km

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is