Reynsluakstur: Kia X Ceed, árgerð 2020
Umboð: Kia umboðið

Lipur, rúmgóður, eyðslugrannur
Ekki með fjórhjóladrifi

Frábær bíll fyrir fjölskyldufólk

Þróunin heldur áfram. Bílaumboðin keppast um að bjóða hagkvæma bíla sem nýtast hverjum og einum á marga vegu. Við tókum einn slíkan daginn fyrir þjóðhátíð nú í júní. Kia X Ceed er glæsilegur bíll með háa veghæð, hagkvæmur og fjölhæfur og síðast en ekki síst flottur bíll sem frábært er að aka.

image

Kia XCeed er góða veghæð og þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.

Þéttur og hljóðlátur

Kia X Ceed er svar Kia við millistærðarbílum á borð við Volkswagen T-Roc og Hyundai Kona svo dæmi sé tekið. Hann er plássmikill og þægilegt er að ganga um bílinn. Kia X Ceed verður seldur í tveimur útgáfum sem báðar eru mjög vel búnar – Urban og Style.  

image

Kia XCeed er mjög rúmgóður og þægilegur fjölskyldubíll og hefur fjölþætta notkunarmöguleika.

Báðar þessar gerðir er plug-in hybrid og samkvæmt upplýsingum frá umboðinu er talsverð eftirspurn eftir bílnum – enda bíllinn vel búinn og á hagkvæmu verði.  Kia býður síðan kaupendum sínum upp á 7 ára Kia ábyrgð sem ekki spillir fyrir kaupum á splunkunýjum bíl. Kia X Ceed er einstaklega vel hljóðeinangraður og þéttur bíll.

image

Kia XCeed er tengitvinnbíll sem fer allt að 58 kílómetra á rafmagni einu saman.

image

Vönduð og vel upp sett stjórntæki sem gera aksturinn öruggan og þægilegan.

Við tókum bíltúr á Urban gerðinni en sá bíll er með 1.6 lítra GDi bensínvel og rafmótor. Saman skila þessir aflgjafar um 141 hestafli og rafmótorinn gefur að hámarki afl upp á 8.9 kWh. Verið á Urban gerðinni er kr. 4.790 þús. (júní 2020) og verður að segjast með eindæmum gott miðað við þetta stóran og hagkvæman bíl. Style bíllinn er rétt ókominn í umboðið en verður á 5.190 þús. sem teljast verður mjög hagkvæmt verð miðað við búnað í Style útgáfunni.

Vel búinn

Ríkulegur staðalbúnaður er í boði í nýjum Kia X Ceed.  Bíllinn kemur á 16 tommu álfelgum og er með 8 tommu snertiskjá, hraðastillir, blátannarbúnað, tvöfalda tölvustýrða loftkælingu, lykillaust aðgengi og ræsingu, bakkmyndavél, fjarlægðarskynjara, rafmagnshandbremsu og H-Matic stýri svo eitthvað sé nefnt. H-Matic stýrið eða Flex stýrið er„vökvastýri” stýrt með rafmagni.  Ekki einatt býður það manni upp á lauflétta stýringu í öllum aðstæðum heldur er hægt að stilla það miðað við aðstæður. Sérlega flottur og þægilegur fídus í nútíma bílum.

image

Sæti Kia eru almennt í hærri klassanum hvað þægindi og efnisval áhrærir.

Góður ferðabíll

Kia X Ceed er með stífa og góða yfirbyggingu sem gerir bílinn bæði stöðugan og þægilegan í akstri. Hægt er að skipta á milli aksturstillinga, eco og sport og verður bíllinn talsvert sprækari í upptakinu á sport stillingunni. Einng er í boði að skipta á milli aflgjafa eða nota þá saman – eða láta bílinn sjálfan um að nýta aflgjafana sem best miðað við akstursaðstæður.

image

Öflugur og talsvert breiður miðjuststokkur - aksturinn mun afslappaðri þar sem maður hvílir hægri höndina á honum í akstri.

Þannig getur þú ekið bílnum á hreinu rafmagni í um 60 km. á einni hleðslu – eða nýtt bensínvélina og rafmótorinn saman og komist þannig af með mjög litla eldsneytiseyðslu. Uppgefin eyðsla er frá 1.43 ltr/100 km. Gæti trúað að rauneyðsla sé ef til vill í kringum 4 ltr/100 km. Togið mætti vera meira á eco stillingunni en var verulega betra í sport stillingu.

image

Gott skottpláss og hægt að fella niður sæti 40/60 og auka þannig flutningsmöguleika til muna.

Sest inn en ekki niður í bílinn

Kia X Ceed er talsvert hár á vegi og ef þú velur Style útgáfuna á 17 tommu felgum er hæð undir lægst punkt um 17 sm. Séu settar undir bílinn 18 tommu felgur verður lægsta hæð um 18 sm. Þó svo að bíllinn sé á 16 tommu felgum sest maður í raun beint inn í bílinn en ekki niður í hann.

Góð veghæð

Style bíllinn kemur einmitt á 18 tommu álfelgum og er með 10.25 tommu snertiskjá. Í honum er líslenskt leiðsögukerfi, 12.3 tommu LCD stafrænt mælaborð, blindblettsvari, skynvæddur hraðastillir sem heldur jöfnu bili á milli bílsins þíns og þess fyrir framan þig.

image

Fallegar og sterklegar línur í nýjum Kia XCeed.

Það er sjálfvirk opnun á afturhlera og rafstilling fyrir mjóbak í framsætum. Í bílnum eru öryggisvakar líkt og í flestum nýjum bifreiðum í dag –lætur vita ef hindrun er framundan og hemlar fyrir þig ef þú nærð ekki að gera það í tíma. Akreinavarinn er þannig virkur að hann beinir bílnum frá ef farið er of nálægt miðlínu eða veglínu. Mjög öflugt öryggistæki.

image

Skemmtileg hönnun á afturenda.

Kia X Ceed er fáanlegur í 11 mismunandi litum, sjálfskiptur og með fallega hannaðri innréttingu og sætum sem gott er að sitja í.

Plássmikill

Okkar mat er að þetta sé einn af flottustu fjölskyldubílunum á markaðnum í dag.  Farangursgeymslan er um 291 lítri og stækkanleg á nokkra vegu upp í allt að 1300 lítrum. Vel fer um fimm fullorðna í þessum bíl og ég gæti alveg hugsað mér að sitja alla leið til Húsavíkur í einu rykk, taka pulsu og kók og renna síðan til Egilsstaða á einum og sama deginum.

image

Við mælum með Kia XCeed sem fjölskyldubíl í skemmtileg ferðalög innanlands í sumar.

PHEV – plug-in hybrid ökutæki virka nákvæmlega eins og hybrid ökutæki nema að þú getur einnig hlaðið plug-in með kapli. Endurheimt orku verður til í venjulegum akstri, þegar ekið er niður brattar brekkur eða hemlun.

Helstu tölur:

Verð frá: 4.190.777 kr. (Verð í júní 2020).

Vél: 1.6 rms. PEHV (plug-in hybrid)

Hestöfl: 141

Rafhlaða: 8.9 kWh

Hámarkstog: 265/4000 Nm/sn/mín.

0-100 k á klst: 11 sek.

Hámarkshraði: 188 km/klst.

CO2: 29 gr/km.

Eigin þyngd: 1519-1596 kg.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Urban
Framhjóladrif1.6L Sjálfskipting. 6 þrepa DCT Bensín, Rafmagn265 - 1398.9 kWh48 km
Style
Framhjóladrif1.6L Sjálfskipting. 6 þrepa DCT Bensín, Rafmagn265 - 1398.9 kWh48 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Askja áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is