Reynsluakstur: Dacia Duster, árgerð 2019
Umboð: BL

Af hverju að borga meira?

Sama vetrardag og almenningur á höfuðborgasvæðinu var hvattur til að nýta almenningssamgöngur til að mæta til vinnu var ég mættur í BL á Sævarhöfðanum til að fá Dacia Duster í reynsluakstur. Það fyrsta sem gerðist þegar ég settist inn í bílinn var að ég byrjaði að hlæja, ekki bara af því að Duster er með góðan húmor, heldur af því að hann er einn hreinskilnasti bíll sem ég hef nokkru sinni stigið fæti inni. Sæti fyrir fimm, sex gírar, sex loftpúðar, fjórar rafdrifnar rúður, rafstýrt fjórhjóladrif og einn armpúði, hvað þarf maður meira?

image

Duster tók sig vel út í vetrarbúningi á dögunum og var hann hrikalega duglegur í allri færð.

Með bílnum koma upphituð sæti fyrir bílstjóra og farþega, þau hitna mjög hratt og vel, og stífum og góðum mjóbaksstuðningi. Allt plast inni í bílnum er til fyrirmyndar miðað við verðflokkinn og verð ég sérstaklega að hrósa Dusternum fyrir frábært stýri. Það er mjög vel hannað, mjúkt áferðar og að mínu mati af hinni fullkomnu stærð. Það er hægt að stilla það á ýmsa vegu og var ekkert mál fyrir mig að koma mér vel fyrir undir stýri áður en ég lagði af stað í “hreinsaðar” götur Reykjavíkur.

image

Mælaborðið í Duster er stílhreint og flott. Allt þar sem það á að vera og Íslandskortið tekur sig vel út á miðjuskjánum.

Flottur í akstri

Það kom mér á óvart hversu dugleg 1.5 lítra dísel vélin á Dusternum er. Hún skilar honum vel áfram og í ófærðinni undanfarna daga sem ég hef verið með hann hefur hann aldrei skort afl. Það er stutt á milli gíranna sex og kúplingin lipur og fín. Gírarnir eru líka með breitt svið svo þú þarft ekki að standa í því endalaust að hoppa á milli gíra. Á hámarkshraða í dreifbýli lullar hann vel undir 2000 snúningum til að minnka eyðslu, en uppgefin eyðsla á Duster er 4,5l/100km og var reynsluaksturbílinn ansi nálægt því í prófunum.

image

1.5lítra dísel vélin togar mjög vel og er þýð og ljúf.

Allur sá búnaður sem þarf

Duster kemur líka vel búinn, þrátt fyrir að kosta svona lítið. Duster kemur með skjá í miðjunni til að stjórna útvarpi, stillingum og leiðsögubúnaði. Þar er að finna leiðsögukerfi með Íslandskorti (þess má til gamans geta að Duster kom með Íslandskorti á undan mörgum þýskum gæðamerkjum) og hægt er að tengja síma og tæki í gegnum blátannarbúnað (Bluetooth). Skjárinn er bjartur og einfaldur í notkun og hægt er að nota hann í þykkum hönskum, sem er kostur á köldum dögum á stærsta flugmóðurskipi Atlantshafsins. Aftursætin eru með ISIOFIX festingar fyrir barnastóla. Daciu menn eru ekkert að flækja hlutina og hafa krókanna sjáanlega og sleppa allskyns plasthlífum og veseni. Það er lýsandi fyrir Duster. Hann kemur til dyranna alveg nákvæmlega eins og hann er klæddur. Hann flækir ekkert hlutina og þegar ég byrja í veiði mun ég kaupa mér Duster áður en ég kaupi mér veiðistöng.

image

Eitt af því sem þú færð með Duster er varadekk í fullri stærð, ekkert viðgerðarsett hér takk fyrir, bara alvöru dekk!

Næstum því ódýrari en að taka strætó

Ég veit að hvetja fólk til þess að taka ekki almenningsamgöngur gerir mann réttdræpan af umhverfisvendarsinnum, en það er hlutverk sem færi Duster vel. Ef þú býrð á eyju í miðju norðanverðu Atlantshafinu þá getum við gengið út frá því að það muni snjóa hressilega nokkra mánuði á ári. Duster svarar því mjög vel og leysir það verkefni að koma þér á milli staða án nokkurra vandræða. Hann er hagkvæmur í rekstri og jafn lipur og fyrsti smábílinn sem ég átti sem unglingur. Sá bíll eyddi einmitt meiri tíma í að vera fastur á götunni á veturna en ekki. Ef ég hefði verið á Duster hefði ég eflaust aldrei þurft að mæta of seint í skólann, þá hefði ég ekki verið stimplaður sem óvarfærinn og slappur nemandi af kennurum og þá hefði ég kannski getað útskrifast úr framhaldsskóla. Hvar var Duster þá?

image

Hurðarnar á Duster opnast vel og er prýðisgott pláss í öllum sætum. Þau eru líka öll mjúk og góð með mjög þægilegu áklæði, sem þornaði mjög fljótt þrátt fyrir snjó sem féll í það þegar þú opnaðir hurðarnar.

Lokaorð

Ef þú ert þannig týpa að þú kaupir niðursoðna tómata frá vissu fyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til Sebastpol í Kaliforníu, pelsa frá Kalla og brauð úr nýmóðins bakaríum, þá er Duster kannski ekki fyrir þig. En ef þér er annt um krónurnar, eyðir þeim ekki í vitleysu, kaupir niðursoðna tómata frá dönsku lágvörumerki og brauð með einhverskonar myllumerki, þá gæti Duster átt heima hjá þér. Nú eða þú ert framhaldskólanemandi sem vilt alltaf mæta á réttum tíma í skólann og vilt hafa nóg pláss fyrir fjóra bestu vini þína þá er Duster pottþétt fyrir þig. Það er æðislega einfalt að velja Duster, ætti í raun að vera hægt að setja hann bara í körfu á heimasíðunni þeirra, þú einfaldlega velur bara litinn. Ég mæli með Atacama appelsínugulum.

image
Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
Expression
Fjórhjóladrif1.5L Beinskipting Dísel260 - 110
Journey
Fjórhjóladrif1.5L Beinskipting Dísel260 - 110
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is