Reynsluakstur: Renault Zoe, árgerð 2020
Umboð: BL

Útlit og aksturseiginleikar
Ekki hægt að lækka bílstjórasæti

Praktískur og stærri en þú heldur

Rafbílarnir koma núna í hrönnum. Hraðar en nokkur önnur gerð af bílum hefur gert. Renault ZOE er þó búinn að vera hérna næstum lengst. Það var árið 2005 sem Renault sýndi fyrst hugmyndir þeirra að rafmagnsborgarbíl. Fyrir sjö árum, árið 2012, var bíllinn svo frumsýndur, tilbúinn til framleiðslu á bílasýningunni í Genf og það var líkt og þegar Bill Gates sýndi PC útgáfu af spjaldtölvu, öllum var alveg sama.

image

Stærri rafhlaða og meiri kraftur

Renault ZOE Z.E.50 er fullt nafn á hinum nýja bíl. ZOE kemur núna með 55kw rafhlöðu, þar sem uppgefin drægni er 395km samkvæmt hinum stranga WLTP staðli. Rafmagnsmótorinn hefur líka fengið að stækka og skilar hann 108 eða 136 hestöflum eftir því hvaða búnað þú hefur með í kaupunum. Ég fékk bæði zen og intens bíl til prufu og voru þeir gífurlega vel búinir, en meira um búnaðinn síðar.

image

Framendi hins nýja Renault ZOE er örlítið látlausari en fyrri árgerðir. Það fer samt ekkert á milli mála að hér er Renault á ferð.

Renault ZOE skýst af stað á ljósum borgarinnar og upplifði ég gleði og ánægju við hvert rautt ljós sem ég lenti á þar sem ég var fremstur í röðinni. Er það í fyrsta sinn á ævinni sem ég upplifi það sem íbúi Reykjavíkur.

image

Þarna gefur að líta ofaní vélarrými Renault ZOE. Tvær vélar eru í boði með 55kw rafhlöðinni. Annar 108 hestöfl og hinn 135 hestöfl. Báðir mótorarnir skila þessum stóra smábíl vel áfram.

image

Áfram eru tengi fyrir hleðsluna falin bakvið Renault merkið á frammenda bílsins.

Bíllinn er 9,5 sek í 100 km/klst en það sem mikilvægara er, hann er bara 3,6 sek frá 0 og upp í 50 km/klst. Það gerir það að verkum að hann er mun sneggri en áður í byrjun og því liprari að þræða sig í gegnum umferðina. Togið er uppgefið 245nm og er það aukning frá því sem áður var. Bíllinn er þó örlítið gjarn á að vera togstýrður þegar vel er gefið inn á lágum hraða en það lagast þegar komið er á ferð.

image

Lítið hefur verið átt við útlit ZOE að aftan. Þó eru afturljósin komin í nýjan og fallegri búning.

image

Þægilegt er að ganga um Renault ZOE. Hurðirnar eru ekki of stórar og frekar léttar.

image

Innanrými og búnaður

Mælaborðið í Renault ZOE er allt annað en áður var. Mælar sem áttu að heita framúrstefnulegir og framandi eru horfnir á braut. Í staðinn er komið mælaborð sem sver sig mun betur í Renault ættartréið. Auðskiljanlegt, einfalt og fallegt. Hægt er að velja á milli mismunandi lita og útfærslna á mælaborðinu sem er nokkuð handhægt.

image

Stafræna mælaborðið er til fyrirmyndar fyrir bíl í þessum verðflokki. Þarna má sjá að hægt er að hafa leiðsögukerfið á milli mælanna sem eru mun hefðbundnari en áður í hönnun.

image

Mælaborðið allt er þakið hinum príðustu efnum. Þar er líka hægt að finna þennan risastóra og frábæra skjá í miðju mælaborðinu. Apple Carplay og Android Auto koma mjög vel út á honum og BOSE hljóðkerfið er til fyrirmyndar ef það er pantað líka.

Renault ZOE er búinn Apple Carplay, Android Auto og að sjálfsögðu er hann með blátannarbúnaði. Það vantar heldur ekki USB tengin sem eru fjögur í bílnum og eitt AUX tengi líka.

image

Aðstaða ökumanns í Renault ZOE. Þarna er stýri sem hægt er að hækka, lækka og halla allt eins og þú villt.

Öll sætin í Renault ZOE eru prýðisgóð en það mætti þó vera hægt að lækka bílstjórasætið. Það væri hinsvegar erfitt að útfæra vegna þess að undir öllum sætunum hafa verkfræðingar Renault komið fyrir rafhlöðunni. Hæðin á sætinu er samt fullkomin þegar kemur að því að setjast inn og út. Er það líkara umgengni jepplings frekar en smábíls. Aftursætin eru snilldarlega útfærð. Þar hafa áðurnefndir verkfræðingar nýtt það að sætin þurfi að fara upp á við til hins góða og er fótapláss alveg hreint með ágætum afturí. Þar er líka hátt frá setunni og niður í gólf bílsins. ZOE er því laus við hið venjulega vandamál rafmagnsbíla þar sem aftursætin eru ekki nógu há og þarf því að sitja með lappirnar krepptari en annars. Þar eru líka þrjár ISIOFIX festingar fyrir barnabílstóla og ekkert mál að nota þær.

image

Þarna er bílakallinn sjálfur búinn að koma sér fyrir í aftursætinu. Framsætið er stillt fyrir mig sjálfan og er nóg plássið fyrir fæturna. Þegar þú lokar svo hurðinni er nægt plássið til að halla sér aftur og njóta ferðarinnar.

Aftursætin eru afbragðsgóð og færi vel um mig sitjandi þar frá Borganesi til Bíldudals.

image

Í ZEN bílnum sem hér er myndaður er þetta fallega gráa áklæði sem notað er bæði í mælaborðið sjálft, í hurðarspjöldin og sætin.

Skottið á Renault ZOE telur 388 lítra og er það nokkuð gott fyrir bíl í hans stærðarflokki. Þar hjálpar mikið hvernig hönnuðir og verkfræðingar Renault hafa útfært plássið. Skottið er mun dýpra en á sambærilegum bílum sem knúnir eru áfram af hefðbundum orkugjöfum eins og bensíni eða dísel. Undir skottinu á þeim þarf að taka frá pláss fyrir púströr og fleira þessháttar en þess þarf ekki á ZOE og græðum við sem notum bílinn vel á því.

image

Skottið á Renault ZOE er dýpra og stærra en í öðrum bílum í sama stærðarflokki.

image

Hin klassíska franska hönnun

Hönnun Renault ZOE nýtur sín um allan bíl. Lítil smáatriði sem minna á hugsun Renault um hreina orkugjafa er að finna alls staðar. Einkar skemmtilegt er að í toppi bílsins er að finna einskonar listaverk sem minnir á trjágrein og laufblöð á henni. Þetta sama er að finna í mælaborðinu og í sætum bílstjórans og farþega.

image

Takið eftir hvernig fjarlægðarskynjarar að framan eru faldir í hönnuninni. Þeir eru hafðir sem hluti af grillinu og þokuljósunum og falla því vel inní útlit bílsins.

Hönnunin talar saman um allan bílinn, bæði að utan og innan. Það skapar heildstætt og skýrt útlit bílsins, bæði að utan og innan.

image

Smáatriði, eins og lítið fingrafar til að sýna að hér sé hurðahúnninn fyrir afturhurðina, er að finna víða í Renault ZOE.

Að utan hefur bíllinn allur verið færður nær nútímanum. Á bílasýningunni í Frankfurt 2016  sá ég Renault ZOE í fyrsta sinn. Mér fannst hann bera af fyrir að eiga mest heima sem einhverskonar bíll úr bíómynd sem fjallaði frekar um æsku James T. Kirk frekar en að vera borgarsmábíll til sölu í næsta Renault umboði. Fram- og afturendi Renault ZOE hefur fengið nýja hönnun, meira króm og fallegri ljós. Þetta færir bílinn í fallegri búning en áður og tekur þú frekar eftir honum fyrir þær sakir.

image

Engin púströr einkenna helst núna útlit afturenda Renault ZOE.

Lokaorð

Renault ZOE er fjölhæfur risa-smábíll sem vill svo til að er knúinn áfram af rafmagninu einu saman. Hann birtist okkur nú með meira innanrými en þig grunar og er nokkuð ánægjulegur staður til að vera á. Innanrými sem heillar mann og útlit í stíl. Hann kemur áfram á sama góða verðinu og nýir litir gera hann að spennandi kosti fyrir heimilin í landinu sem eru að leita sér að fjölhæfum og hentugum smábíl. Ég mæli með Renault ZOE ef þú ert að leita þér að rafmagnsbíl með sterkan karakter. Taktu hann rauðan eða bláan og ég mæli með Intens útgáfunni. Jafnvel að bæta við Edition One pakkanum til að fá hann leðraðan og með BOSE hljóðkerfinu.

Helstu tölur:

Verð frá: 3.990.000 (Á sýndum bíl 4.250.000)

Hestöfl: 108 eða 135

Drægni: 395km

Hröðun 0-100km/klst: 9,5 sek

Eyðsla: 16,3kWh/100km (R110) 16,5kWh/100km (R135)

CO2: 0g/100km

Eigin þyngd: 1.475kg

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Life
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn225 - 10852 kWh383 km
Intens
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn245 - 13552 kWh395 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is