Reynsluakstur: Audi Q5 TFSI e, árgerð 2020
Umboð: Hekla

Afl, akstursþægindi, sæti
Þungar hurðir

Sportari í jeppabúningi

Við hjá Bílablogg.is vorum að vonum spenntir að fara í þennan reynsluakstur.  Audi hefur um áraraðir skapað þægindi, kraftmikla upplifun og einstakan karakter í bílum sínum.

Tæknibúnt

Við mættum í Heklu um hádegið á föstudegi og fengum afhentan splunkunýjan Audi Q5 TFSI e, 367 hestafla fák sem er aðeins litlar 5,3 sekúndur í 100 km hraða á klst. Tilfinningin sem kemur yfir mann er maður sest inn í þetta tæknibúnt er hreint út sagt frábær.  Sportlegt yfirbragð í bland við fágað efnisval án þess að farið sé yfir strikið, fyllir mann aðdáun.  Það er vandað til verka hjá Audi.

image

Sportlegt útlit Audi Q5 TFSI e leynir sér ekki.

image

Afturendinn skartar S line stuðura og að framan er S line grill.

Toppsætið

Við ákváðum að renna strax út úr borgarys og umferðarhnútum og skelltum okkur austur fyrir fjall.  Veðrið lék við okkur og við nutum þess að þrýstast niður í sætin þegar við jukum orkugjöfina.  

Talandi um þægileg sæti.  Í Audi Q5 TFSI e er eins og sætin lagist að manni, rafdrifinn mjóbakstuðningur, lenging setu og rafdrifin sætin má stilla á alla hugsanlega vegu þannig að þér líði sem allra best í akstri.

Bíllinn er með 360° myndavél og leggur sjálfur í stæði, skynvædd hraðastilling, skynvædd hemlun, B&O Premium hljóðkerfi, framrúðuskjár (head-up-display), lyklalaust aðgengi, leiðsögukerfi, stafrænt mælaborð, loftpúðafjöðrun, Audi Matrix led ökuljós, marglita stemningsljós innra rými ásamt mörgu fleiru.

image

B&O premium hljóðkerfi.

image

Rúmgóð farangursgeymsla og hleðslukapall fylgir.

Kraftur og snerpa

Er þrýst er að START rofann kemur stýrið á móti manni og í þá stöð sem manni best líkar og búið er að forrita inn í stjórnkerfi bílsins og Audi-inn man hvernig þú vilt hafa stýrið stillt.  WLTP staðallinn er sá sem miðað er við þegar við tölum um drægni. Drægni á rafmagninu einu saman fer Audi Q5 TFSI e allt að 40 km. og er þá miðað við borgarakstur.  

Með slíkri rafmagnsendingu ferðu ansi langt að geta notað einungis rafamagn í borgarakstrinum.  Til viðbótar við 2 lítra TFSI vélina er bíllinn knúinn rafmótor sem er innbyggður í gírkassann.

Af þeim 367 hestöflum sem Audi-inn hefur yfir að ráða gefur rafmótorinn um 141 hestafl.  Miðað þessar tölur er uppgefin eyðsla aðeins um 2.1 líter á hverja 100 kílómetra í blönduðum akstri. Koltvísýringsútblásturinn er aðeins um 46 gr. á hvern kílómeter.

image

Bíllin er hlaðinn tæknibúnaði sem gerir aksturinn bæði öruggan og skemmtilegan.

Rafhlaða bílsins er undir gólfinu í skottinu og er geymir fullhlaðin orku sem nemur 14.1-kwh.  Með bílnum fylgir hleðslukapall.  Ef bíllinn er hlaðinn í 3ja fasa 400 volta 16 ampera tengi hleðst rafhlaðan á aðeins um tveimur og hálfum tíma.  Ef notuð er venjuleg innstuga í heimahúsi þarf um sex tíma til að fullhlaða bílinn með kaplinum sem honum fylgir.  

Með Audi appinu getur þú síðan kveikt á þriggja svæða tölvustýrðri loftkælingu á meðan þú færð þér morgunkaffið og farið út í heitan bílinn.  Þá er upphitað stýri og svo geta börnin hlaðið símann í gegnum USB tengi afturí.

image

Tæknilega fullkomið Quattro fjórhjóladrif.

image

Leðurklædd sætin eru einstaklega þægileg og halda vel við.

En hvernig er að keyra Audi Q5 TFSI e

Hreint út sagt frábært.  Kraftmiklir mótorar bílsins, bæði sá bensínknúni og einnig rafmótorinn gefa stöðuga og nákvæma hröðun.  Bíllinn liggur eins og sleggja á veginum og nákvæmt stýrið heldur bílnum nákvæmlega eins og honum er stýrt.  Audi-inn tekur hornin án þess að blikna og 7 gíra sjálfskipting er hárnákvæm.  Tölvustýrð skiptingin vikar óaðfinnanlega í öllum þeim aðstæðum sem við buðum reynsluakstursbílnum uppá.  

Hægt er að stilla aksturskerfi bílsins á nokkra vegu. Þegar bílnum er settur í gang notar hann eingöngu rafmagnið.  Í hefðbundinni tvinnstillingu þ.e. þegar rafmagn og bensínmótor vinna saman tekur bensínmótorinn við þegar á þarf að halda og er sú stýring sjálfvirk í bílnum.  Síðan er hægt að stilla aksturskerfið þannig að orku rafhlöðunnar sé haldið óbreyttri í áframhaldandi akstri.  Með þessu er tryggt að orkan nýtist sem best og tölvukerfi bílsins stýrir því afli sem í boði er.

Hefðbundnu þættirnir eins og fótapláss, aðgengi í stjórntæki er í góðum málum í Audi Q5 TFSI e bílnum.  Nægt fótapláss fyrir vel vaxna aftursætisfarþegar og um ökumann og framsætisfarþega fer ákaflega vel í vel formuðum sportsætum bílsins. Farangursgeymslan er þokkalega stór og er búin öflugum festingum og vösum í hliðum sem geyma má smáhluti í. Aftursætunum er hægt að halla til að auka þægindi á löngum leiðum. Það eina sem við fundum við að ganga um bílinn er að hurðir eru frekar þungar og passa þarf að þær komi ekki til baka sérstaklega ef hvasst er í veðri.

image

Stafrænt mælaborðið gefur allar nauðsynlegar upplýsingar um framgang akstursins.

Audi Q5 TFSI e er með QUATTRO aldrifi sem sem byggir á tölvustýrðri skynjun á vegyfirborði.  Fjórhjóladrifs búnaðurinn stillir svo drifið eftir því.  Til dæmis ef bíllinn er mjög lítið hlaðinn og þar sem nægt veggrip er fyrir hendi hættir 7 gíra S tronic gírkassin að senda afl til afturhjólanna og ekur því bíllinn sem hefðbundinn framdrifsbíll og sparar bæði eldsneyti og orku.  

Reynsluakstursbíllinn var í S line útgáfu og mikið af búnaði bílsins því staðalbúnaður í þeirri útgáfu.  Við erum að tala um leðurinnréttingu, 19 tommu felgur, S line grill og afturstuðara.  Sérlega vel útbúinn og flottur bíll.

image

Í heildina skila rafmótórinn og bensínvélin 370 hestöflum.

Helstu tölur:

Verð 9.990.000

Drif: Quattro / 4x4

Bensínmótor: 252 hestöfl

Rafmótor: 141 hestafl

Hámarkstog: 370 / 1600-4500 Nm á mín.

Rafhlaða: 14.1 kW-h lithium ion.

Drægni: 40 km. í WLTP prófunum.

0-100 k á klst: 5.3 sek.

CO2: 46 g/km.

Eigin þyngd: 2.225 kg.

L/B/H 4663/2140/1659 mm.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is