Reynsluakstur: Jagúar I-Pace, árgerð 2019
Umboð: Jagúar Ísland

Tæknin, hröðunin, hönnun og útlit
Engin afturrúðuþurrka

Magnaður, kröftugur og algjör Jaguar

Jaguar I-Pace er fyrsti bíllinn frá Jaguar sem er hannaður algjörlega frá upphafi til að vera keyrður áfram á rafmagninu einu saman. En tókst Jaguar mönnum að færa í rafmagnaðan búning aksturseiginleika og karakter bílanna þeirra sem á undan hafa komið? Svarið er jákvætt.

image

Frá upphafi rafmagnaður

Við búum í tímum breytinga. Heimurinn er að fara frá því að Ameríka sé hinn sterki kyndilberi réttlætis og frelsis, fyrir utan einn eða tvo staði á Kúbu, og að Bretar hafi loksins getað lifað í sátt og samlyndi við aðra Evrópubúa. Í bílaheimunum þýðir þetta að bílaframleiðendur hafa tekið bíla sem þeir nú þegar framleiða á góðan og snöggan máta, rífa úr þeim bulluhreyfilinn og allt sem honum tengist, eins og púströr, hljóðkúta og eldsneytistanka, og í staðinn troða þeir batteríum og rafmagnsmótor og búa til það sem best verður kallað í mörgum tilfellum ágætis málamiðlun til að færa til okkar neytendanna hagstæða og góða rafbíla.

image

Jaguar I-Pace hinsvegar byrjaði strax í upphafi sem rafmagnsbíll og miðar öll hönnun hans að því. Línur I-Pace eru aðeins öðruvísi en þú átt að venjast. Fremri póstur bílsins er mun framar en þú býst við.

image

Ég áttaði mig á þessu þegar ég tók myndirnar sem fylgja þessari grein. Hann liggur allur aðeins framar en aðrir bílar. Húddið á honum er stutt en svipurinn er samt gífurlega kröftugur. Jafnvel ef hann stæði í bílastæði í miðborginni, frítt, því hann er knúinn áfram af hreinni orku, myndi lattelepjandi lopatreflum á kaffihúsum borgarinnar finnast hann vera á fleygiferð áfram.

image

Pláss og tækni

Þessi áðurnefnda hönnun leiðir því til þess að plássið innan í I-Pace er til fyrirmyndar, þá sérstaklega fótapláss fyrir bílstjóra og farþega. Sætin eru há, þægileg, faðma líkama þinn hreinlega og halda þér fast á þínum stað, enda veitir ekki af þegar verið er að aka I-Pace.

image

Hvítt og ljóst á daginn, svart og dökkt á kvöldin. Lausn Jaguar við því hvernig kveikja á sætishitara framsæta er ótrúlega sniðug. Í staðinn fyrir sér takka í mælaborðið er nýttur snúningshnappurinn sem notaður er til að velja hitann á miðstöðinni. Þú einfaldlega ýtir honum inn og snýrð til hægri og vinstri fyrir það hitastig sem þú vilt.

image

En magnað er samt að benda á höfuðrými í I-Pace. Þrátt fyrir að vera sportjepplingur er fínt pláss fyrir stóra og mikla hausa. Ég settist í aftursætið og fór vel um mig, þrátt fyrir að vera 1.84 m á hæð hefði mér liðið vel þar frá Vopnafirði til Ísafjarðar. Glertoppurinn á bílnum sem við höfðum til prufu hjálpar þarna til og mæli ég með honum sem næstum staðalbúnaði. Hann er ótrúlega stór og nær frá höfði ökumannsins og alla leið aftur í skott. Taktu bílinn á stálfelgum og á hjólkoppum ef þú hefur ekki efni á öðrum aukabúnaði en glertoppinum.

Akstursupplifun eins og á almennilegum Jaguar

Ef þú ert smá nörd um bíla eins og undirritaður, þá veistu vel hvernig þeir eru smíðaðir og hversu erfitt það er að ná fullkomnri þyngdardreifingu um bifreiðina, þá kanntu vel að meta hvernig alvöru rafmagnsbílar eru í akstri. Hægt er að líkja þeim við hjólabretti, fjögur dekk og öll þyngslin í miðjunni. Þetta gerir það að verkum að I-Pace faðmar veginn fastar en ungabarn á brjósti.

image

Innanbæjar er hann kvikur og skemmtilegur í stýri. Úti á þjóðvegum landsins líður hann svo áfram á veginum án þess að hafa eitthvað fyrir því.

image
image

Eina sem gæti spillt akstursupplifunni er útsýnið aftur úr bílnum sem er nokkuð takmarkað og engin afturrúðurþurrka.

Lokaorð

Það eru merkilegir tímar framundan í bílaheiminum og breytingar þar eru hraðar og miklar. Jaguar I-Pace er stórt skref fyrir Jaguar til að vera leiðandi í þeim nýja bílaheimi sem við erum að flytjast yfir í. Hann mætir til leiks gífurlega vel búinn, með spennandi aksturseiginleika, sterkan karakter og þægindi fyrir ökumann og alla farþega.

image

Hann er góður kostur fyrir alla þá sem hafa áhuga á að eignast vel búinn bíl sem skemmtilegt er að keyra, ásamt því að líta út fyrir að hafa verið klipptur út úr bíómynd 50 ár fram í tímann sem fjallar um hamingjusama distópíu þar sem Bretland reynir enn að fara úr Evrópusambandinu.

Taktu hann í hvaða lit sem þér lýst best á og með glertoppi. Hvernig sem þú velur hann taktu hann með glertoppinum. Ahh... þessi glertoppur.

Helstu tölur:

Verð 12.590.000 kr.

Drif: 4x4

Vél: 2 rafmótorar alls 400 hestöfl / 696 nM.

Rafhlaða: 90 kW-h lithium ion.

Drægni: 470 km. í WLTP prófunum.

0-100 k á klst: 4.8 sek.

CO2: 0 g/km.

Eigin þyngd: 2.133 kg.

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
S
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn696 - 40090 kWh470 km
SE
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn696 - 40090 kWh470 km
Jaguar I pace Black Edition
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn696 - 40090 kWh470 km
HSE
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn696 - 40090 kWh470 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is