Reynsluakstur: Ford Focus Active, árgerð 2019
Umboð: Brimborg

Afl, akstursþægindi, innrétting, veghæð.
Engin AUX og USB í stokk afturí.

Hrein skemmtun í akstri

Brimborg kynnti fyrr á árinu splunkunýjan Ford Focus sem er fjórða kynslóð þessarar ágætu bifreiðar.  Við hjá Bílablogg.is kynntum okkur nýja Focusinn þegar hann kom í vor og vorum himinlifandi með bílinn.

image

Ford Focus Active er 16sm hærri en aðrir Focus bílar.

image

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður sest inn í nýja Focus Active bílinn er hve vel fer um mann í ökumannssætinu.  Plássið til hægri við mann er eins og maður sitji inni í stofu með fjarstýringuna við hendina.  Sjálfskiptining er nefnilega í snúningsrofa á milli sætanna.

Flott innrétting

Active innréttingin er vönduð og efnisval hið besta.  Sætin eru góð og halda vel við og veita ágætan bakstuðning.  

image

Glæsileg Active innrétting með stungnum saumi.

Eins og í mörgum millistæðarbílum í dag mættu seturnar vera örlítið lengri þannig að þær næðu betur undir fótleggina.  Í Focus Active kemur þetta ekki að sök því seturnar eru sérlega þægilegar og halda vel við í akstri.

image

Gott útsýni er úr öllum sætum Ford Focus Active.

image

Ljómandi fótapláss bæði frammí og afturí.  Takið eftir að gólfið er nánast slétt afturí.

Active er búinn START/STOP spartækni og þegar ég þrýsti á rofann til að gangsetja bílinn datt mér strax í hug kraftmikill sportbíll.  Hljóðið í þriggja strokka Ecoboost vélinni er satt best að segja mjög fallegt og það fyrsta sem maður hugsar, bíddu, er þetta þriggja strokka vél?  Ég ók af stað og fann strax að þessu ökutæki er hreinlega skemmtilegt að aka.

image

Aðgengi um bílinn er sérlega þægilegt og maður sest beint inn í bílinn en ekki niður í hann.

Snjöll tækni

Ford Focus er vel búinn bíll.  Í honum má finna allt það sem tækni dagsins í dag býður upp á.  Það snjallasta við þennan bíl er að þegar tók að dimma tók ég eftir því að framljósin beygðu aðeins á undan mér í beygjum.  Tækni nútímans býður upp á að ökuljós bílsins beygi með honum. Focus er með þann snjalla búnað að skynja beygjur og sveigjur í gegnum radarbúnað og koma ökumanninum þannig þægilega á óvart þegar ekið er í aflíðandi beygju og lýsir svæðið upp áður en bíllinn fer að fullu í beygjuna.

image

Það vantar ekkert upp á aflið í Ford Focus Active.

Við tókum góðan bíltúr austur að Nesjavöllum og reyndum bílinn í brekkum og beygjum.  Átta gíra sjálfskiptingin virkar einstaklega vel.  Í kringum 90 km hraða á klukkustund var snúningur vélarinnar í kringum 1800 snúningar og bíllinn malaði eins og hann væri í hægagangi.  

image

Samvinna skiptingar og þessarar litlu en aflmmiklu vélar var algjör.  Að sjálfsögðu kemur það eldsneytiseyðslu bílsins til góða en hún er um 6.9 í blönduðum akstri.  Ford Focus Active kemur með 5 aksturstillingum, fyrir venjulegan akstur, bæjarakstur, sport stillingu, ásamt stillingu fyrir hálku og grófara yfirborð.

image

Bíllinn er snotur í útliti og kraftalegar 17 tommu felgurnar njóta sín í innrömmuðum hjólaskálunum.

Þegar hurðir bílsins eru opnaðar krækist plastlisti yfir hurðarbrúnina og ver hana fyrir höggi.  Þetta þýðir að ef þú verður fyrir því óláni að reka hurð utan í annan bíl eru nánast engar líkur á að hann tjónist og enn síður Focusinn með þessari snjöllu uppfinningu.

image

Hægt er að fá fjölbreyttan aukabúnað í Ford Focus Active eins og panorama glerþak, dökkar rúður í farþegarými, Ford Pass samskiptakerfi með appi í símann þinn þar sem þú hefur aðgang að bílnum í gegnum snjallsíma. Bílastæðaaðstoð, svartmálað þak, hljómtækjapakki með B&O hljómtækjum, fjölskyldupakki með rafdrifnum barnalæsingum, hæðarstillanlegu framsæti með mjóbaksstuðningi og armpúða aftur í auk fjölda annars búnaðar.

Helstu tölur:

Verð frá: 3.990.000 kr. (Reynlusakstursbíll 4.350.000 kr.) sept. 2019

Vél: 1.500 rms

Hestöfl: 182 við 6.000 sn.

Newtonmetrar: 240 við 1.500-3.200 sn.

0-100 k á klst: 8,7 sek.

Farangursrými: 375 ltr.

CO2: 107-133 g/km.

Eigin þyngd: 1.203 kg.

L/B/H 4378/1825/1452 mm.

Eyðsla bl ak: 6,9 l/100 km.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is