Reynsluakstur: Ford Ecosport, árgerð 2019
Umboð: Brimborg

Aksturseiginleikar, öryggi og gott aðgengi.
Pláss í aftursætum og afturhleri.

Lítill sportjepplingur með stórt hjarta

Þó að Ford Ecosport hafi verið framleiddur frá árinu 2003 hefur ekki borið mikið á honum hér á landi fyrr en síðustu misseri. Það var síðan árið 2015 sem Ford sló til og gerði umtalsverðar breytingar á Ecosport bílnum sem meðal annars færði hann nær nútímanum í útliti.  Hönnuðir Ford tóku varadekkið aftan af bílnum og settu það inn í bílinn og við það fékk bíllinn allt annað og léttara yfirbragð. Grand Vitara syndrómið var horfið og Ford Ecosport var ekið á nýjar lendur.

image

Sérlega vel útbúinn Ford Ecosport er fallegur bíll.

Þessi knái sportjepplingur var ætlað að vera Ford Fiesta í dulargervi enda bíllinn byggður að mestu á undirvagni Ford Fiesta. Þó ekki hafi ef til vill alveg tekist að halda gæðum Fiestunnar varðandi aksturseiginleika og pláss kemur Ford Ecosport glettilega vel út í reynsluakstri.

image

Hönnun bílsins ber merki Ford og bíllinn stendur hátt enda kallaður Hásetinn.

Fyrst ber að nefna að bíllinn ber þess greinileg merki að vera framleiddur af Ford. Ford gæðin leyna sér ekki. Hann er mjúkur og þægilegur í akstri og tilfinningin er eins og maður sé að aka mun stærri bíl.  Sjálfskipti bíllinn er 3 strokka, með 1 ltr. Ecoboost vél sem skilar 125 hestöflum gefur bílnum einstaka mýkt. Sjálfskiptingin er áreynslulaus og skiptir bílnum ávallt á réttum stað miðað við átak. Dísel reynsluaksturs bílinn er með aldrifi, beinskiptur og 1.5 ltr. vél sem einnig skilar 125 hestöflum.  Þó munur sé á upptaki vélar skilar aflið sér mjög vel í díselbílnum og með því að aka bílnum upp í snúningi finnur maður að það er alveg nægilegt afl fyrir ekki stærri bíl. Eyðslan í blönduðum akstri á dísel útgáfunni var á milli 5-6 ltr. á hundraðið en örlítið hærri á bensínbílnum eða milli 6-7 ltr. á hundraðið.

image

Brimborg býður Ford Ecosport mjög vel búinn. Bíllinn er boðinn í Títaníum útgáfu og ST line útgáfu. Títaníum bíllinn er með Ford Easy Key, start og stopp búnaði, Sync 3 samskiptakerfi, hljómtækjum með 7 hátölurum, blátannarbúnaði, Apple Care Play og Android Auto, 8 tommu snertiskjá með frábærri upplausn og 4.2 tommu upplýsingaskjá í mælaborði sem sýnir eyðslutölur, hraða og fleiri almennar upplýsingar um akstur bílsins og aðgerðarhnappa í stýri fyrir hljómtæki.  

image

Að auki býður Brimborg bílinn í svokallaðri Títaníum S útgáfu en hann er með svörtu leðri á sætum og LED ljósabúnaði. ST bíllinn er síðan með töffaralúkki. Stórri vindskeið að aftan og á hliðum, svörtum toppi, sportfjöðrun og ST line innréttingu sem samanstendur meðal annars af leðri á slitflötum og alcantra áklæði, sportfjöðrun, áli á pedulum og innstigshlífum. Í boði er vetrarpakki með upphitaðri framrúði og hita í stýri.

image

Gott pláss í skotti miðað við stærð bílsins.

Litasérían er sérlega smekkleg á Ford Ecosport. Ég mæli með Racing Red eða Lightning Blue. Ford er síðan með svokallað þriggja laga lakk, níðsterkt lakk sem þolir meira sem hægt er að velja aukalega við kaup á Ford Ecosport.  

Ecosport kemur með 17 tommu álfelgum, halógen aðalljósum með LED lýsingu, dökkum rúðum í farþegarými, stefnuljós á útispeglum og Easy Fuel eldsneytisáfyllingarkerfi án bensínsloks – sem er mjög þægilegt.

image

Ford Ecosport er góður kostur fyrir þá sem eru að leita sér að bíl sem er þægilegur í umgengni, vilja sita hátt og eignast bíl á góðu verði. Fjórhjóladrifsbílinn er hægt að fá með díselvél og beinskiptan. Bensínvélarnar eru bæði með beinskiptingu og sjálfskiptingu.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is