Reynsluakstur: Opel Ampera e, árgerð 2019
Umboð: Bílabúð Benna

Afl, hljóðlátur, tæknibúnaður, útsýni
Setan í framsætum mætti vera lengri

Hljóðlaus þægindi

Opel Ampera e er splunkunýr rafmagnsbíll frá Bílabúð Benna. Bíllinn er frumraun Opel í að smíða rafamgnsbíl frá grunni. Hönnuðum Opel hefur tekist vel upp því bíllinn er bæði fallegur og hagkvæmur og sker sig töluvert úr á rafmagnsbílamarkaðinum.  

image

Opel Ampera e er glæsilegur 100% rafmagnsbíll.

Nýr Opel Ampera e er með drægni upp á 423 kílómetra við bestu aðstæður og má segja að bíllinn sé þannig góð viðbót við þá flóru rafmagnsbíla í þessum stærðar- og verðflokki á markaðnum.

image

Hefðbundið útlit og stútfullur af tækni.

Rafhlaðan neðst í bílnum

Hönnun Opel Ampera e er byltingarkennd þar sem rafhlaðan er staðsett neðst í bílnum og boddýið hannað utan um rafhlöðuna. Með því næst rúmgóður 5 manna bíll með þyngdarpunktinn mjög neðarlega. Það gerir bílinn einstaklega skemmtilegan í akstri enda liggur Opel Ampera e ótrúlega vel á götum Reykjavíkur og nágrennis.

image

60 Kw rafhlaðan dugar allt að 423 kílómetra í bestu aðstæðum.

Hestaflafjöldinn er 204 og togið er 360 Nm. Það þýðir að bíllinn er hvorki meira né minna en 7,3 sek. í hundrað kílómetra hraða á klukkustund.

image

í hraðhleðslu má ná 150 kílómetra drægni að aðeins 30 mínútum. Sjáðu drægni miðað við mismunandi aðstæður hér

Stúfullur af tækni

Opel hefur um áratugaskeið framleitt gæðabifreiðar og verið framarlega í nýjungum. Þar hefur engin breyting orðið varðandi nýjan Opel Ampera e. Ríkulegur staðalbúnaður er meðal annars IntelLink margmiðlunarkerfi með 10,2 tommu snertiskjá. Það sem maður rekur augun fyrst í þegar maður sest inn í bílinn er þessi stóri upplýsingaskjár fyrir miðju mælaborðsins. Auk þess að gefa allar nauðsynlegar upplýsingar um ástand rafhlöðu og notkun rafmagns er boðið upp á aðgang að afþreyingu, loftkælingu og öryggiskerfum.

image

Greinargóðar upplýsingar fást úr fullkomnu stjórnkerfi bílsins.

Í mælaborðinu má sjá hámarkskílómetra fjölda sem mögulega er hægt að fara á núverandi hleðslu, þann kílómetra fjölda sem hægt er að aka miðað við núverandi aksturslag og lágmarkskílómetra fjöldi sem mögulega er hægt að keyra miðað við hámarks orkunýtingu.

image

Fullkomin og notendavæn upplýsingagjöf gerir aksturinn auðveldari og skemmtilegri.

One Pedal Drive

Opel Ampera e er einn af fyrstu bílum á rafmagnasbíla markaðnum með svokölluðu One Pedal drive.  Það þýðir að ökumaður getur lágmarkað notkun á bremsubúnaði til að draga úr hraða eða stöðva ökutækið.  Hægt er að stilla þetta í stjórnkerfi bílsins og er þannig hægt að endurhlaða í akstri á þeim styrk sem við kjósum. Í stýrinu er rofi sem ökumaður smellir á og byrjar þá bíllinn að endurhlaða orku inn á rafgeyminn en rofinn virkar eins og verið sé að hemla á bílnum.

image

Hér er sætið í öftustu stillingu og samt alveg nóg pláss fyrir stóra farþega.

Í bílnum er að sjálfsögðu allt sem rafmagnsbílar nútímans búa yfir; ABS hemlunarkerfi, EPS stöðugleikastýring, rafmagnshandbremsa, LED ljós allan hringinn, rafdrifnar rúður að framan í Opel Ampera e, slétt golf að aftan og mjög gott fótapláss í öllum sætum. Einnig er árekstrarviðvörunarkerfi í Opel Ampera e bílnum.

image

Sætistaða er ljómandi góð og hægt að hækka ökumannssæti en setan í framsætum mætti ná lengra undir fótleggina.

Að auki í Innovation bílnum er bakkmyndavél, hraðhleðslutengi, 7,2 kw hleðslukapall, 17 tommu álfelgur, aðgerðastýri, hæðarstillanlegt stýri með aðdrætti, skynvæddur hraðastillir, upphitaðir rafstýrðir hliðarspeglar með LED stefnuljósum, umferðarmerkja aðstoð, LED inniljós, lyklalaust aðgegni, þráðlaus hleðsla fyrir snjallsíma og svo  mætti lengi telja.

Magnaður kraftur og nægt pláss

Við nutum þess að aka nýjum Opel Ampera e, krafturinn er magnaður, endurhleðslukerfið er hagnýtt og gefur manni aukið svigrúm í notkun bílsins.  Þar sem ökumaður getur kosið um mismunandi mikla endurnýtingu orkunnar eftir því hver notkun bílsins er hverju sinni.  Það fer mjög vel um fimm fullorðna í bílnum en framsætin hefðu ef til vill mátt vera örlítið breiðari og ná lengra undir fótleggina.  

image

Bílabúð Benna býður Opel Ampera í þremur verðflokkum.

Fjöðrun Opel Ampera e er mjög góð og bíllinn er afar hljóðlátur.  Vegna þess hve bíllinn er hljóðlátur gefur hann frá sér hljóð upp að 30 kílómetra hraða til að láta vegfarendur vita af sér.  

image

Hægt er að fá Opel Ampera e með glymrandi góðum Bose hljómtækjum.

Að okkar mati voru rúðuþurrkur bílsins kannski óþarflega stórar sem gerði hreyfingar þeirra full klunnalegar þegar mest á reyndi. Bíllinn er búinn radar sem skynjar akreinar og heldur bílnum innan lína akreina og lætur vita ef farið er yfir línur án þess að gefa stefnuljós.  Með því fæst öruggari og áhyggjulausari akstur enda þótt alltaf þurfi athyglin að vera 100% í akstri.

Við mælum með Opel Ampera Premium sem er á frábæru verði hjá Bílabúð Benna og stenst fyllilega verð samkeppnisaðilanna en Premium bíllinn kostar aðeins 5.590.000 kr.

Helstu tölur:

Verð 4.990.000 kr. (Verð á reynsluakstursbifreið, Premium gerð 5.590.000 kr.) ágúst 2019.

Vél: 150 Kw og 60 Kw rafhlaða

Hestöfl: 204

Newtonmetrar: 360 Nm.

0-100 k á klst: 7,3 sek.

Hámarkshraði: 150 km/klst.

CO2: 0 g/km

Eigin þyngd: 1.591kg

L/B/H 4164/1765/1594 mm

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is