Reynsluakstur: BMW IX, árgerð 2022
Umboð: BL

Hljóðlátur, fjöðrun, tækni
Verð, dýr aukabúnaður

Hann er bara svo hljóðlátur

BMW IX er frumraun fyrirtækisins í flokki rafdrifinna sportjeppa. Bíllinn er þéttur, flottur og afar hljóðlátur. IX er talsvert líkur Vison hugmyndabílnum sem kynntur var árið 2018. Nú er hann kominn og við hjá Bílabloggi fengum hann að láni einn kaldan vetrardag fyrir nokkrum dögum.

image

Demantslagaðar línur í nýjum BMW IX

image

Sterklegur fjórhjóladrifinn rafbíll.

Nýtt og framandi útlit

BMW IX er stútfullur af tækni enda ekki við öðru að búast af einum fremsta bílaframleiðanda í heimi. Þessi bíll er enginn X5, það eru engir sérstakir sporteiginleikar sem koma upp í huga manns við fyrstu kynni. Fyrst þegar ég sá nýrnalaga grillið hugsaði ég með mér „þetta er andskotanum ljótara”.

Það breyttist hins vegar fljótt þegar maður fór að skoða betur.

Bíllinn samsvarar sér afar vel og demantslaga formið kemur vel út. Hann er hins vegar mjög nálægt bræðrum sínum X5 og X6 í stærð.

Það er langt á milli hjólanna, þetta er rafbíll – það þarf að vera dágott pláss fyrir rafhlöðuna. Hún er staðsett neðst í bílnum sem gerir hann stöðugri í akstri og hann liggur vel á vegi.

Og þessi bíll leggst ekki í beygjurnar. Stýrið er hárnákvæmt og svarar um leið og maður kemur við það.

Sætin eru dásamleg. Þau eru svona eins og maður sitji í sófasetti á hjólum. Yfirleitt finnur maður ekki slíka tilfinningu í BMW. Þeir eru stífir, stinnir og gerðir til að gefa svolítið í.

image

Nýrnalaga grillið kemur á óvart.

image

20 tommu felgur.

Skemmtileg fjöðrun

Við vorum svo sem ekki það lengi með bílinn að við mynduðum við hann nein bræðrabönd en nægilega lengi til að átta okkur á að þessi bíll er aðeins öðruvísi en aðrir rafbílar á markaðnum.

Við reyndum bílinn meðal annars úti á Seltjarnarnesi þar sem nóg er af akbrautum með hálfónýtu malbiki.

image

15 tommu aflíðandi skjár.

image

Sætin eru meiriháttar.

Það hefur verið lagt talsvert í nýjungar á innanrýminu. Stór, breið sæti, djúp aftursæti og nóg af plássi fyrir alla farþega. Efnisval framúrstefnulegt og sumt endurvinnanlegt fyrir þá sem vilja vera „pro” í umhverfismálum.

image

Hér er pláss fyrir meðalstóra afmælisveislu.

image

Demantslaga takkar setja stíl sinn á innréttinguna.

Þrjár útgáfur

BMW IX kemur í þremur útgáfum sem eru til sölu hjá BL. Grunnútgáfan heitir xDrive40 Atelier. Millitýpan er svo Launch Edition og síðast en ekki síst er það dýrasta gerðin; xDrive50.

image

Hurðir opnast vel. Hægt er að fá rafdrifna lokun sem aukabúnað.

image
image

Skotthlerinn er rafdrifinn og nægir að setja fótinn undir stuðarann til að hann opnist.

Ágæt drægni

Launch Edition, sá sem við prófuðum, kemur með 71 kWst. rafhlöðu. Hámarksdrægni er uppgefin skv. WLTP um 425 kílómetrar. Hámarksdrægni á til dæmis Mercedes EQC er um 400 kílómetrar skv. WLTP en Tesla X er með uppgefna um 560 kílómetra drægni.

xDrive50 gerðin kemur með 105.2 kWst. rafhlöðu sem sögð er með allt að 630 kílómetra drægni.

Þess má geta að mælt er með að hlaða rafhlöður rafdrifinna bíla ekki meira en í 80%. Reikna má með um 20-25% afföllum í rafmagni yfir vetrartímann t.d. þar sem lofthiti er nálægt frostmarki.

image

Rafhlaðan tekur um 71-105 kWst. og hægt er að hlaða frá 150 kWst. á klukkustund og upp í tæpar 200 kWst.

image

Liðlega 20 sm. eru undir lægsta punkt.

Afþreyingarkerfið er alveg glæsilegt. 15 tommu panorama skjár byggður á nýjustu tækni BMW sem kölluð er iDrive8. Það er bara eitt orð yfir tæknistöffið: Það er æði.

Skjárinn er eins og hugur manns og maðu rétt snertir yfirborðið og hann svarar strax.

Mæli með því að áhugasamir renni við hjá BMW á Sævarhöfðanum og taki bíltúr.

Þægindi sem kosta

Bíllinn er sérlega hentugur fyrir þá sem þurfa mikið pláss. Ríkulegt farangurspláss gerir bílinn að góðum kosti fyrir þá sem hafa í hyggju að ferðast um landið. Myndi kannski ekki taka hálendisvegina á honum. Að öðru leyti er þessi flotti bíll ekkert frábrugðinn öðrum rafmögnuðum jepplingum á markaðnum.

image

Farangursrýmið er um 500 lítrar og stækkanlegt upp í 1.750 lítra með niðurfellingu sæta.

Þessi þægindi eru reyndar ekki ókeypis. Bíllinn kostar frá 11 milljónum sem er ansi drjúgt fyrir hinn venjulega vinnandi mann.

Einhver sagði að verðið væri eini mínusinn við bílinn.

Auðvitað er það alltaf matsatriði og gera má ráð fyrir að talsvert stór markaður sé fyrir bíla í þessum verðflokki.

Helstu tölur:

Verð frá 10.990.000 kr. nóv. 2021.

Rafhlaða: 71-105.2 kWh.

Dráttargeta: 2.500 kg.

Drægni: 425-630 km.

Hæð undir lægsta punkt: 20.2 sm.

0-100 km á klst. 4.6-6.1 sek.

Farangursgeymsla: 1.750 lítrar að hámarki.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 2.365 kg.

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
40 Atelier
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn77 kWh422 km
50 Atelier
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn100 kWh600 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is