Reynsluakstur: Citroen e-C4 , árgerð 2021
Umboð: Brimborg

Fjöðrun, akstursþægindi, hönnun, sæti
Útsýni um fram- og afturrúðu

Flottur Frakki

Citroen e-C4 er nýr og spennandi rafmagnsbíll. Svo spennandi að kaupendur bíða í biðröð eftir að fá hann afhentan. Og við hjá Bílabloggi höfum sætt lagi að fá bílinn til prufu í nægilega góðu veðri og í nægilega langan tíma til að upplifa hann og taka af honum myndir.

image

Falleg frönsk hönnun.

Það tókst núna í júní og við vorum svo sannarlega í sjöunda himni með þennan nýja Frakka.

image

Sérlega vel heppnuð lína í þessum bíl. Takið eftir að felgurnar eru ekki svona hefðbundnar rafmagnsbíla felgur.

Flýtur áfram

Við tókum góðan snúning á nýjum Citroen e-C4 og ákváðum fyrst að finna út þetta sem maður hefur verið að heyra um þennan bíl – að fjöðrunin sé öðruvísi. Já, það eru orð að sönnu.

image

Blátt þema á rafmagnsútgáfunni.

Bíllinn tekur allar misfellur ótrúlega vel og þú finnur aldrei nein högg – ekki einu sinni þegar við ókum á talsverðum hraða yfir hraðahindrun (samt innan löglegra marka).

image

Þaklínann slúttur eilítið afturmeð bílnum en samt sem áður er fínt höfuðpláss afturí.

Við leituðum ráða hjá bíltæknisérfræðingi Bílabloggs, Jóni Helga Þórissyni. Þetta heitir Hydraulic Cushions® system og er bæði með gormum og dempurum. Munurinn á þessari fjöðrun og hefðbundinni er að það bætast við glussa- eða vökvastopp fyrir samþjöppun (compression) og þrýstingminnkun (decompression) í viðbót við hefðbundna gúmmístuðpúða. Og þetta virkar!

Feel, Feel Pack eða Shine

C4 fæst í nokkrum útfærslum. Hann kemur reyndar einnig með dísel og bensínvélum en við erum að tala um e-C4 sem hefur 50 kWst. rafhlöðu sem gefur drægni upp á um 350 km. skv. WLTP prófunarstaðlinum. Eins og við vitum er það hámarksvegalengd sem bíllinn kemst við bestu skilyrði.

image

Þægilegt aðgengi - hurðir opnast vel og þú sest inn en ekki ofan í bílinn.

image

Afturhurðir eru léttar og opnast vel. Takið eftir hve hurðin lokast vel yfir sílsinn.

Það spilar margt inní hversu langt bíllinn dregur. En þættir eins og útihitastig, vegyfirborð, vindhraði og aksturinn sjálfur skipta miklu máli um drægnina – allt eins og við akstur á bíl með hefðbundinni brunavél.

Ætli við getum ekki giskað á að raunveruleg drægni bílsins sé miðað við júní hita á Íslandi í blönduðum akstri um 250 km.

image

Sætin eru algjörlega frábær - þægileg og halda vel við.

Fjölskyldubíll

Citroen e-C4 er góður fjölskyldubíll. Fínt pláss er fyrir fjóra fullorðna eða tvo fullorðna og þrjú börn. Fótapláss afturí er ágætt og sætin sérlega þægileg – bæði frammí og afturí.

image

Hér er allt innan seilingar og mjög einfalt í notkun.

Bíllinn kemur með allskyns þæginda- og öryggisbúnaði og má til dæmis nefna að Shine útgáfan eins og við reynsluókum er með lyklalausu aðgengi (bíll læsist þegar gengið er frá honum), blindpunktsviðvörun, skynvæddum hraðastilli með Stop & Go tækni, fullt af USB tengjum og sjálfvirkri háuljósaaðstoð.

image

Aftursætin eru ekki síður þægileg en framsætin. Mýktin er eftirtektarverð.

Rafmótorinn gefur um 136 hestöfl og er það nægilegt afl fyrir þennan bíl að okkar mati. Þetta er enginn kvartmílubíll enda ekki hugsaður sem slíkur.

Hægt er að velja um þrjár akstursstillingar, Eco, Normal og Power og hver þeirra gefur mismunandi afl, Eco það minnsta og Power það mesta.

image

Stór framljós og þokuljós römmuð inn í bláu þema.

Vel búinn

Þú getur síðan talað við bílinn í gegnum „app“ sem fylgir bílnum þar sem hægt er að tímastilla upphitun bílsins. Varmadæla er staðalbúnaður en hún hjálpar til við að spara orku með því að nýta hita frá rafhlöðu til upphitunar.

Þetta sparar talsvert orku og er ómissandi hér á Íslandi þar sem hitastig er frekar í lægri kantinum.

Staðalbúnaður er ríkulegur. Til að mynda er bíllinn búinn snjallhemlun, rafdrifnum og upphituðum hliðarspeglum, ökumannsvaka, umferðarskiltaaðstoð, veglínustýringu ásamt 7,4 kWst. hleðslustýringu fyrir heimahleðslu. Hægt er að fá 11 kWst. hleðslustýringu fyrir bílinn sem aukabúnað.

image

Farangursgeymslan er rúmgóð og afturhlerinn opnast mjög vel.

image

Skemmtilegur í akstri

Það er einfaldlega gott að aka þessum bíl. Um leið og hann er mjúkur í akstri, leggst hann ekki í beygjur og mjög stöðugur í akstri. Stýrið er lauflétt og mjög nákvæmt.

Farangursgeymslan er í stærra lagi miðað við rafdrifinn fólksbíl. Þaklína slúttir aftur með bílnum en það dregur ekki úr höfuðrými afturí.

image

18 tommu felgur eru staðalbúnaður.

Góður kostur

Okkar mat er að hér sé kominn bíll sem hentar mjög vel sem fjölskyldu- og ferðabíll þó svo að hann muni án efa standa sig betur í borginni en í lengri ferðum. Rúmgóður, þægilegur, hagnýtur og hönnunin er frönsk og flott.

Eina sem við fundum að bílnum var útsýni um framrúðu og afturrúðu en framrúðan er frekar lítil. Eitthvað sem venst.

image

Vegæð er um 156mm.

Um afturrúðuna sést vindkljúfur (e. spoiler) sem dregur aðeins úr útsýni um afturrúðu. Og ekki spillir verðið en það er frá 4.090 þús. krónur.

Helstu tölur:

Verð frá 4.090 þús. (Reynsluakstursbíll kr. 4.540 þús).

Rafhlaða: 50 kWh.

Drægni: 350 km. skv. WLTP.

Hestöfl: 136.

0-100 km á klst. 9,7 sek.

Hámarkshraði: 150 km/klst.

CO2: 0 g/km.

L/B/H: 4360/1834/1520

Eigin þyngd: 1.541 kg.

Hleðslutími AC: 7,5 klst.

Hleðslutími DC: (80%) 30 mín.

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Feel
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn260 - 13650 kWh357 km
Feel pack
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn260 - 13650 kWh357 km
Shine
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn260 - 13650 kWh357 km
Shine pack
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn260 - 13650 kWh357 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Brimborg áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is