Reynsluakstur: Mercedes Benz EQA, árgerð 2021
Umboð: Askja

Þægindi, verð, hljóðeinangrun
Viðbragð, veggrip‍

Alveg get ég játað það að þau „straumhvörf“ sem í vændum eru í bílasögunni hafa valdið mér nokkrum áhyggjum. Í það minnsta heilabrotum og dálitlu umkomuleysi innra með mér.  

image

Billegur og elegant

Það er gaman að koma nokkrum dönskum orðum inn í greinarnar mínar til að sýna fram á að dönskukennslan komi sko víst að gagni. Billegur skal hann vera og elegant í þokkabót! Það er að segja að EQA kostar frá 6.790.000 kr. og er það í ágætt í hinu stóra samhengi. En bíðum við… Þetta er ekki fjórhjóladrifna útgáfan. Hún kostar aðeins meira, eða frá 7.590.000 kr. Eftir sem áður kom verðið blaðamanni á óvart.

image

Almennt séð á hönnun það til að fara alveg framhjá mér. Nema þegar kemur að bílum og flugmaskínum hvers kyns.

Eins og eflaust mörgum öðrum, tók það mig tíma að venjast trýninu á rafbílum. Þeir eru ekki með (eða þurfa ekki) grill. Grillin hafa heldur betur breyst, eins og fjallað er um á skemmtilegan hátt í grein kollega míns hér​​.

image

Eins og þar segir: „Þú gætir tekið loft þarna inn, ef þú ætlar að kæla tómt rými.“

Það væri kjánalegt. Nú, þegar ég er orðin vön breyttri ásýnd margra bíla (hæ nútími og framtíð!) þá finnst mér t.d. EQA bara ljómandi snotur „í framan“. Það er mín skoðun og þó svo að ég, prívat og persónulega, velji bíla ekki eftir útliti þá veit ég að sumir gera það. Fyrir þá sem það gera er EQA sennilega eins konar Gósenland þegar inn í bílinn er komið!

image

Mælaborðið er breiðskjár (e. wide screen) í háskerpu og stafrænt stjórnrýmið er margslungið.

„Margslungið“ útskýrt ögn betur

Þetta var nú sérkennilegt orðalag sem segir lesendum nákvæmlega ekki neitt: „[...] stafrænt stjórnrýmið er margslungið.“ Leyfið mér, lesendur góðir, að útskýra þetta aðeins:

image

Þetta segir í raun ekki baun um hvernig þeim líkaði súpan en enginn móðgast og ekki þarf að ræða það frekar. Sniðugir þessir Svíar (ef rétt reynist!).

Nema hvað: Frá súpu yfir í bíl, og ekki bara einhvern bíl heldur Benz EQA! „Margslungna“  stjórnrýmið var sumsé flókið. Ekki vont eða gott heldur gafst mér ekki tóm til að „mastera“ það. Tíminn sem ég fékk til að reynsluaka bílnum bauð ekki upp á að blaðamaðurinn knái gæti prófað alla þá spennandi möguleika sem í boði eru. En möguleikarnir eru greinilega margir! Staðalbúnaður er ríkulegur, eins og grunnbíllinn kemur hingað, og hann má sjá hér.

image

Hljóðlátari en margir frændur

Það skýtur kannski skökku við að fjalla sérstaklega um að RAFBÍLL sé hljóðlátur. Auðvitað er hann það. Engin vél = ekkert prump. Það er samt munur á hvernig veghljóð og annað berst inn og um bíl. Rafbílar eru misþéttir, rétt eins og aðrir bílar. Og EQA er pottþéttur! Þéttur sem pottur.

image

Kjarni málsins er sá að ég heyrði ekki nokkurt vindgnauð þar sem ég sat inni í vel innréttuðum EQA og leið bara eins og fyrir utan væri stilla (ef ekki hefð verið fljúgandi drasl út um allt og úrhelli). Það er mikið gæðamerki myndi ég segja að heyra ekki skarkalann sem fyrir utan er!

Gerast góðir hlutir hægt?

Eitt af því sem getur verið hreint út sagt dásamlegt við rafbíla er hröðunin. Þvílík snilld!

image

En því miður á þetta ekki við um þann EQA sem ég prófaði. Hann er tæpar 9 sekúndur að komast úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Þessar 8,5 sekúndur (nákvæmlega) voru lengi að líða og ekki mikið fútt á meðan. EQA 350 4MATIC mun þó ná þessu á 5,8 sekúndum og það er betri tími en 8,5 sekúndur.

Miður þóttu mér þessi seinu viðbrögð sem og það að Sport-stillingin virkaði ekki mjög sportlega, nema auðvitað í því sporti að hakka í sig rafmagnið. Það er vont sport.

Um rými og rafhlöðu

Við bestu skilyrði, segir framleiðandi, má komast allt að 424 kílómetra á hleðslunni. Það hljómar vel og hef ég svo sem ekkert meira um það að segja því sem fyrr segir var varla hundi út sigandi þegar þessi snotri bíll var prófaður. En út fór ég þó að í mér væri hundur vegna veðurs. Hleðsluprósentan fór ört niður á við, eðli máls samkvæmt, í mótvindi og alls konar veðurillsku sem einskorðast við suðvesturhorn vors lands. Þó gerðist það ekki svo hratt að vandræði hlytust af.

Veggrip og nautgrip

Jú, það er kominn seinnipartur í þessi skrif og kvöldgalsi í blaðamann, þótt ekki sé komið kvöld. En að lokum má nefna að veggripið var ekki nógu gott. Við öfgakennd veðurskilyrðin safnaðist vissulega regnvatn í vel notað malbikið á höfuðborgarsvæðinu. Almennilegar vatnsrásir myndast víða á götum þegar viðhaldi þeirra er ekki sinnt og ekki einu sinni hávaðaroki tókst að feykja vatninu úr „farvegi“ sínum.

Þarna, þegar undirrituð í klaufaskap rambaði í rásirnar fastmótuðu (þarf samt nánast að vera á einhjóli til að rata ekki ofan í þetta), var gripið ekki nokkurt. Skautuðum við, ég og EQA, á veginum. EQA eins og „belja“ á svelli en ég eins og kábboji í ótemjureið.

image

Þetta var óþægilegt og auðvitað ber að ítreka að ekki var um fjórhjóladrifna útgáfu bílsins að ræða. Til að kanna hvort aðrir akstursunnendur hefðu reynt þetta á EQA kom í ljós að svo var. Höfðu einhverjir bílablaðamenn úti í hinum stóra heimi orð á því að eflaust færi betur á akgreinaskiptum þegar þurrt væri. En hver veit nema dekkin hafi verið óheppileg eða eitthvað í þá veru? Margt getur spilað inn í og flest getum við nú verið sammála um að til eru betri vegir en þessir vatnsrásasvelgir sem við þekkjum of vel.

Rúsínan (og systur hennar) í pylsuendanum

Það er ljótur stíll að enda tónleika, veislur og reynsluakstursgreinar á leiðindum. Ekki ætlum við að taka upp á því núna!

image

Hvort vel fer um lang„löppur“ aftur í eður ei fer þar vel um börn og stuttfætlur. Og mikið óskaplega fer vel um ökumanninn! Þetta er enginn kirkjubekkur sem maður situr á - nei, onei! Þarna er sko gott að vera.

Mér fannst til dæmis mjög gaman að „þurfa“ að bíða í þessum bíl: Margt úr framtíðinni virðist vera í EQA og ekki að furða að risaeðlur í útrýmingarhættu (jebb, var að stimpla mig inn) þurfi tíma til að læra á herlegheitin. Risaeðlan kunni afar vel að meta hljóðkerfið og hljómgæðin. Sveitin Jurassic 5 varð reyndar ekki fyrir valinu en með aðstoð tækninnar tókst að grafa upp ýmsa steingervinga: The Stone Roses, Stone Temple Pilots og The Rolling Stones fengu að óma og allt var gott. Hljóðin fyrir utan eru fyrir utan og þau sem maður kýs að hafa inni í bílnum hljóma vel.

Ljósmyndir: Malín Brand og Óðinn Kári

Mercedes-Benz EQA verðlisti
Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
250 Pure
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn385 - 19066.5 kWh495 km
250 Progressive
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn385 - 19066.5 kWh495 km
300 4MATIC Pure
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn390 - 22866.5 kWh438 km
300 4MATIC Progressive
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn390 - 22866.5 kWh438 km
350 4MATIC Pure
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn520 - 29266.5 kWh438 km
250 Power
Framhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn385 - 19066.5 kWh495 km
350 4MATIC Progressive
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn520 - 29266.5 kWh438 km
300 4MATIC Power
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn390 - 22866.5 kWh438 km
350 4MATIC Power
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn520 - 29266.5 kWh438 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Askja áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is