Að sjá þessar mögnuðu rallýkonur! Hér eru á ferðinni; já á mikilli ferð, þær ​​Michèle Mouton og Fabrizia Pons. Hin franska ​​Michèle Mouton er án efa magnaðasta kvenpersóna sem rallið getur státað af. Já, og sennilega akstursíþróttaheimurinn svona yfirleitt.

Hún keppti í ralli frá 1974 til 1986 og í meðfylgjandi myndbandi keppti hún, eins og sjá má, fyrir Audi. Audi S1 Quattro var bíllinn og aðstoðarökumaðurinn  hin ítalska Pons sem áður var nefnd.  

Það er vonlaust að fjalla á einhverju hundavaði um hinn stórkostlega feril  Michèle Mouton, að Pons ólastaðri sem og öðrum aðstoðarökumönnum Mouton, en það er vel við hæfi að birta hér þetta ágæta og stutta myndband í dag. Af hverju?

Það þarf auðvitað aldrei neitt sérstakt tilefni til að fjalla um magnað fólk í heimi akstursíþróttanna, en hins vegar er það nú svo að  Michèle Mouton hefur verið undirritaðri ofarlega í huga síðustu dagana:

Í fyrradag, á föstudagi, þegar Jean Todt lét af störfum sem forseti Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA) eftir tólf ára starf, lét Michèle Mouton einnig af störfum en hún hefur síðastliðin tólf ár gegnt hlutverki forseta FIA Women in Motorsport, þ.e. ráðs eða nefndar kvenna í akstursíþróttum.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is