Hann var ákveðinn, ungi maðurinn sem skrapp í Hljómskálagarðinn á bílnum sínum í byrjun júlí árið 1957. Það fór ekki framhjá þeim sem mættu honum að hann var með umferðarreglurnar á hreinu.

Nóg um það!

Árið er 1957 og það er miðvikudagur 5. júlí. Fólk drífur að úr öllum áttum – allir eru á leið í Hljómskálagarðinn í miðbæ Reykjavíkur. Eftirfarandi texti fylgdi myndinni sem birtist í Morgunblaðinu þann 6. júlí 1957:

„Þangað komu ungir og gamlir, konur með smábörn sín í vögnum og kerrum, fullorðnir menn komu þangað til þess að hressa sig eftir erfiði dagsins, því á sólbjörtum dögum er óvíða skemmtilegra í Reykjavík, en suður við Tjörn og í Hljómskálagarðinum.“

Þar var gott að „spana“

Um strákinn á myndinni, sem frábært væri ef einhver lesandi kannaðist við, sagði:

„Þessi ungi ökuþór er á leiðinni þangað líka í litla bílnum sínum og er hvergi smeykur, enda öruggur á umferðarmerkjum og krefst þess að þeir á stærri bílunum taki fullt tillit til sín, og „svíni" ekki á sér í umferðinni, eins og bílstjórarnir kalla það. Hann sagði að það væri svo gott að „spana" eftir stígunum í Hljómskálagarðinum og svo eru þar engir bílar, bara stundum barnavagnar.“

Fleiri voru orðin ekki en skemmtileg er hún og sumarleg myndin af ökumanninum unga og ummæli hans sniðug!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is