Svona töluðu sölumenn bílaumboðanna í denn

Tók sman auglýsingatexta úr nokkrum íslenskum dagblaðaauglýsingum á nýjum bílum frá árinu 1966, fæðingarári undirritaðs.

Vauxhall Viva

image

Nóg pláss fyrir alla fjölskylduna þó lagt sé upp í langferð, segir í auglýsingu frá Bíladeild Sambandsins árið 1966.

Ótrúlega ódýr (verð ekki í auglýsingu). Bíllinn fyrir meðalstóra fjölskyldu, nóg rúm fyrir bæði fólk og farangur. 4ra hraða alsamhæfður gírkassi og með skiptingu í gólfi. Mjög gott útsýni til allra hliða.

Volvo 144

image

Gunnar Ásgeirsson sýndi alveg nýjan Volvo 144 árið 1966. Á þeim árum var ekkert til sparað til að kynna mögulegum Volvo kaupendum þennan nýja bíl.

Haldin var kynning í Háskólabíó þar sem bíllinn var sýndur og kvikmyndir af reynsluakstri.

Tvöfalt hemlakerfi, stýrisstöng fer í sundur við harðan árekstur, fullkomið hita- og loftræstikerfi sem hreinsar einnig móðu af afturrúðum. Hurðir opnast 80°, 925 m beygjuradíus (snúningsgeisli) og óvenju fjölhæf og þægileg framsæti.

Hillman Hunter

image

Bifreiðakaupendur: Þið getið hætt leitinni að góðum, vönduðum en ódýrum fjölskyldubíl. Þetta er allt sameinað í hinum nýja Hillman Hunter.

Ford Cortina

image

Kynnist Cortina, algerlega ný Cortina. Hinir framúrskarandi kostir eldri gerða Cortina nýttir til hins ýtrasta. Glæsilegt útlit, þægindi og rými.

Vélar 59,5 og 65 hestöfl, fimm höfuðlegur. Hita- og loftræstikerfið “Aeroflow” eykur enn þægindin. Gírskipting í gólfi, á stýri eða sjálfskipting.

Fiat 124

image

Bíllinn sá var hannaður árið 1966 en kynntur hér árið 1967 og kynntur til leiks með ótrúlega aksturshæfni, mjög rúmgóður fimm manna bíll, diskahemlar á öllum hjólum ásamt ótal nýjungum.

65 hestöfl og eyðsla ekki nema um 8 lítrar á hundraðið. Þessi kostar aðeins frá 184.900 kr. árið 1967.

Það var Davíð Sigurðsson sem var handahafi einkaumboðs Fiat á Íslandi og var fyrirtækið staðsett á Laugavegi 178 árið 1967.

Lotus Europe

image

Ekki man ég eftir slíkum bíl hér á landi. En hann var til sem Matchbox bíll (litlir leikfangabílar í boxum sem flestir strákar vildu eiga nokkra af). Ég átti einn bláan – eins og á myndinni.

image

Trabant 601

image

EF þér viljið kaupa góðan bíl fyrir lítinn pening, þá kynnið yður Trabant 601. Ummæli sýna ljóslega hvers af bílnum má vænta segir í auglýsingu í Morgunblaðinu 30. janúar 1966. Stálgrindarhús klætt Duroplasti, bremsur á alla gíra, loftkæld vél (froslögur óþarfur), sparneytinn, kraftmikill, hefir góða miðstöð, sjálfstilltar bremsur, mjög rúmgóður og bjartur, asymmetrisk ljós og marg fleira.

Ingvar Helgason auglýsti bílinn en hann var á Tryggvagötu 8 í Reykjavík árið 1966. Einnig var Bílasala Guðmundar á Bergþórugötu 3 með söluumboð.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is