Oft var einfaldlega talað um „Rússa-Lödurnar“ sem er auðvitað sérstakt miðað við uppruna bílanna en flest ættum við að kannast við bægslaganginn hér á landi í kringum rússneska togara, bílabrask, Lödur og vodka um 1990. Já, þegar Íslendingar seldu Rússum Lödurnar.

image

„Svo virðist sem ný útflutningsgrein sé komin tíl sögunnar hér á landi. Nokkuð hefur borið á því undanfarið að sovéskir sjómenn, sem koma til hafnar í Reykjavík, kaupi gamlar Lödur, sem Íslendingar hafa fleygt, og hafi þær með sér um borð í skip sín. Þeir hafa keypt bílhræin hjá Vöku og einnig hafa þeir fengið að rífa bíla hjá Sindra hf. Þeir hafa sagst ætla að rífa bílana í hafi og hirða það sem nýtilegt er úr þeim og hafa með sér heim til Sovétríkjanna,“ sagði í Morgunblaðinu þann 23. mars fyrir rúmlega tuttugu og þremur árum.

„Þeir [sjómennirnir] eru að hirða hér alveg ótrúlegustu hluti, þurrkublöð og þéttikanta til dæmis. Það hefur verið straumur af þeim hingað þegar þeir hafa verið í höfn og þeir hafa verið drjúgir að hreinsa hluti sem okkur þykir lítil verðmæti í."

Þetta sagði Steinar Gunnsteinsson hjá Vöku í samtali við Morgunblaðið. Þannig var þetta í upphafi: Bílarnir voru margir hverjir rifnir á Íslandi og það tekið með sem átti að nota. Þetta átti heldur betur eftir að breytast eins og annað. Þetta var bara byrjunin.

Sextán mánuðum síðar birtist eftirfarandi:

„Í einu af stórblöðum landsbyggðarinnar mátti lesa nýlega frá bílabraski rússneskrar áhafnar skemmtiferðaskips sem lá við festar á Akureyri. Rússarnir fóru hamförum á Akureyri í leit að rússneskum eðalvögnum, þ.e.a.s. Lödum, og urðu úr sér gengnar Lödur fyrir valinu.

Lödu-eigendur á Akureyri hugðu sér gott til glóðarinnar og tókst nokkrum að losa sig við druslur sínar fyrir dágott verð. Sumar Lödurnar voru í þannig ásigkomulagi að ekkert nema ruslahaugarnir biðu þeirra, en nú eru þær komnar langleiðina til Sovét, þar sem þær verða gerðar upp.

S&S [dálkurinn Smátt og Stórt] heyrði það út undan sér að ein Lada hafi farið fyrir nokkrar flöskur af rússneskum vodka, en það er ekki lánað dýrara en það er skuldað. En eitt er Ijóst að Lödu-eigendur á Akureyri eru farnir að setja sig í stellingar fyrir komu næsta rússneska skemmtiferðaskips, hvenær sem það kemur. Þegar það kemur verður áreiðanlega handagangur í öskjunni, því eftirspurn eftir Lödum í Sovét er margfalt meiri en framboðið. Sem sagt: Lödu-eigendur Akureyrar og nágrennis. Ef Ladan ykkar er á leiðinni á haugana, þv( ekki að leyfa henni að fara aftur til föðurlandsins og eyða ellidögum þar í Gorbaríki.“

image

Skjáskot af opnu Tímans sem vitnað er í hér fyrir neðan.

Tíminn greindi frá því að þriggja ára bið væri eftir nýrri Lödu þar ytra og að varahlutir, eins og framrúða, kostaði margföld mánaðarlaun í Sovétríkjunum:

image

Úr Morgunblaðinu 11. maí 1990

image

Smáauglýsingar birtust stundum í blöðunum og hér er eitt dæmi. 

Hús úr húsi

Svo mikið var upp úr þessu braski að hafa að áhafnarmeðlimir gengu um og bönkuðu upp á þar sem Lödur voru við hús, eins og til dæmis í Keflavík.

image

Þetta birtist í Víkurfréttum sumarið 1990

image

Önnur smáauglýsing frá þessum árum.

Norðmenn veiddu Lödur

Svo kom að því að ljóst varð að það sem ekki var notað af bílunum fékk beinlínis að gossa í hafið. Norðmenn voru ekki kátir þegar þeir fóru að dorga upp bílflökin; bílflök sem þeim tókst að rekja til Íslands.

image

„Íslendingar hafa dáðst mikið að áhuga rússneskra togarasjómanna á að kaupa gamlar Lödur og taka með sér heim til Rússlands. Menn hafa lofsungið þetta framtak þeirra, enda virðist augljóst að hér sé um umhverfisvænar aðgerðir að ræða,“ sagði í frétt Pressunnar þann 29. janúar 1993.

image

Meðfylgjandi skjáskot er úr Morgunblaðinu frá vorinu 1994.

Svo smám saman fjaraði þetta út, ef svo má segja. Fáeinum árum síðar var farið að minnast þessa viðskipta með bros á vör en fæstir ef nokkrir hafa hugmynd um hver græddi á þessu. Ef það var þá einhver sem græddi á þessu.

Var þetta áhugavert? Þá gæti þér þótt þessar greinar góðar:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is