Reynsluakstur: Adui e-tron 50, árgerð 2020
Umboð: Hekla

Akstursþægindi, pláss, tækni, útlit
Þráðlaus síma hleðsla ekki staðalbúnaður

Tvö og hálft tonn af tækni

Fyrir skömmu tókum við einn af stærri rafmagnsbílunum á markaðnum í reynsluakstur. Audi e-tron er rafmagnsdrifinn sportjeppi sem vægast sagt er stútfullur af tækni og nýjungum sem gera bílinn að einum besta valkosti á markaðnum.

image

Audi e-tron 50 er glæsilegur bíll.

Audi e-tron kemur í tveimur megin gerðum, Audi e-tron 50 og 55. Bíllinn sem tekinn var til reynslu er af gerðinni Audi e-tron 50 með Advance afmælispakka. Sá bíll kostar um 9.140.000 kr.

image

Falleg hönnun og sérlega vel byggður.

Nýtt rafdrifið fjórhjóladrif

Audi fjórhjóladrifskerfið hefur verið eitt það fullkomnasta sem í boði hefur verið í fjölda ára. Quattro kerfið skynjar vegyfirborðið og stýrir þannig toginu á milli hjóla og öxla. Með EPS skrikvörn og ABS bremsukerfi hefur Audi fengið orð á sig fyrir að vera með eina bestu aksturseiginleika bíla með fjórhjóladrifi.

image

Stútfullur af tækni og nýjungum.

Þó svo að við höfum ekki prófað bílinn í neinum torfærum fundum við glöggt hversu stífur bíllinn var í beygjum og hversu vel hann lét í beygjum á talsverðri ferð. Sporteiginleikana vantar ekki.

image

Hægt er að sérpanta bílinn þannig að hann henti hverjum og einum sem best.

Fjölmargar akstursstillingar

Með fjölmörgum akstursstillingum getur ökumaðurinn valið þá hagstæðustu miðað við aðstæður hverju sinni. Það er fremur auðveld aðgerð að smella á takka í mælaborðinu og velja svo þá akstursstillingu sem hentar.

image

Audi e-tron er með fullkominni loftpúðafjöðrun sem gerir að verkum að hægt er að hækka og lækka bílinn.

Með þessu er hægt að stjórna stífleika loftpúðafjöðrunar og veghæð bílsins.

Vel byggður og fallegar línur

Audi e-tron er verulega vel heppnaður bíll hvað varðar útlit og byggingu. Innréttingin er einföld og smart og efnisval allt til fyrirmyndar. Hægt er að velja um fjölmargar útfærslur á innréttingu, lýsingu og búnaði. Þannig getur þú sett saman bíl sem þú vilt að henti frekar borgarakstri og sem fjölskyldubíll eða valið grófari felgur sem henta betur til ferðalaga.

image

Hleðsluhæð er þægileg og enginn kantur niður í farangursrýmið.

image

Afturhlerinn opnast vel og truflar ekki aðgengi. Á þessum bíl er rafmagnslokun á hleranum.

Fyrst og síðast hefur kaupandinn þann möguleika að sérsníða bílinn að sínum þörfum. Eina sem við söknuðum í reynsluakstursbílnum var þráðlaus hleðsla fyrir síma – sem sannarlega er þægileg en hægt að panta sem aukabúnað í Audi e-tron 50 bílnum.

Drægni sem dugar

E-tron 50 dregur 336 kílómetra skv. WLTP prófunarstaðlinum við bestu aðstæður – Audi e-tron 55 hefur akkúrat 100 kílómetra lengri drægni. E-tron 50 er með 230 kW afli sem togar um 540 Nm. Þannig er bíllinn að skila um 308 hestöflum. Rafhlaðan telur 71 kWh og bíllinn er um 6.8 sekúndur í 100 km. hraða á klukkustund.

image

Hurðir opnast vel og gott er að setjast inn. Þú sest ekki ofan í bílinn.

image

Ekki er síðra að ganga um bílinn afturí.

En er 336 kílómetra drægni næg fyrir bíl sem kostar rúmar 9 milljónir króna? Svarið getur örugglega verið á marga vegu.

En miðað við að eigandinn búi í höfuðborginni og noti bílinn að mestu í borgarakstri ætti drægnin ekki að vera vandamál. Hleðslustöðvum hefur fjölgað á stuttum tíma í kringum landið og ekki hefur heyrst af marktækum vandræðum rafbílaeigenda að ná hleðslu á hringveginum.

Hagnýt hleðslutækni

Audi e-tron býr yfir mjög hagnýtri hleðslutækni. Hægt er að nota hleðslustöðvar til að hlaða jafnstraum (DC) upp að allt að 150 kW – í fyrsta skipti fyrir bíla í þessum flokki. Þetta þýðir að Audi e-tron er klár fyrir langferð á innan við hálfri klukkustund. Þennan rafknúna sportjeppa er líka hægt að endurhlaða með riðstraumi (AC), allt að 11 kW. Audi býður upp á mismunandi lausnir fyrir rafhleðslu heima við.

image

Öllu fyrirkomið á sem hagkvæmastan máta með þægindi í fyrirrúmi.

Þú stillir einfaldlega hversu mikið þú vilt nýta af annars ónýttri orku með flipum í stýrishjólinu.

Nóg af plássi

Það fer mjög vel um ökumann og farþega í Audi e-tron. Um nóg pláss er að ræða bæði fyrir farþega og ökumann að framan og ekki síðra aftur í. Fótapláss er gott og þægilegt að setjast inn og stíga út úr bílnum.

image

Sætin eru þægileg í grunntýpunni en panta má nokkrar útfærslur af sætum.

Farangursrými er í góðri hæð til hleðslu og hægt að fella niður sæti í hlutföllum.

image

Þægileg aftursæti.

Framúrskarandi aksturseiginleikar

Audi e-tron er þægilegur í akstri, fer vel með mann og lítið er um veghljóð. Stýrið er nákvæmt og bíllinn haggast ekki á veginum eins og sagt er. Fjöðrunin er tölvustýrð og skynjar vegyfirborðið þannig að aksturinn er ávallt jafn og þægilegur.

image

Hér er enginn miðjustokkur sem tekur pláss frá farþega í miðjunni.

Þrátt fyrir að vera búntaður af tækni er bíllinn í raun mjög einfaldur í notkun og maður er fljótur að ná tökum á stjórntækjum og búnaði.

Rafhlaðan fellur vel að hlutföllum Audi e-tron og er staðsett milli öxlanna: flatur, breiður kubbur fyrir neðan farþegarýmið. Það setur þyngdarpunktinn jafnt á milli fram- og afturöxla.

Góður kostur

Hægt er að panta fjölbreyttan aukabúnað með Audi e-tron. Uppsetningin á staðalbílnum, grunnútgáfunni, sem er í raun mjög vel búin útgáfa og kostar rétt um 8 milljónir sem teljast verður afar hagkvæmt verð fyrir bíl í þessum flokki og tæknistigi.

image

Audi e-tron er vígalegur þegar búið að er hækka hann með loftpúðakerfinu.

Hins vegar ef þú vilt meira af þægindum og búnaði kostar hann talsvert – eins og til dæmis Individual paint, lit og lakkmeðhöndlun sem kostar um 460 þús. krónur, Matrix Led ljós á 230 þús. krónur og næturmyndavél fyrir 340 þús. krónur svo eitthvað sé nefnt.

Hér má sjá umfjöllun okkar um aðrar Audi bifreiðar - Audi Q5, Sportari í jeppabúningi og Audi Q7 e-tron, Rafmagnaður til að vera betri.

Helstu tölur:

Verð frá 8.170.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl 9.140.000)

Vél: 230 Kw og 71 Kwh rafhlaða

Hestöfl: 308

Newtonmetrar: 540 Nm.

0-100 km á klst: 6,8 sek.

Hámarkshraði: 190 km/klst.

CO2: 0 g/km

Eigin þyngd: 2.495 kg.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is