Reynsluakstur: Ford Ranger Raptor, árgerð 2020
Umboð: Brimborg

Akstursþægindi, kraftur, fjöðrun og útlit
Verð

Lætur drauma rætast

Ford Ranger Raptor var nýlega kynntur til leiks sem einn mest spennandi kosturinn á pallbílamarkaði í Evrópu og víðar enda valinn pallbíll ársins í Evrpópu og er mest seldi pallbíllinn í Evrópu. Við hjá Bílablogg höfðum tekið Ford Ranger Wildtrak til skoðunar seint á síðasta ári. Í kjölfarið hlökkuðum við mikið til að reynsluaka stóra bróður hans, Ford Ranger Raptor.

image

Kraftmikið útlti. Hæð undir lægsta punkt er 237mm.

Algjör töffari

Og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Raptorinn sló í gegn. Þessi pallbíll lætur drauma rætast. Hann svínliggur á vegi, fjöðrunin er frábær og 10 gíra sjálfskiptingin vinnur eins og um töfrabrögð sé að ræða. Upplifunin verður eins og maður sé að aka í kvikmynd þar sem fullt af bófum eru að elta án þess að eiga roð í mann. Vélarhljóðið minnnir frekar á átta strokka, fimm lítra vél í stað fjögurra strokka, tveggja túrbínu rúmlega 200 hestafla vélar.

image

Ford Ranger Raptor kemur á 17 tommu Dino Grey álfelgum.

Við Gunnlaugur Steinar Halldórsson renndum eins og svo oft áður upp á Nesjavelli þar sem við höfum reynsluekið í mismunandi aðstæðum. Okkur langaði til að prófa Raptor í nákvæmlega sömu aðstæðum og við prófuðum Wildtrak bílinn og greina muninn.

image

Öflug stigbretti, dráttarbeisli og vandað álpalllok með læsingu er staðalbúnaður á Raptor.

Liggur eins og sveskja

Það fyrsta sem við tókum eftir á leiðinni uppeftir á rétt rúmlega löglegum hraða var að bíllinn liggur eins og sveskja á veginum. Stýrið er nákvæmt og bíllinn tekur hornin sérlega vel. Og já, þetta er pallbíll!

image

Raptor grill og stuðarar.

Raptorinn er á gormum allan hringinn og með FoxPro dempara með segullokum sem skynja undirlag bílsins. Þessi fjöðrun gerir að verkum að bílinn er mýkri við yfirferð á hörðu yfirborði og stinnur á sléttara yfirborði. Fox dempararnir eru með stífa virkni efst og neðst og draga þannig úr höggum í miklum ójöfnum.

image

4 strokka díselvélin hljómar meira eins og 8 strokka, 5 lítra vél. Raptor er með 203 hestafla vél með tveimur túrbínum.

Lúxus allstaðar

Raptor er hlaðinn lúxusbúnaði. Vel hönnuðu sporsætin halda vel við og eru úr mjúku leðri og saumurinn er blár sem vekur sérstaka athygli. Raptorinn er með sérstyrktan undirvagn enda er þessi goðsögn pallbílanna dugleg við að fljúga farþegum yfir holt og hæðir frekar en að silast áfram. Bíllinn kemur með læsingu á afturdrifi, vönduðu álloki á palli, hlífum fyrir vél og bensíntank og hann hefur 15 sentimetra meiri sporvídd en Wildtrak og XL bílarnir.

image

Þægileg sportsæti halda manni vel skorðuðum þegar ekið er um gróft vegyfirborð.

Mismunandi akstursstillingar

Svo eru það akstursstilingarnar. Ford Ranger Raptor er búinn tölvustýrðu akstursstýringarkerfi þar sem ökumaður getur valið hvernig hann vill hafa bílinn í mismunandi aðstæðum. Þær eru Baja, sport, vetrar, sandur og leðja, grýtt yfirborð og normal. Hver stilling miðar að því að hámarka afkastagetu bílsins í hverju sinni. Baja stillingin er til dæmis hönnuð út frá hinni víðfrægu Baja 2000 eyðumerkurreið þar sem þol, hæfni og gæði spila inní hverjir klára.

image

Sportlegt litaval - svart leður með bláum saumi einkennir Ford Ranger Raptor.

Að sjálfssögðu er Ford Ranger Raptor hlaðinn öllu hinu nýjasta í bílum Ford árið 2020. Sync 3 raddstýrt samskiptakerfi með sjálfvirkri hringingu í 112, Apple CarPlay, Android Auto, Applink, Bluetooth, bakkmyndavél og hægt að fá með innbyggðu FordPass Connect. Með því kerfi getur þú opnað og læst bílnum, gangsett hann og tengt WiFI hotspot sem gerir allt skemmtilegra og þægilegra.

image

Gott aðgengi er um allt stjórnkerfi bílsins og 8 tommu snertiskjárinn með öllu því helsta í samskiptakerfum bíla dagsins í dag.

Raptor útlit

Ford Ranger Raptor sker sig talsvert úr útlitslega varðandi sambærilega bíla á pallbílamarkaði. Hann kemur á 17 tommu Dino Grey álfelgum, er með sérstakt Raptor grill og Raptor skreytingu á hliðum ásamt Dino Grey hurðarhandföngum, öflugri fram- og afturstuðurum og raptor innstigshlífar. Bíllinn er vel búinn græjum, öflug hljómtæki, DAB tengi og rafdrifin framsæti beggja vegna.

image

FoxPro dempararnir eru með tölvustýrða segulloka sem skynja vegyfirborð og bregðast við eftir því.

Já, það er ekki frá því að þessi bíll láti drauma rætast. Þú getur ferðast hátt og lágt á þessum bíl og hann nýtist um leið sem flottur borgarbíll. Hann er lipur, léttur og er jafnvígur á ísbíltúr í miðborginni eins og hraðferð yfir Sprengisand. Eina sem þarf kannski að staldra við er verðið. Hins vegar er búnaður þessa bíls miklu meiri en bíla í sama flokki á markaðnum og gengið í kjölfar Covid aðstæðna er því miður ekki hagstætt um þessar mundir – en það mun vonandi breytast með hækkandi sól!

image

Nægt pláss er fyrir fimm fullorðna einstaklinga í Ford Ranger bílunum.

Helstu tölur:

Verð frá kr. 11.190 þús. (Verð á reynsluakstursbíl kr. 11.790 þús.)

Vél: 1.996 rms.

Hestöfl: 213 við 3.750 sn.

Newtonmetrar: 500 við 1.750-2.000 sn.

Vaðdýpt: 850 mm.

CO2: 281 g/km.

Eigin þyngd: 2.342 kg.

L/B/H 5359/2208/1873 mm.

Eyðsla bl ak: 10,8 l/100km.

Lengd: 1575 mm.

Hæða á palli: 906 mm.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
Double Cab 4x4 Wildtrak
Fjórhjóladrif2.0L Sjálfskipting. 10 gíra Dísel500 - 213
Double Cab 4x4 Raptor
Fjórhjóladrif2.0L Sjálfskipting. 10 gíra Dísel500 - 213
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Brimborg áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is