Reynsluakstur: Ford Focus, árgerð 2019
Umboð: Brimborg

Nýr Ford Focus

Ford Focus hefur í áranna rás verði verðugur fulltrúi hins dæmigerða fjölskyldubíl, þægileg stærð, fimm hurðir þar með talinn góður afturhleri sem gefur aðgengi að ágætu farangursrými.

image

Fyrsta kynslóðin kom á markað 1998 sem arftaki hins sívinsæla Ford Escort. Kannski ekki mest spennandi bíll í heimi, en náði samt strax árið eftir að hampa titlinum „Bíll ársins í Evrópu“. Næsta kynslóðin kom á markað 2004. Vegna þess hve fyrsta kynslóðin þótt vel heppnuð var ekki miklu breytt, en samt var þessi önnur kynslóð eilítið stærri.

image

Það fer vel um ökumanninn undir stýri, en inn og útstig er aðeins takmarkað þegar búið er að stilla stýri og sæti í bestu stöðu – alla vega í tilfelli þessa reynsluaksturs.

Fjórða kynslóðin – með sportlegri hönnun

Fyrr á þessu ári kynnti Ford til sögunnar fjórðu kynslóðina – og vildi með því halda upp á 20 ára afmæli bílsins. Útlitið tók núna töluverðum breytingum, mun sportlegra en áður, og vel undirstrikað með kraftmeiri línum, nýrri hönnun á fram- og afturenda.

image

Rými í aftursæti, jafnt fyrir höfuð og fætur, er í góðu lagi.

Af öðrum búnaði má undirstrika hve bíllinn er vel búinn í tæknilegu tilliti. Það tekur andartak að tengja símann við hljómtæki bílsins, hægt að svara símanum með hnöppum á stýrishjólinu, eða á stórum snertiskjá í miðju mælaborðsins.

Nýjar vélar og sex gíra handskipting

Grunngerð þessa nýja Ford Focus státar af nýjum vélum þriggja strokka, 1,0 lítra EcoBoost í tveimur útgáfum, 100 og 125 hestöfl. En til að fullnýta aflið er boðið upp á að láta rafeindastýringu stjórna því hvernig vélin skilar aflinu um gírkassann til hjólanna. Val er um þrjár stillingar, Normal/Eco/Sport – meira um það síðar.

image

Mælaborð og stjórntæki eru til fyrirmyndar, allt innan seilingar.

Sá sem þetta skrifar er þeirrar skoðunar að fjölskyldubílar í þessum stærðarflokki eigi að vera sjálfskiptir, en bílaframleiðendur eru ekki alveg sammála þessari skoðun minni, og því er boðið upp á handskipta gírkassa. En hér hefur gírkassinn verði aðlagaður fjölbreyttum akstri og er með sex gíra, sem gerir mögulega að nýta aflið úr mótornum til hins ítrasta.

Einn takki breytir bílnum í „urrandi sportara“

Þegar Gísli Jón Bjarnason rétti mér lykilinn að reynsluakstursbílnum þá benti hann mér á það helsta sem væri sérstakt við þennan bíl, en undirstrikaði jafnframt þá nauðsyn að ég myndi prófa vel mismuninn í aksturslagi sem takkinn sem skiptir um akstursstillingar – Normal/Eco/Sport – hefði á upplifunina í akstrinum.

Góð innrétting

Í heildina litið er innrétting og aðbúnaður góður í þessum nýja Ford Focus. Sætin eru með marga stillimöguleika og halda vel utan um mann í akstri. Þegar ég var búinn að stilla ökumannssætið eins og ég vildi hafa það þá fannst mér inn og útstig ekki eins lipurt og ég vildi hafa það, en vandist fljótt.

image

Líkt og í eldri gerðum Focus er farangursrýmið eitt af aðalsmerkjum bílsins

Allt efni í innréttingu, jafnt í mælaborði og áklæði á sætum eru á pari við það sem gerist best í bílum í þessum stærðarflokki.

Góðir aksturseiginleikar

Miðað við eldri gerðri Ford Focus hefur þessi nýi tekið gott skref framávið hvað varðar aksturseiginleika. Stýrið svarar vel í beygjum, vélin er aðeins sein að svara fyrir neðan 2.000 snúninga á mínútu, en um leið og ökumaðurinn kemst upp á lag með það að nýta alla sex gírana þá er hægt að kalla fram snörp viðbrögð á hvaða hraðsviði sem er.

Niðurstaða

Þessi nýi Ford Focus heldur svo sannarlega uppi merki eldri kynslóðanna þriggja, og gerir gott betur en það.

image

1,0 og 1,5 lítra EcoBoost vélarnar koma þægilega á óvart og eru með nægt afl, sérstaklega sú stærri. Þessi nýja stefna í sparneytnum bílvélum er greinilega að skila sér vel hér

Reynsluakstur á Ford Focus ST line, sjálfskiptum

image

Ford Focus ST-Line er ekki síður skemmtilegur í akstri, meira afl og sjálfskiptingin hentar þessum bíl og gerir hann að fyrirtaks „alhliða bíl“. Aksturseiginleikarnir komu vel fram í rigningunni sem var nóg af á meðan á þessum stutta akstri stóð

Ekki síður skemmtilegur með aflmeiri vél og sjálfskiptingu. Það er nokkuð síðan er við birtum grein um þá splunkunýjan Ford Focus í reynsluakstri. Þá vorum við með staðalgerðina með 1,0 lítra EcoBoost vél, 100 hestöfl og handskiptum gírkassa.

image

En Focus er til í fleiri gerðum og því gripum við tækifærið í rigningunni á dögunum að prófa Ford Focus ST-Line, sem er sérstök útfærsla af Ford Focus.   Hann er sportlegur í útliti með álfótstigum og sportstýri og sérlega skemmtilegur í akstri með aflmeiri vél, en í boði í ST-line eru bæði 125 hestafla og 150 hestafla vélar og sportleg sætin auka enn frekar á akstursánægjuna. Ford Focus ST-Line er vel búinn, með sportfjöðrun og stútfullur af sportlegum eiginleikum.

image
image

Sportlegt útlit er aðalsmerki Ford Focus ST-Line – fjórða kynslóðin af þessum lipra fjölskyldubíl stendur vel fyrir sínu. Kraftmiklar línur í útlitinu undirstrika vel sportlega eiginleika.

Bíllinn sem við fengum í þennan stutta viðbótarakstur er sjálfskiptur, og er skiptingunni stjórnað með snúningsrofa sem liggur flatur þar sem gírstöngin er venjulega. Það tekur smá stund að venjast þessari stýringu á gírskiptingunni, sérstaklega þegar verið er að breyta um akstursstefnu, en eftir mjög skamma stund verður þetta eðlileg hreyfing.

Meira afl og sjálfskipting gera bílinn enn skemmtilegri í akstri, nógu skemmtilegur var hann samt með 100 hestafla vélinni eins og fjallað er um í reynsluakstrinum hér að neðan. Með sjálfskiptingunni breytist lík aðeins hljóðið frá vélinni, urrandi hljóðið úr minni vélinni mildast, en að sama skapi verður viðbragðið snarpara.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is